Fagnað að Hafnarfjörður er formlega vottaður barnvænn

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

„Ég er svo ánægð með þetta; að Hafnarfjörður sé loksins orðinn barnvænt sveitafélag eftir mörg ár af skipulagi og fundum og svo mikilli vinnu frá öllum sem komu að þessu,“ sagði Nína Sólveig Svavarsdóttir, fulltrúi ungmennaráðs á viðurkenningarhátíð í Nýsköpunarsetrinu.

Hafnarfjörður barnvænt sveitarfélag

„Ég er svo ánægð með þetta; að Hafnarfjörður sé loksins orðinn barnvænt sveitafélag eftir mörg ár af skipulagi og fundum og svo mikilli vinnu frá öllum sem komu að þessu,“ sagði Nína Sólveig Svavarsdóttir, sem lýkur brátt setu sinn i í ungmennaráði Hafnarfjarðar eftir þriggja ára setu.

„Ég var alin upp í Hafnarfirði og allir sem þekkja mig vita hvað ég tala mikið um þennan bæ. Það mun ekkert minnka núna vegna þess að við getum loksins öll líka verið stolt af því að vera barnvænt sveitarfélag!“

Hugsað um hag barnanna

Afar góð stemning var þegar ungmennaráð Hafnarfjarðarbæjar, fulltrúar UNICEF og bæjarins sem og aðrir gestir fögnuðu því í dag að Hafnarfjarðarbær væri formlega vottaður sem barnvænt samfélag. UNICEF hefur vottað vinnulag bæjarins. Börn í Hafnarfirði geta nú gengið út frá því að unnið sé með hag þeirra í huga. „Stór stund,“ sagði Valdimar Víðisson bæjarstjóri við athöfnina í dag.

„Við erum stolt af börnunum okkar hér í Hafnarfirði. Þau minna okkur á hvað er mikilvægt, að hlusta, að spyrja, að vera skapandi, að hafa hugrekki og að sjá lífið með augum sem leita alltaf að tækifærum. Þau eru hjarta bæjarins okkar,“ sagði hann.

„Það sem mér finnst svo fallegt við þessa vegferð er að nú tökum við ekki ákvarðanir um börnin nema með börnunum. Það er ekki bara slagorð heldur raunveruleg breyting í því hvernig við hugsum og vinnum. Rödd barnanna skiptir máli, og hún heyrist hér í Hafnarfirði.“

Elja og þrautsegja Hafnarfjarðar

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF, sagði í ávarpi sínu að Hafnarfjarðarbær hefði sýnt einstakan ásetning, elju og þrautsegju við að verða barnvænt sveitarfélag, miklu væri að fagna. „Að verða barnvænt sveitarfélag er ekki verkefni sem snýst um að setja X í box á eyðublöðum, alls ekki. Heldur er þetta verkefni sem snýst um að breyta hugarfari,“ sagði hún. Uppskerudagurinn væri sérlega sætur.

„Það er mikilvægt að muna að þetta er varða en ekki áfangastaður. Þið hafið náð gríðarlega miklum árangri í að tryggja þátttöku barna í starfsemi bæjarins og tryggja að starfsemi bæjarins sé betur sniðið að réttindum og þörfum barna, en það er heilmikið eftir,“ sagði hún og að UNICEF hlakkaði til að vinna áfram með bænum.

„Þetta er ekki auðsótt viðurkenning, en ég get sagt ykkur af eigin raun að það er tekið eftir árangrinum sem næst hérna á Íslandi í verkefnum sveitarfélaga um allan heim,“ sagði hún. Árangurinn endurómi víða um heim.

Sveitarfélag sem hlustar á börn

Valdimar tók undir að viðurkenningin væri áfangasigur. „Barnvænt samfélag er samfélag sem er sífellt að hlusta, sífellt að læra og sífellt að gera betur. Við erum ekki að búa til bæ bara fyrir börn, við erum að búa til bæ með börnum. Og það gerir okkur öll ríkari.

Nína Sólveig minnti svo á að vinnan við að vera barnvænt sveitarfélag hætti aldrei. „Og ég vona að komandi kynslóðir, þeir sem fara í næsta stýrihóp, nýja bæjarstjórnin á næsta ári og þeir sem munu taka við af mér í Ungmennaráðinu, muni gera allt til þess að vilja halda þessum titli og þakka öllum sem á undan komu til þess að láta þetta gerast.“

Valdimar þakkaði einnig öllum sem tóku þátt í vegferðinni, þó fyrst og fremst börnunum. „Þið hafið kennt okkur svo margt og eigið allan heiður af því að við stöndum hér í dag,“ sagði hann.

„Til hamingju, Hafnarfjörður! Til hamingju, kæru börn og ungmenni, þetta er ykkar dagur, ykkar viðurkenning og ykkar framtíð.“

 

Ábendingagátt