Fjölbreyttara frístundastarf

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Knattspyrnufélagið Haukar hafa undirritað samning um rekstur frístundaheimilis á vegum Hauka fyrir börn á aldrinum sex til níu ára með stuðningi Hafnarfjarðarbæjar.

Hafnarfjarðarbær og Knattspyrnufélagið Haukar hafa undirritað samning um rekstur frístundaheimilis á vegum Hauka fyrir börn á aldrinum sex til níu ára með stuðningi Hafnarfjarðarbæjar.

Starfshópur á vegum Hafnarfjarðarbæjar hefur unnið að breytingum á umgjörðinni um starfsemi frístundaheimila. Í hverjum skóla eru rekin frístundaheimili fyrir yngstu börnin en ein af nýju frumkvöðlahugmyndum starfshópsins var að gefa íþróttafélögum tækifæri á að sjá um þessa þjónustu en aukin eftirspurn hefur valdið því að þrengra er sums staðar um starfsemina í skólunum en áður. Fræðsluráð samþykkti síðan þessa heimild, sem stendur öllum íþróttafélögum og félagasamtökum í Hafnarfirði opin. Íþróttafélögin hafa tök á að bjóða upp á öðruvísi dagskrá en skólarnir, sem oft tengist aukinni hreyfingu og kynningu á íþróttagreinum. Því er hér verið að stíga mikilvægt skref í framþróun til eflingar frístundastarfs í bænum.

Samningurinn við Hauka er til eins árs og tekur Hafnarfjarðarbær þátt í að greiða niður þjónustuna þannig að gjaldið er svipað hjá Haukum og í grunnskólunum. Hafnarfjarðarbær mun tengjast starfseminni og vinna áfram að þróun starfsins ásamt Haukunum en eitt af markmiðunum er að vinnudagur barna styttist og þau nái að ljúka sínu íþrótta- og tómstundastarfi fyrr á daginn en nú er.

Hjá Haukunum eru hátt í 40 börn í dag og hefur Íris Óskarsdóttir tómstundafræðingur verið ráðin sem forstöðumaður starfsins. 

Á myndinni sjást Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Magnús Gunnarsson framkvæmdastjóri Hauka undirrita samninginn ásamt fríðum hópi barna í frístundaheimilinu.

Ábendingagátt