Fjárhagsáætlun 2026 samþykkt í bæjarstjórn

Fréttir

Börn fá frístundastyrk frá þriggja ára aldri. 10,6 milljarðar verða settir í fjárfestingar. Einnig verður sett fjármagn í  uppbyggingu nýs búsetukjarna við Smyrlahraun, undirbúning nýs útisvæðis við Ásvallalaug og flutning Bókasafns Hafnarfjarðar í Fjörð. Þetta er meðal verkefna sem koma fyrir í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2026.

Sterkur rekstur Hafnarfjarðarbæjar

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar, sem samþykkt var í bæjarstjórn í dag, gerir ráð fyrir 2.087 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta sveitarfélagsins á næsta ári. Rekstur A-hluta verður jákvæður um 942 milljónir króna á árinu 2026 samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 6,9% af heildartekjum eða 3.983 milljónir króna.

Öflugt bakland í bænum

Valdimar Víðisson bæjarstjóri segir fjárhaginn sterkan. „Hafnfirðingar eiga skilið traust bakland í bænum sínum, samfélag sem styður við íbúa og fyrirtæki. Til þess þurfum við traustan og ábyrgan rekstur og bæ sem tekur vel utan um fólkið sitt.“

Áætlað er að skuldaviðmið sveitarfélagsins í árslok 2026 verði 92,6%, sem er vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Útsvarsprósenta verður óbreytt á milli ára 14,93%. Álagningarprósenta fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,217 í 0,1999 og álagningarprósenta fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,387 í 1,367.

Ábyrgur, stöðugur rekstur

Valdimar segir Hafnarfjarðarbæ hafa byggt upp ábyrgan rekstur sem skili sér í stöðugleika, fyrirsjáanleika og svigrúmi til að halda áfram að þróa traust og gott samfélag. „Fjárhagsáætlunin fyrir 2026 styður við þessi markmið eftir krefjandi ár í ytra umhverfi. Við hlúum að grunnþjónustu og forgangsröðum fjárfestingum sem styrkja skóla, íþróttir, umhverfi og innviði til framtíðar,“ segir hann. „Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð í samráði við bæjarbúa, okkur öllum til heilla.

Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins með tæplega 33 þúsund íbúa. Áætluð heildarútgjöld nema um 50,5 milljörðum króna, áætlaður launakostnaður nemur 27,1 milljörðum króna og áætlaður fjármagnskostnaður 2,6 milljörðum króna.

Helstu tölur úr fjárhagsáætlun 2025
  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 2.087 milljónir króna
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 942 milljón króna
  • Skuldaviðmið áætlað um 92,6% í árslok 2026
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 3.983 milljónir króna eða 6,9% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta áfram 14,93%
  • Álagningarprósenta fasteignaskatta á íbúðar- og atvinnuhúsnæði lækkar milli ára og er gert ráð fyrir að fasteignagjöld muni lækka að raungildi milli ára að meðaltali
  • Gert er ráð fyrir almennri hækkun gjaldskrár um 3,9% til þess að mæta verðlags- og launahækkunum.
  • Áætlaðar fjárfestingar nema tæplega 10,6 milljörðum króna en stærsta einstaka fjárfestingin er í nýjum skóla í Hamranesi.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var lögð fram til seinni umræðu og samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar miðvikudaginn 3. desember 2025. Fjárhagsáætlunin nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2027-2029.

 

 

Ábendingagátt