Fallegustu garðar og lóðir bæjarins verðlaunaðir

Fréttir

Í Hafnarfirði er mikið um fallega garða og snyrtilegar lóðir og er ánægjuefni að sjá hversu margir eru iðnir og áhugasamir um að gera fallegt í kringum sig. Vonandi hafa þær viðurkenningar sem veittar eru ár hvert hvetjandi áhrif á íbúa, fyrirtæki og stofnanir í fallega bænum okkar.

Garðar og lóðir sem þóttu skara fram úr í snyrtileika í ár

Í gær fimmtudaginn 7. september voru viðurkenningar veittar í fyrir garða og lóðir sem þóttu skara fram úr í snyrtileika í ár. Margar ábendingar bárust frá bæjarbúum og hefur starfsmaður umhverfis- og skipulagssviðs verið á ferð og flugi í allt sumar til þess að skoða vandlega allar þær tilnefningar sem bárust, ásamt því að koma sjálfur með tillögur að viðurkenningum. Verðlaunahátíðin fór fram við sviðið í nýuppgerðu og litríku Hellisgerði og sá Tinna Bessadóttir í Álfakaffi fyrir fallegum og góðum veitingum fyrir gesti.

Verktakafyrirtæki fá viðurkenningu í fyrsta sinn

Í Hafnarfirði er mikið um fallega garða og snyrtilegar lóðir og er ánægjuefni að sjá hversu margir eru iðnir og áhugasamir um að gera fallegt í kringum sig og vonandi munu þær viðurkenningar sem veittar voru í Hellisgerði í gær hvetja aðra bæjarbúa til dáða, að huga að görðum sínum og lóðum og leggja þannig sín lóð á vogarskálarnar ti þess að bærinn okkar verði enn fallegri. Í ár var enginn garður valinn fallegri en annar, en allir hafa þér eitt sameiginlegt, þeir eru snyrtilegir og til mikillar prýði. Í fyrsta sinn fengu verktakafyrirtæki viðurkenningu fyrir vandaðan og fallegan frágang á tveimur svæðum. Dvergsreitnum og Stekkjarbergi. Lagður hefur verið metnaður í ganga frá sameiginlegum garðrýmum á faglegan hátt, hellulagðar gönguleiðir með snjóbræðslu, gróðurbeðum og lýsingu. Það skiptir svo miklu máli að nýbyggingar séu gerðar þannig úr grasi að þær falli vel að umhverfinu og að öll garðrými séu aðlaðandi og vel úr garði gerð. Það er ekki alltaf sem verktakafyrirtækin leggja metnað í ganga frá grænum svæðum, en í þessum tveimur tilfellum hefur GG verk staðið sig með mikilli prýði og eru því vel að þessum viðurkenningum komnir.

Hér að neðan má sjá lista yfir þá verðlaunagarða og lóðir sem hlutu verðlaun í ár, ásamt umsögn frá umhverfis og skipulagssviði Hafnarfjarðarbæjar.

Dvergsreiturinn Lækjargötu 2

Hér hefur verið gerð mikil breyting á miðbæjarrými sem tekist hefur verið ákaflega vel.  Það sem vekur eftirtekt er að reiturinn tekur mið af umhverfi sínu og þessi húsaklasi er í réttum skala en samt með nútímalegt yfirbragð. Garðrýmið leikur stórt hlutverk fyrir eigendur húsanna, þarna eru göngutengingar, fallegur gróður og yfirbragð allt fágað og fallegt. það er einhvern veginn góður andi á þessum stað.

