Fjarðarkaup hlaut hvatningarverðlaunin

Fréttir

Hvatningaverðlaun Markaðsstofu Hafnarfjarðar voru veitt í sjöunda sinn síðastliðinn fimmtudag við hátíðlega og skemmtilega athöfn í Hafnarborg. Fjarðarkaup, sem fagnar 50 ára afmæli í sumar,  fékk hvatningaverðlaunin að þessu sinni. Einnig voru veitar viðurkenningar til fjögurra aðila fyrir starfsemi í þágu eflingar atvinnulífs og bæjaranda í Hafnarfirði.

Sérstakar viðurkenningar hlutu Litla hönnunar búðin, Ísfell, Jólaþorpið og Guðmundur Fylkisson

Hvatningaverðlaun Markaðsstofu Hafnarfjarðar voru veitt í sjöunda sinn síðastliðinn fimmtudag við hátíðlega og skemmtilega athöfn í Hafnarborg. Fjarðarkaup, sem fagnar 50 ára afmæli í sumar,  fékk hvatningaverðlaunin að þessu sinni meðal annars fyrir frábært vöruúrval, vinalega og góða þjónustu og fyrir að gera verslunarferðirnar skemmtilegri enda umlykur einhver sérstakur andi og stemmning búðina og margir tala um að það sé alltaf einstök upplifun að fara í Fjarðarkaup. Við athöfnin voru einnig veittar viðurkenningar til fjögurra aðila fyrir starfsemi í þágu eflingar atvinnulífs og bæjaranda í Hafnarfirði.

Tilkynning á vef Markaðsstofu Hafnarfjarðar

Umsagnir um viðurkenningarhafana

Fjarðarkaup

Fjarðarkaup er handhafi Hvatningarverðlauna Markaðsstofu Hafnarfjarðar árið 2023. Þetta farsæla fjölskyldufyrirtæki, sem fagnar 50 ára afmæli í sumar, er vissulega hornsteinn verslunar og þjónustu í Hafnarfirði og einnig eitt þeirra fyrirtækja sem Hafnfirðingar eru hvað stoltastir af. Fjarðarkaup fær þessi verðlaun fyrir frábært vöruúrval, vinalega og góða þjónustu og fyrir að gera verslunarferðirnar skemmtilegri. Það er einhver sérstakur andi og stemmning sem umlykur búðina og margir tala um að það sé alltaf einstök upplifun að fara í Fjarðarkaup. Búðarferðir verða reyndar stundum aðeins lengri, enda hittist fólk þar gjarnan og spjallar. Fjarðarkaup er nefnilega líka á sinn hátt félagsmiðstöð bæjarins. Í þessari einstöku verslun eru eigendurnir einnig sýnilegir og ganga greinilega í hin ýmsu störf. Í dag starfa þrjú af fjórum börnum þeirra Sigurbergs og Ingibjargar í versluninni og næsta kynslóð er einnig farin að láta til sín taka. Það er greinilegt að þeirra starf er vel metið, eða eins og segir í einum rökstuðningi sem við fengum sendan: „Upplifunin er ávallt sú að stjórnendur Fjarðarkaupa taka þetta extra skref til þess að fara fram úr væntingum.“

 

Litla Hönnunar Búðin

Litla Hönnunar Búðin hefur verið ómissandi hluti af Strandgötunni í rúm átta ár. Þar má finna fjölbreytt úrval af hönnunar- og listmunum, gjafavöru og fallegum hlutum til að gleðja sjálfan sig og aðra. Reglulega koma inn nýjar og spennandi vörur, gjarnan frá hönnuðum sem styðja við umhverfisvitund og sjálfbærni. Búðin setur líka skemmtilegan brag á bæjarlífið með ýmsum uppákomum og viðburðum til að laða fólk að í miðbæinn okkar. Eða eins og sagði í einum rökstuðningi fyrir tilnefningu „frábær búð og væri miðbærinn svo sannarlega ekki eins án hennar.“ Eigendur Litlu Hönnunar Búðarinnar eru hjónin Sigríður Margrét Jónsdóttir og Elvar Gunnarsson.  Sigríður Margrét hefur í gegnum árin verið ákaflega virk í ýmsu félagsstarfi tengdu bænum okkar og ber hag hans greinilega í brjósti. Þar má þá helst nefna stjórnarsetu hennar í Markaðsstofu Hafnarfjarðar þar sem hún átti sæti í fimm ár og þar af sem formaður í fjögur ár. Litla Hönnunar Búðin hefur í gegnum árin fengið margar tilnefningar til hvatningarverðlauna en það aldrei talið viðeigandi að veita henni verðlaunin vegna stjórnarsetu Sigríðar Margrétar. Núverandi stjórn markaðsstofunnar taldi því tími til kominn að veita Litlu Hönnunar Búðinni viðurkenningu og vill hvetja hana til að halda áfram að laða fólk að í fallega bæinn okkar.

