Evrópski tungumáladagurinn

Fréttir

Erindi Önnu Margrétar Bjarnadóttur á Evrópska tungumáladeginum og myndband frá nemendum skólans

Evrópski tungumáladagurinn var haldinn hátíðlegur þann 26. september síðastliðinn. Í aðdraganda dagsins stóð Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands að umræðum um mikilvægi tungumála og tungumálakennslu. Þjóðþekktir aðilar úr samfélaginu og nemendur voru hvattir til þess að taka þátt í umræðu um þetta þjóðþrifamál. Á facebook-síðu stofnunarinnar voru birt viðtöl og hvatt til þátttöku með því að senda inn myndbönd eða skriflegar hugleiðingar út frá spurningunum:

  • Hvaða gagn er að tungumálakunnáttu?
  • Hvernig finnst þér að tungumálakennsla eigi að vera?

Anna Margrét Bjarnadóttir, dönskukennari og fagstjóri í Víðistaðaskóla, flutti erindi á hátíðardagskrá í Háskóla Íslands í tilefni dagsins og fjallaði um viðhorf gagnvart tungumálakennslu og togstreitu tungumálakennarans í þeim efnum út frá eigin reynslu. Ekki síst hvað varðar glímuna við viðhorf nemenda gagnvart tilgangi þess að læra dönsku, áraunina við að breyta kennsluháttum – ekki síst meðal þeirra nemenda sem eru vanir hefðbundnum kennsluháttum – og glímuna við eigin viðhorf gagnvart hvernig eigi að framfylgja eigin ásetningi um að innleiða nýja kennsluhætti og láta markmið um aukna munnlega færni og áherslu á rauntexta tengda menningu verða að veruleika.

Í Víðistaðaskóla unnu nemendur verkefni um mikilvægi tungumálakennslu í samvinnu milli ensku- og dönskukennara í vikunni fram að Evrópska tungumáladeginum. Nemendur unnu með ofangreindar spurningar og voru hvattir til að velja sjálfir á hvaða tungumáli þeir vildu gera plakatið sitt og/eða myndband. Unnið var í hópum og komu nemendur með margar góðar hugmyndir varðandi virði tungumála og tungumálakennslu. 

Hér að neðan má sjá glærur frá erindi Önnu Margrétar Bjarnadóttur  þar  sem myndbönd frá núverandi og fyrrverandi nemendum skólans eru meðal efnis 

Hér er hægt að nálgast glærur Önnu Margrétar Bjarnadóttur

Hér er líka hægt að kíkja á síðu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og sjá fleiri spennandi myndbrot og hugleiðingar frá nemendum

Ábendingagátt