Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar samþykkt

Fréttir

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var lögð fram til seinni umræðu og samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær miðvikudaginn 8. desember. Fjárhagsáætlun nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2023-2025. Fjárheimild til framkvæmda fyrir árið 2022 er um 5 milljarðar króna. Í áætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í grunnþjónustu, s.s. umhverfismálum, samgöngum, íþróttaaðstöðu, húsnæði og fráveitu.

 

  • Uppbygging nýrra hverfa mun leiða til verulegra fjölgunar íbúa á næstu árum
  • Markviss viðbrögð við heimsfaraldri veita svigrúm til þess að snúa vörn í sókn
  • Áhersla lögð á að verja hagsmuni íbúa án þess að skuldsetja bæjarfélagið

 

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var lögð fram til seinni umræðu og samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær miðvikudaginn 8.desember. Fjárhagsáætlun nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2023-2025. Áætlaður rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins nemur 842 milljón króna á árinu 2022. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 2,5% af heildartekjum eða 886 milljónir króna. Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta verði jákvæður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 1,1 milljarð króna og afkoma A-hluta jákvæð um 106 milljónir króna. 

„Með þeim hverfum sem eru að verða til í Hafnarfirði og hóflegri þéttingu á eldri svæðum er áætlað að árleg fjölgun Hafnfirðinga verði um 1.500–2.000 manns að meðaltali næstu fjögur árin. Jafnframt leggjum við áherslu á að vernda einstakan bæjarbrag, styrkja eldri byggð og efla miðbæinn. Nýjar skipulagshugmyndir við Strandgötu, fyrirhuguð bygging Tækniskólans og rammaskipulag inn að Flensborgarhöfn og út á Óseyrarsvæðið munu ýta undir blómlegt bæjarlíf og fjölbreytta þjónustu“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. „Traust fjárhagsleg staða sveitarfélagsins og kraftmikil uppbygging bera það með sér að varnarviðbrögð bæjaryfirvalda við efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins eru að skila árangri“.

Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins, með heildarútgjöld sem nema um 34,6 milljörðum króna, áætlaðan launakostnað upp á 18,2 milljarða króna og áætlaðan fjármagnskostnað sem nemur um 1,3 milljörðum króna. Árið 2020 var rekstrarniðurstaðan jákvæð sem nam 2.264 milljónum króna og árið 2019 jákvæð sem nam 1.236 milljónum króna.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2022

 

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 842 milljónir króna
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 106 milljónir króna
  • Skuldaviðmið áætlað um 97,7% í árslok 2022. Til samanburðar var hlutfallið 112% í árslok 2019, áður en Covid-19 skall á
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 886 milljónir króna eða 2,5% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta óbreytt, eða 14,48%
  • Fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði lækkaðir um tæplega 5% til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats
  • Lækkun vatns- og fráveitugjalda á atvinnuhúsnæði sem lækkar álögur á fyrirtæki um 145 milljónir króna
  • Almennt gert ráð fyrir að gjaldskrá fyrir árið 2022 haldist óbreytt eða hækki um 2,5%, sem er innan væntra verðlagshækkana
  • Áætlaðar fjárfestingar nema liðlega fimm milljörðum króna
  • Kaup á félagslegum íbúðum áætluð fyrir um 500 milljónir króna
  • Útgjöld vegna málefna fatlaðra aukast um 13% og nema liðlega fjórum milljörðum króna
  • Sérstök innspýting til leikskóla Hafnarfjarðar í formi aukinna hlunninda starfsfólks, hækkunar á fastri yfirvinnu, styrkja og námskeiða nemur um 82 milljónum króna
  • Samkvæmt áætlun mun íbúum fjölga að meðaltali um 1.500-2000 manns á ári næstu fjögur árin

 

 

Helstu framkvæmdir árið 2022

Fjárheimild til framkvæmda fyrir árið 2022 er um 5 milljarðar króna. Í áætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í grunnþjónustu, s.s. umhverfismálum, samgöngum, aðstöðu, húsnæði og fráveitu.

 

  • Gatnagerð í íbúðarhverfi í Hamranesi sem nú er að byggjast upp
  • Gatnagerð í nýju íbúðahverfi í Áslandi
  • Frágangur á nýbyggingarsvæðum víða um bæinn; lok malbikunar, gerð stétta, stíga, leiksvæða og grænkun svæða
  • Endurgerð gangstétta og gönguleiða í bænum heldur áfram
  • Efling hjólreiðaleiða í sveitarfélaginu
  • Framkvæmdir við Hvaleyrarvatn er varða aðgengismál, áningarsvæði, stíga og bílastæði
  • Fegrun Hellisgerðis fyrir 100 ára afmælisárið sem verður 2023 
  • Endurnýjun gatnalýsingar með LED-væðingu mun ljúka að mestu á næsta ári
  • Hafinn undirbúningur að nýjum leik- og grunnskóla í Hamranesi
  • Lokið við endurnýjun grasvalla á félagssvæðum FH og Hauka og fleiri framkvæmdir

 

Meðfylgjandi eru fjárhagsáætlun og fylgigögn fjárhagsáætlunar 2022-2025:

Ábendingagátt