Ísfell

Ísfell við Óseyrarbraut, sem hefur verið starfandi í 30 ár, er leiðandi í þróun, framleiðslu og þjónustu á veiðarfærum. Þá sérhæfir fyrirtækið sig einnig í fiskeldisþjónustu og hífi- og fallvarnalausnum. Höfuðstöðvarnar eru hér í Hafnarfirði en Ísfell er jafnframt með átta starfsstöðvar víðs vegar um landið. Hér er á ferðinni ákaflega metnaðarfullt fyrirtæki sem hugar vel að öryggis- og gæðamálum, sjálfbærni og samfélagsábyrgð og hefur meðal annars tileinkað sér fimm grundvallarviðmið Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Vöruúrval þeirra er einnig orðið ansi mikið en þar má meðal annars finna ýmsan vinnu- og sjófatnað, snjókeðjur, verkfæri og margt fleira. Þótt starfsemin tengist aðallega sjávarútvegi þá teygir hún anga sína einnig víðar, en jólatrén í Jólaþorpinu eru víst alltaf bundin saman með grænu fjögurra millimetra bætigarni frá Ísfelli. Fyrirtækið, sem vissulega má nefna sem eitt af öflugri iðnaðarfyrirtækjum í Hafnarfirði, hefur verið mun sýnilegra að undanförnu og fékk meðal annars nýtt merki á síðasta ári, í tilefni af 30 ára afmæli sínu, og fyrir nokkrum vikum settu þau nýja og glæsilega vefsíðu í loftið. Ísfell hefur í gegnum árin einnig styrkt ýmis íþróttafélög og félagasamtök og þá sérstaklega verið öflugur styrktaraðili björgunarsveita víðs vegar um landið.

Jólaþorpið

Jólaþorpið okkar fagnar 20 ára afmæli sínu í ár. Segja má að þorpið sé ein besta markaðssetning á Hafnarfirði sem gerð hefur verið. Þorpið dregur til sín þúsundir gesta ár hvert og er ekki einungis vinsæll söluvettvangur fyrir ýmis konar gjafavöru, gómsætt ljúfmeti, handverk og hönnun, heldur njóta hafnfirskar verslanir, kaffihús og veitingastaðir einnig góðs af veru þess. Heimsókn í Jólaþorpið er orðin ein af jólahefðum fjölmargra fjölskyldna, vinahópa og einstaklinga sem vilja upplifa hlýlega og afslappaða jólastemningu. Gestirnir koma víðs vegar að á landinu og þá hefur einnig orðið fjölgun á erlendum ferðamönnum sem heimsækja þorpið og fallega íslenska jólabæinn Hafnarfjörð.   Jólaævintýrið hefur einnig vaxið mikið á undanförnum árum. Má þar helst nefna ljósadýrðina í Hellisgerði og Hjartasvellið, en einnig var ákaflega gaman að fá Kastljósið frá RÚV í bæinn síðastliðna Þorláksmessu. Jólaþorpið er risastórt verkefni sem ótrúlega margir starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar koma að hvort sem það snýr að skipulagningu eða öllum handtökunum sem fylgja uppsetningu, viðhaldi og frágangi. Á allt þetta starfsfólk hrós skilið.

Guðmundur Fylkisson

Guðmundur Fylkisson fær viðurkenningu fyrir að hafa annars vegar tekið Lækinn okkar Hafnfirðinga í fóstur og hlúð að fuglunum þar og hins vegar fyrir myndatökurnar af bænum úr láði og lofti. Guðmundur er kannski einna þekktastur fyrir að aðstoða foreldra við leit að börnum þeirra eða ungu fólki sem leiðst hefur út í óreglu eða vandræði. Hann er hins vegar líka mikill fuglavinur og fyrir tíu árum veitti hann því athygli að andarungarnir við Lækinn voru ekki að komast á legg og ákvað að taka málin í sínar hendur. Hann fékk heimild hjá Hafnarfjarðarbæ til að taka Lækinn í nokkurs konar fóstur og lét m.a. gera ramba til að auðvelda fuglunum að komast á milli svæða. Þá byggði Guðmundur yfir andarhreiðrin í eyjunum til að varna því að sjófuglinn kæmist í egg og unga. Hann er jafnframt duglegur að gefa fuglunum að borða og hefur hvatt aðra til að gera slíkt hið sama, sérstaklega í því mikla frosti sem hefur verið undanfarnar vikur og mánuði. Frá árinu 2014 hefur Guðmundur einnig verið ötull með myndavélina og tekið fjöldann allan af drónamyndum af Hafnarfirði. Þar hefur hann meðal annars náð að skrá byggingarsögu bæjarins með því að taka myndir af helstu uppbyggingasvæðunum áður en framkvæmdir hefjast, meðan á þeim stendur og eftir að þeim lýkur. Bæjarbúar og brottfluttir hafa því fengið að fylgjast með þróun bæjarins nánast í beinni útsendingu í Facebook hópnum Hafnarfjörður og Hafnfirðingar. Öllum er líka leyfilegt að nota myndirnar.

Myndir frá athöfninni teknar af Huldu Margréti Óladóttur

Ábendingagátt