Faldbúningur Rannveigar

Fréttir

Faldbúningur maddömu Rannveigar Sívertsen var afhentur formlega í dag á 272 ára afmælisdegi hennar. Búningurinn, sem unninn er eftir lýsingum úr dánarbúi Rannveigar, verður framvegis til sýnis í Sívertsen-húsinu.

Faldbúningur maddömu Rannveigar Sívertsen var afhentur formlega í dag á 272 ára afmælisdegi hennar. Ákveðið var að ráðast í gerð faldbúnings fyrir tveimur árum síðan, þá á 270 ára stórafmælisdegi Rannveigar. Búningurinn, sem unninn er eftir lýsingum úr dánarbúi Rannveigar, verður framvegis til sýnis í Sívertsen-húsinu. 

Annríki – þjóðbúningar og skart hefur síðustu tvö árin unnið að saumum á faldbúningi maddömu Rannveigar Sívertsen. Maddama Rannveig var kona Bjarna riddara Sívertsen stórútgerðarmanns í Hafnarfirði. Annríki fékk styrk frá menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar til að kynna og koma verkefninu af stað fyrir tæpum tveimur árum síðan.  Í gegnum þessi tvö ár hefur verkefnið fengið góðan liðsauka tíu einstaklinga til gagnaöflunar og sauma enda um að ræða vandasamt verk sem byggir í grunninn á sögu og lýsingum úr dánarbúi Rannveigar. Allir þessir einstaklingar gáfu vinnu sína í verkefnið og er hér um ómetanlegt framlag að ræða til varðveislu á sögulegum minjum Hafnarfjarðarbæjar. Það eru þau hjónin Ásmundur Kristjánsson, vélvirki og gullsmiður og Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri og kjólameistari sem eiga og reka fyrirtækið Annríki – þjóðbúninga og skart. Fyrirtækið sérhæfir sig í öllu því sem viðkemur íslenska þjóðbúningnum. Saumur á faldbúningi fyrir maddömu Rannveigu er eitt af metnaðarfullum gæluverkum þeirra hjóna. Faldbúningurinn er nú tilbúinn og var formlega afhentur í dag bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, Haraldi L. Haraldssyni.

„Fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar færi ég ykkur hjónum okkar bestu þakkir fyrir fallega gjöf sem er safninu til sóma. Það er fyrir áhugafólk og velunnara sem ykkur að Byggðasafn Hafnarfjarðarbæjar hefur nú á að skipa nokkuð góðum safnkosti sem gerir því kleift að setja reglulega upp nýjar sýningar og skipta út munum og myndum. Þetta hefur einungis verið hægt vegna þeirra velvildar sem safnið nýtur í samfélaginu.  “ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri við afhendinguna.   

Faldbúningurinn verður eftirleiðis til sýnis í Sívertsen-húsinu fyrir gesti og gangandi. 

Ábendingagátt