Fagnar 30 ára starfsafmæli á árinu

Fréttir

Björn Bögeskov Hilmarsson fagnar 30 ára starfsafmæli hjá Hafnarfjarðarbæ í apríl. Böddi, eins og hann er gjarnan kallaður, er klárlega á réttum stað í starfi sem forstöðumaður þjónustumiðstöðvar. Hann er þjónustulundaður fram í fingurgóma, er menntaður í skrúðgarðyrkju og hefur nýtt sína menntun vel í starfi.

Björn Bögeskov Hilmarsson fagnar 30 ára starfsafmæli hjá Hafnarfjarðarbæ í apríl. Böddi, eins og hann er gjarnan kallaður, er klárlega á réttum stað í starfi sem forstöðumaður þjónustumiðstöðvar. Hann er þjónustulundaður fram í fingurgóma, er menntaður í skrúðgarðyrkju og hefur nýtt sína menntun vel í starfi.

Böddi er Kópavogsbúi, búið alla tíð þar og er harður stuðningsmaður Breiðabliks. Í hans tilviki er það líklega kostur að búa ekki í Hafnarfjarðarbæ þar sem hann kæmist tæplega úr vinnunni því verkefnin eru jú nánast óþrjótandi í viðhaldi og þjónustu. Þjónustumiðstöðin fær mikið af ábendingum um það sem má gera betur og 19 starfsmenn gera sitt besta til að greiða úr þeim á degi hverjum. Á 30 árum hefur margt áhugavert drifið á daga í starfi og í þessu viðtali deilir Böddi með okkur skemmtilegum sögum af samskiptum við íbúa, bæjarstjóra og samstarfsmenn. Stundum fá starfsmenn þjónustumiðstöðvar skammir og einstök atvik eru skemmtilegri en önnur eins og Böddi lýsir svo skemmtilega varðandi kvörtun íbúa um garðslátt í Hvömmunum. Annasamasti tími ársins er líklega í janúar þegar von er á öllum veðrum og sumartíminn er einnig mjög annasamur þegar 800 til 1000 manns bætast við starfsmannahópinn með Vinnuskólanum.

Þjónustumiðstöðin hefur lagt sitt af mörkum til að styðja við samfélagsverkefni og í viðtalinu ber á góma afar gott verkefni, sem er nefnt ÁFRAM , og snýst um að koma fólki sem hefur dottið út af vinnumarkaði og á sér stundum sögu sem er niðurbrotið og þarf stuðning til að koma sér aftur inn á vinnumarkaðinn. Í viðtalinu var einnig rætt um hvernig snjalltækni kemur til með að breyta ýmsum verkefnum í þjónustu við íbúa og spennandi verkefni til framtíðar. Margt fleira bar á góma enda ærin verkefnin hjá hinum öfluga hópi þjónustumiðstöðvarinnar.

Hlusta á þáttinn

Viðtöl við áhugaverða einstaklinga sem starf í þágu sveitarfélagsins

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem starfa í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Hlaðvarpið opnar á ítarlegri umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í umræðunni hverju sinni. Hægt er að nálgast alla þætti Vitans á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast og Podcast Addict.

Ljósmynd: Olga Björt Þórðardóttir hjá bæjarblaðinu Hafnfirðingi.

Ábendingagátt