Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan að hefjast

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavinna verður í Hafnarfirði 13.-17. október. Vikan er árleg og varpar ljósi á góða starfið sem þar er unnið. „Vikan er alltaf skemmtileg,“ segir Jón Leví Steinsson, verkefnastjóri Vitans í Lækjarskóla.

Góð vika til að kynnast starfinu

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavinna verður í Hafnarfirði í næstu viku. Vikan hefur það að markmiði að varpa ljósi á mikilvægi og virði þessa vettvangs fyrir börn og ungmenni. Foreldrar, forráðamenn, systkini, vinir og aðrir aðstandendur eru hvött til að kynni sér starfsemi stöðvanna í sínu hverfi og fjöldi viðburða í boði.

„Já, við ætlum að fagna félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum í næstu viku,“ segir Jón Leví Steinsson, verkefnastjóri félagsmiðstöðvarinnar Vitans í Lækjarskóla og einn þeirra fjölmörgu sem starfar með krökkunum í félagsmiðstöðvum bæjarins. Við fáum smá innsýn inn í næstu viku Vitans.

Skemmtileg vika til að kynnast starfinu

„Já, vikan er einu sinni á ári. Það er alltaf ótrúlega gaman og þessi vika góð leið til að kynnast starfinu okkar.“ Jón Leví segir til að mynda að ungmennin í Vitanum verði með opið hús fyrir vini og vandamenn á miðvikudag.

„Þá ætla nemendur að bjóða upp á pönnukökur og kaffi; bjóða ættingjum og vinum og sýna þeim félagsmiðstöðina, ræða starfið og hvað þau eru að gera hér.“ Krakkarnir verji mörg þremur kvöldum á viku í félagsmiðstöðinni og því áhugavert fyrir öll sem standi þeim næst að sjá hvernig starfið fer fram.

„Þau ræddu hvort steikja ætti íslenskar eða amerískar pönnukökur. Mér heyrist að þær amerísku hafi orðið ofan á. Minni vinna en að rúlla öllu upp,“ segir hann og hlær. „Á mánudag verðum við svo með fótboltamót í íþróttasalnum og horfum til þess á föstudag að vera með hraðvináttumót.“

Jón Leví segir að meðaltali 50 unglinga mæta í Vitann hverju sinni, alls ekki öll úr Lækjarskóla. „Við fáum marga krakka úr öðrum skólum, enda erum við miðsvæðis hér í Hafnarfirði. Íþróttahúsið trekkir líka að,“ segir hann en þar spili ungmennin gjarnan fótbolta og körfubolta.

Hlutverk félagsmiðstöðva

Hlutverk félagsmiðstöðva er að bjóða börnum og unglingum upp á frístundastarf sem hefur forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Mikilvægt er að bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi.

Áhersla er lögð á að virkja börn og unglinga til þátttöku og framkvæmda í starfinu. Félagsmiðstöðvarstarfið er fjölbreytt og er dagskrá unnin með ungmennum. Þær standa einnig að stærri viðburðum eins og Grunnskólahátíð, söngvakeppni, Hafnarfjarðarstíl og spurningarkeppninni Veistu svarið svo eitthvað sé nefnt. Einnig taka þau þátt í stærri viðburðum á landsvísu eins og Söngvakeppni Samfés, Samfestingnum og Rímnaflæði.

Félagsmiðstöðvar eru starfræktar í öllum hverfum við alla níu grunnskóla sveitarfélagsins. Þá er ungmennahús í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn og Kletturinn í Húsinu Suðurgötu 14. Í þessu síðarnefnda er boðið fjölbreytt tómstundastarf fyrir börn og ungmenni með fötlun. Sjá dagskrá vikunnar:

Unga fólkið duglegt að mæta í félagsmiðstöðvar

Jón Leví segir starfsmenn félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar sammála um að unga fólkið sé duglegt að mæta í félagsmiðstöðvarnar og hafi gaman að. „Við erum til að mynda dugleg að auglýsa dagskrána hér í Lækjarskóla og fá nemendaráðið okkar til að auglýsa. Þau eru okkar pepparar innan skólanna.“

Hann segir skemmtilegast að vinna sem verkefnastjóri í félagsmiðstöð þegar unglingarnir gefi sér tíma til að spila og spjalla. „Já, það eru uppáhaldsvaktirnar mínar,“ segir hann. „Við bjóðum krökkunum öruggt rými þar sem þau fá að vera þau sjálf og hitta vini sína.“

Sjálfur hefur Jón Leví nú stundað félagsmiðstöðvarnar síðan hann var unglingur, nú jú sem starfsmaður. „Við sem hér vinnum fáum rosalega oft að heyra: Eruð þið í alvörunni að fá borgað fyrir þetta? Ég hvet unga fólkið alltaf til að sækja um svona starf þegar þau verða eldri. Þetta verður ekki þreytt. Enginn dagur er eins og hér snýst allt um að hafa gaman. Njóta lífsins.“

Endilega skoðið ykkar félagsmiðstöð og kynnið ykkur starfið!

Ábendingagátt