Ferðalag áskorunar Skemmtiferðarinnar um vinnustaðinn Hafnarfjarðarbæ

Fréttir

Hvatningar- og vitundarverkefnið Skemmtiferðin fór af stað með skemmtilega sipp-áskorun í byrjun apríl, sem öll áhugasöm hafa getað tekið þátt í. Hefur áskorun um sipp og sippuband meðal annars ferðast á milli fjölbreyttra starfsstöðva Hafnarfjarðarbæjar og vakið mikla lukku meðal starfsfólks og ákveðna vakningu um auðvelda og einfalda hreyfingu á vinnutíma.

Vitundarvakning um auðvelda og einfalda hreyfingu á vinnutíma

Hvatningar- og vitundarverkefnið Skemmtiferðin fór af stað með skemmtilega sipp-áskorun í byrjun apríl, sem öll áhugasöm hafa getað tekið þátt í. Hefur áskorun um sipp og sippuband meðal annars ferðast á milli fjölbreyttra starfsstöðva Hafnarfjarðarbæjar og vakið mikla lukku meðal starfsfólks og ákveðna vakningu um auðvelda og einfalda hreyfingu á vinnutíma.

Sippubandið hefur komið víða við síðustu vikur

Ferðalagið hófst í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og hefur síðan þá komið meðal annars við í leikskólum, grunnskólum og ráðhúsi bæjarins. Áskorunin endaði hjá Geitungunum sem er nýsköpunar- og atvinnuþjálfun fyrir fatlað fólk á vegum Hafnarfjarðarbæjar og þar kviknaði skemmtileg hugmynd um framleiðslu og sölu heimatilbúinna sippubanda. Geitungarnir eru með alla anga úti og taka fagnandi á móti spennandi verkefnum og hugmyndum sem kalla á krafta hópsins.

Hægt er að fá sippuböndin bæði í barnastærðum og fullorðinsstærðum.

Viltu „sippa“ þig upp fyrir sumarið?

Geitungarnir hafa þegar hafist handa við framleiðslu á sippubandinu góða og bjóða til sölu gegn vægu gjaldi. Að sjálfsögðu leggja Geitungarnir áherslu á umhverfisvæna framleiðslu og nota vítamínstauka og gamlar snúrur í framleiðsluna. Hægt er að kaupa sippuband í barna- og fullorðinsstærð hjá Geitungunum með því að heimsækja Geitungabúið, búð Geitunganna, að Suðurgötu 14 í Hafnarfirði. Geitungabúið er opið alla virka daga frá kl 8-16 en einnig er hægt að hafa samband við Geitungana í gegnum netfangið: thordisru@hafnarfjordur.is

Snorri og Skemmtiferðin fengu Íslensku lýðheilsuverðlaunin 2023

Snorri Már Snorrason, með framtak sitt Skemmtiferðin, fékk Íslensku lýðheilsuverðlaunin í flokki einstaklinga árið 2023. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á mikilsverðu framlagi á sviði lýðheilsu og auka með þeim hætti áhuga á bættri heilsu og líðan almennings. Forseti Íslands afhenti verðlaunin sem voru afhent í fyrsta sinn í ár. Snorri Már hefur barist við parkinson í 19 ár og í þeirri baráttu hefur hreyfing verið hans helsta vopn. Hann heldur úti facebook-síðunni Skemmtiferðin og hefur verið óþreytandi að benda á gagnsemi og mikilvægi hvers konar hreyfingar. Ekki bara sem forvörn gegn heilsubrest og heilsuleysi heldur líka sem meðferð við sjúkdómum og til þess að halda niðri einkennum ólæknandi sjúkdóma.

Heilsubærinn Hafnarfjörður hvetur Hafnfirðinga og vini Hafnarfjarðar til að draga fram sippuböndin eða fjárfesta í slíku og „sippa“ sig inn í sumarið.

Ábendingagátt