Fjárhagsáætlun 2024 samþykkt

Fréttir

Ríflegur afgangur af rekstri Hafnarfjarðarbæjar og álagningarhlutföll fasteignagjalda lækka. Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar, sem samþykkt var í bæjarstjórn í gær, gerir ráð fyrir 1.725 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta sveitarfélagsins á næsta ári.

Ríflegur afgangur af rekstri Hafnarfjarðarbæjar og álagningarhlutföll fasteignagjalda lækka

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar, sem samþykkt var í bæjarstjórn í gær, gerir ráð fyrir 1.725 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta sveitarfélagsins á næsta ári. Rekstur A-hluta verður jákvæður um 861 milljón króna á árinu 2024 samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 5,4% af heildartekjum eða 2.619 milljónir króna.

Skuldaviðmið lækkar, útsvarsprósenta óbreytt og lækkun á álagningarprósentu fasteignaskatts

Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðarbæjar er góð og er áætlað að skuldaviðmið sveitarfélagsins haldi áfram að lækka og verði komið niður í um 86% í árslok 2024, sem er vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Útsvarsprósenta verður óbreytt og álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúða- og atvinnuhúsnæði lækkuð úr 0,223% í 0,217% til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats. Þá verður álagningarprósenta fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði lækkuð úr 1,400% í 1,387%. ,,Áfram er lögð áhersla á að rekstur Hafnarfjarðarbæjar sé agaður og virðing borin fyrir fjármunum skattgreiðenda. Góður rekstur undanfarin ár hjálpar til nú þegar efnahagsaðstæður í þjóðfélaginu eru krefjandi,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. ,,Við gerum ráð fyrir ríflegum afgangi af rekstrinum og viljum sjá skuldahlutföll bæjarins halda áfram að lækka. Í því skyni er mikilvægt að halda lántökum í lágmarki. Á sama tíma er lögð áhersla á að efla enn frekar þjónustu við bæjarbúa og mikilli innviðauppbyggingu haldið áfram.“ 

Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins með áætluð heildarútgjöld sem nema um 43,0 milljörðum króna og áætlaðan launakostnað upp á 24,7 milljarða króna. Útkomuspá þessa árs gerir ráð fyrir 680 milljón króna afgangi árið 2023.

Helstu tölur úr fjárhagsáætlun 2024

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 1.725 milljónir króna
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 861 milljón króna
  • Skuldaviðmið áætlað um 86% í árslok 2024
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 2.619 milljónir króna eða 5,4% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta óbreytt eða 14,7%
  • Álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúða- og atvinnuhúsnæði lækkuð til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats
  • Gert er ráð fyrir almennri hækkun gjaldskrár um 9,9% til þess að mæta verðlags- og launahækkunum umfram áætlanir þessa árs og væntanlegri verðbólgu næsta árs. Komið getur til endurskoðunar á gjaldskrám gefi niðurstöður kjarasamninga tilefni til þess. Gjaldskrá vegna sorphirðu er almennt að hækka um 9,9% en breytt samsetning sorpíláta hjá íbúum getur dregið talsvert úr þeirri hækkun
  • Frístundastyrkir til ungmenna hækka úr 54.000 í 57.000 krónur
  • Áætlaðar fjárfestingar nema tæplega 8,5 milljörðum króna

Nokkrar helstu fjárfestingar í nýrri fjárhagsáætlun

Fjárheimild til framkvæmda fyrir árið 2024 er um 8,5 milljarðar króna. Í nýrri fjárhagsáætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í þágu grunnþjónustu, svo sem umhverfismála, samgangna, íþróttaaðstöðu, húsnæðis og fráveitumála.

  • Frágangur á nýbyggingarsvæðum víðs vegar um bæinn
  • Endurgerð gatnamóta, gangstétta og gönguleiða og efling hjólreiðaleiða
  • Endurnýjun eldri leiksvæða
  • Fjölgun á grenndarstöðvum
  • Áhersla á aukinn gróður í hverfum bæjarins
  • Endurbætur og viðhald á skólahúsnæði og -lóðum
  • Hafinn undirbúningur að nýjum leik- og grunnskóla í Hamranesi
  • Endurbætur á aðstöðu Suðurbæjarlaugar og undirbúningur að hönnun á útisvæði við Ásvallalaug
  • Bygging knatthúss á félagssvæði Hauka sem áætlað er að taka í notkun í lok árs 2024
  • Bygging reiðhallar á félagssvæði hestamannafélagsins Sörla
  • Lokið við gerð hybrid-grasvallar Fimleikafélags Hafnarfjarðar
  • Endurbætur aðstöðu í íþróttahúsinu við Strandgötu

Þá er áfram unnið að undirbúningi ýmissa stórra verkefna á vegum bæjarins, svo sem þróun miðbæjar og Flensborgarhafnar, fyrirhuguðum flutningi Tækniskólans á hafnarsvæðið, þróun Krýsuvíkursvæðisins og mögulega auknum hafnarumsvifum í Straumsvík í tengslum við Coda Terminal verkefnið. Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var lögð fram til seinni umræðu og samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar mánudaginn 4. desember 2023. Fjárhagsáætlunin nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2025-2027.

Fjárhagsáætlun og fylgigögn:

Greinargerð með fjárhagsáætlun 2024

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar 2024 og 2025-2027

Ábendingagátt