Ferðamálaþing höfuðborgarsvæðisins og “nýr” segull í Hafnarfirði

Fréttir

Ferðamálaþing höfuðborgarsvæðisins var haldið í Salnum í Kópavogi í lok október en það var nýstofnuð Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins sem boðaði til þingsins. Alls sóttu rúmlega 100 manns þingið, þar á meðal nokkrir fulltrúar frá Hafnarfjarðarbæ.

Tekur á málefnum sem brenna á ferðaþjónustunni hverju sinni

Ferðamálaþing höfuðborgarsvæðisins var haldið í Salnum í Kópavogi í lok október en það var nýstofnuð Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins sem boðaði til þingsins. Alls sóttu rúmlega 100 manns þingið, þar á meðal nokkrir fulltrúar frá Hafnarfjarðarbæ. Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, formaður menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðar, flutti þar meðal annars erindi um endurnýjun á segli í hjarta Hafnarfjarðar; Hellisgerði. Ferðamálaþing mun vera árlegur viðburður hjá Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins þar sem snert verður á málefnum sem brenna á ferðaþjónustunni hverju sinni.

Málefni tengd sjálfbærni, umhverfisvitund, mannréttindum og nýsköpun í ferðaþjónustu  

Á Ferðamálaþingi höfuðborgarsvæðisins var m.a. rætt um málefni tengd sjálfbærni, umhverfisvitund, mannréttindum og nýsköpun í ferðaþjónustu, ásamt því að farið var yfir segla höfuðborgarsvæðisins. Fyrirlesarar á þinginu snertu öll á þessum málefnum á einn eða annan hátt en fyrirlesarar voru Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna,  Eva María Þ. Lange eigandi Pink Iceland, Davíð Örn Ingimarsson eigandi Iceland Cover, Guðbjörg Oddný Jónasdóttir formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs í Hafnarfirði, Kamma Thordarson verkefnastjóri hjá Athafnaborginni Reykjavík, Hjalti Már Einarsson viðskiptaþróunarstjóri Datera, Inga Hlín Pálsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og formaður SSH. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður stjórnar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, opnaði ferðamálaþingið þar sem hún fór m.a. yfir aðdraganda stofnunar stofunnar. Guðlaugur Kristmundsson framkvæmdastjóri FlyOver var fundarstjóri.

Hellisgerði – “nýr” segull í hjarta Hafnarfjarðar

Árið 1923 hóf Málfundafélagið Magni markvissa ræktun í Hellisgerði í viðleitni til að komu upp skemmti- og blómagarði fyrir Hafnfirðinga. Á ár 100 árum síðar er Hellisgerði hrauni prýddur skrúðgarður sem laðar fólk víða að, ekki síst á aðventunni þegar hann umbreytist í ævintýraveröld ljósa og lystisemda. Undanfarin ár hefur sérstaklega verið lagt í að skreyta garðinn í takt við árstíðir og einnig þær fjölmörgu hátíðir sem eiga sér stað í Hafnarfirði allt árið um kring. Í Hellisgerði er stórt svið þar sem tónlist fær að óma og listafólk stígur á stokk. Sérstök áhersla er lögð á upplifun og afþreyingu fyrir börn og barnafólk en þó nýtur fólk á öllum aldri þess að ganga um garðinn og njóta tilverunnar og fegurðarinnar. Mikil áhersla hefur verið lögð á endurbætur og aukið aðgengi síðustu mánuði og ár þannig að öll sem vilja fái tækifæri til að upplifa garðinn. Í Hellisgerði er eitt mesta þéttbýli álfa og huldufólks á Íslandi. Þar er líka fallegt kaffihús, Litla Álfabúðin, sem opin er á aðventunni og yfir sumartímann.

Þróun og markaðssetning á höfuðborgarsvæðinu í heild

Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins ses. var stofnuð 3. apríl 2023 af Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins er að þróa og markaðssetja höfuðborgarsvæðið í heild m.a. undir merkjum Visit Reykjavík. Áhersla er á að efla atvinnustarfsemi og auka  gjaldeyristekjur. Samstarfssamningur Hafnarfjarðarbæjar og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins ses. til tveggja ára var undirritaður nýverið.

Vefur Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins ses. 

Facebooksíða Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins ses.

Ábendingagátt