Stekkjarberg 9

Hér hefur einnig tekist einstaklega vel að gera Stekkjarbergið að nútímalegum og fallegum reit í jaðri hins friðaða Stekkjarhrauns.  Þessi staður er einstakur í bænum, skjólgóður og með aðgengi að einstakri náttúruperlu með tengingar yfir í upplandið og í miðbæ. Mjög metnaðarfullur frágangur á garðsvæðum með hellulögðum gönguleiðum ásamt lýsingu og fallegum gróðri. Það er svo mikilvægt eins og þessi bæði dæmi sanna, að gera garðrýmin aðlaðandi og falleg.  Þau laða til sín fólk og auka á alla ánægju og útiveru og gera gæði svæðanna svo miklu betri. Það að dvelja í fallegu garðrými hafa jákvæð áhrif á alla vegu.

Álfaskeið 16

Þessi garður hefur vakið mikla athygli bæjarbúa um langt skeið.  Við höfum fylgst með honum um nokkurn tíma en framkvæmdagleðin er það mikil að alltaf hefur verið eitthvað í bígerð sem hefur komið í veg fyrir viðurkenningu -þar til nú. Þvílíkt úrval af plöntum og þá aðallega fjölæringum, en úrvalið þar er sérstaklega fjölbreytt.  Þarna eru fallegar hellulagnir, gróðurhús, listmunir krúsidúllur og allavegana fínerí. Það er ljóst að hér er mikill garðaáhugi fyrir hendi.  Okkur finnst fallegt hvernig hraunið og landslagið hefur fengið að vera hluti af þessari uppbyggingu garðsins. Það er mat okkar að þessi garður er mjög fallegur og til mikillar prýði.

Eva Maria Helena Morland og Gísli Jónsson

Fjóluhlíð 12

Það var sérlega ánægjulegt að keyra inn Fjóluhlíðina á björtum sumardegi og sjá þennan glaðlega garð sem tók vel á móti gestum götunnar. Þvílík gróska og fjölbreytni í gróðri, mikil alúð er lögð við hvert einasta smáatriði. Öll beðin fagurlega kantskorin, og grasið mótað í skemmtileg mjúk form.  Það sem vakti sérstaka athygli var að það var búið að merkja hverja einustu plöntu með litlum merkimiða.  Þetta var mjög skemmtilegt að sjá. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eigendur Fjóluhlíðar 12 enda er þessum garði mjög vel viðhaldið ár eftir ár.

Birna Bertha Guðmundsdóttir og Pétur Joensen

 

Spóaás 24

Þessi garður er búinn að vera fallegur um árabil, hann er smart, nútímalegur og fjölskylduvænn. Pallaefni fengið að grána fallega og mikið úrval af fallegum plöntum.  Hef eiginlega aldrei sé svo fallegt gras áður. Eigendur flytja inn eigin garðhúsgögn sem verður að teljast mikill metnaður og svo er þarna líka geggjað útieldhús. Útsýnið gerir þennan garð eiginlega bara geggjaðan.

Lovísa Traustadóttir

Víðiberg 7

Þetta er ekki beint fjölfarin gata og varð að notast við ja.is til að finna hana. En mikið sem aðkoman að þessu húsi er snyrtileg og vinaleg.  Mikil fjölbreytni í gróðri og í garðaflórunni almennt.  Þarna eru eigendur enn að bæta við nýjum gróðri og mátti sjá skemmtilega nýgræðinga sem nýlega var búið að setja niður. Eigendur fá líka hrós og þakkir fyrir að slá nokkuð myndarlega grasbala sem er fyrir framan húsið.  Virkilega snyrtilegt allt í kringum þetta hús.

Glæsilegir fulltrúar, fjölskylda Jóhannesar og Ásgerðar, tóku við verðlaunum fyrir þeirra hönd.

 

Birkiberg 8

Enn og aftur er Birkibergið að vekja athygli fyrir snyrtimennsku og fallega garða.  Hér er eldri garður sem hefur elst sérlega vel.  Falleg aðkoma og planlausnir vel leystar þar sem hvert rými fær notið sín. Þessi garður er mjög smart og tengist náttúrunni á fallegan hátt.

Ásthildur Ragnarsdóttir

Ábendingagátt