Fagna áratugastarfi í leikskólum Hafnarfjarðar

Fréttir

Áratugareynsla – eða nær 200 árum –  leynist í fimm starfsmönnum Stekkjaráss sem settust niður og rifjuðu upp starfsferilinn á leikskólum Hafnarfjarðar á síðasta vinnudegi Guðnýjar Steinu Erlendsdóttur. Hún hætti í dag eftir 40 ára feril sem leikskólakennari.

Reynsla sem mörg börn hafa notið góðs af

Guðný Steina Erlendsdóttir mun seint gleyma síðasta starfsdeginum sínum í leikskólanum á Stekkjarási. Hann bar upp á síðasta dag hennar í starfi sem leikskólakennari hér í bænum. Fjórir leikskólar, fjöldi starfstitla, en nú er komið að leiðarenda. Hún hóf störf sem leikskólakennari 9. september 1985, eða fyrir fjörutíu árum, hún þá 19 ára.

„Umhverfið hefur breyst, sem og vinnuaðstaðan. Þá var enginn undirbúningur, engir deildarstjórar og áður engir sérkennslustjórar á leikskólunum. Við vorum tvær með 21 barn.“

Áratugareynsla í hverri og einni

Af um fimmtíu starfsmönnum í Stekkjarási eru þær fimm máttarstólparnir sem allar hafa unnið í áratugi á leikskólum bæjarins. Þær setjast niður og rifja upp tímann. Ingibjörg Þórðardóttir hóf störf 1987, Jenný Marín Helgadóttir árið ´82, Agnes Agnarsdóttir 1997 og Margrét Stefanía í Hafnarfirði 1992 eftir störf á leikskólum í Reykjavík og Selfossi.

En hvað þarf til svo sinna megi leikskólastarfinu svona lengi? Ingibjörg grípur orðið: „Þrautsegja, en einnig gleði og að þykja vænt um starfið. Þetta er starf með krökkum. Þau halda manni við efnið.“ Þær eru sammála um að endurgjöfin frá krökkunum skipti þær miklu máli.

Agnes tekur við: „Já, ég fór í frí og fékk þá spurninguna – ertu hætt að vinna?“ Þau hafi tekið eftir því að hún var ekki á staðnum. „Það þótti mér vænt um. Já, það gaman að vera með börnunum. Erfitt stundum, það þarf þrautsegju, en afar ánægjulegt. Já, við brennum fyrir hag barnanna,“ segir hún og Margrét Stefanía tekur undir. „Já. Þetta eru okkar skjólstæðingar.“

Þurfa að halda sér við

Þær eru sammála um að þær þurfi að fara vel með sig til að geta sinnt starfinu. „Þetta er líkamlega erfið vinna,“ segir Ingibjörg. „Við erum alltaf á gólfinu, skríðandi um. Við verðum að halda okkur í andlega og líkamlega góðu formi.“ Þær hvetja starfssystur sínar til að sinna áhugamálum sínum. „Þannig tæmir þú þig og hleður batteríin.“

Boðið var upp á góðan mat og smá töst-drykk þetta hádegið, enda tímamótin stór. Og tímarnir hafa breyst. „Áður réði kennarinn. Nú er hlustað á börnin,“ segir Guðný Steina og brosir.

Þær hafa starfað svo lengi að þær þekkja orðið kynslóðir. Þær rekja sögur um hvernig þeim er enn heilsað af börnum sem þær kenndu fyrir áratugum. Enn þekki þær andlitin. Þær segja vakningu meðal foreldra sem skiptist á að sækja börnin fyrr en áður á leikskólann.

„Já, þau keppast við að sækja fyrir klukkan fjögur. Þessi vakning hefur verið áberandi síðustu 4-5 árin,“ segja þær.

Vissu að þær vildu vinna með börnum

Fimm saman. Þær eru ánægðar með starfsferilinn. Agnes lýsir því hvernig hún sjálf sem barn ákvað að vinna með börnum. Ingibjörg hvernig hún hafi ætlað að verða þroskaþjálfi, hafi sótt um af rælni í leikskóla og fundið fjölina sína. Margrét Stefannía hvernig hún hafi farið að vinna á leikskóla og svo sótt menntunina eftir hvatningu móður sinnar. Jenný Marín lýsir því að hún vilji engu breyta þegar hún horfi aftur.

„Þetta hefur verið æðislegur tími – að byrja á róló og enda á leikskóla,“ segir hún. „Fullorðið fólk er ennþá að heilsa og minna á sig. Þá hlýt ég hafa gert eitthvað rétt.“

Síðasti dagur Guðnýjar Steinu. „Já, síðustu mínúturnar – skrítið.“ Og sér í land hjá hinum. Ingibjörg sér fyrir sér að vera í starfi næstu tvö árin. Jenný Marín stefnir á að hætta 31. ágúst á næsta ári. Agnes, sem komin er á löglegan eftirlaunaaldur, ætlar í það minnsta að klára skólaárið.

„Engin föst dagsetning,“ segir þessi sérkennslustjóri til tuttugu ára. Margrét Stefánía lítur upp og á Hörpu Kolbeinsdóttur leikskólastjóra sem situr hjá. „Var ég ekki búin að segja upp?“ Þær hlæja. Allar í hlutastarfi og halda þétt í tauminn á starfi sem hefur fylgt þeim og þær elska.

Ábendingagátt