Fimmtán mánaða innritunaraldur leikskólabarna

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur undanfarin ár unnið jafnt og þétt að lækkun innritunaraldurs á leikskóla svo börn hefji leikskóladvöl árið sem þau verða 18 mánaða.

Hafnarfjarðarbær hefur undanfarin ár unnið jafnt og þétt að lækkun innritunaraldurs á leikskóla svo börn hefji leikskóladvöl árið sem þau verða 18 mánaða. Í janúar 2017 bauð Hafnarfjarðarbær 16 og 17 mánaða gömlum börnum, fæddum í apríl og maí 2015, dvöl í leikskóla.  Frá og með hausti 2017 verður börnum sem eru fædd frá janúar til og með maí 2016 boðið að hefja dvöl í leikskóla og verða því yngstu börnin 14 og 15 mánaða þegar þau byrja á leikskóla.

Með þessu hefur Hafnarfjarðarbær aukið verulega þjónustustigið við barnafjölskyldur. Frá og með áramótum var einnig bætt verulega í niðurgreiðslur til dagforeldra og sérstök niðurgreiðsla er greidd eftir 18 mánaða aldur og þjónusta dagforeldra því raunverulegur valkostur fyrir foreldra ungra barna.

Þessar aðgerðir eru í takt við ákvörðun fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 1. júní 2015 sem samþykkt var hjá bæjarráði, í umboði bæjarstjórnar, þann 13. ágúst sama ár. Innritunaraldur hefur verið lækkaður um tvo mánuði á ári við hverja innritun og stefnt að því að börn verði 18 mánaða á því ári sem þau innritast á leikskóla.

Ungbarnadeildir sem eru starfandi við leikskóla í Hafnarfirði í dag eru 7 talsins en leikskólarnir eru alls 17.

Nánar:
Upplýsingar um leikskóla í Hafnarfirði
Upplýsingar um þjónustu dagforeldra

Ábendingagátt