Fjöldi á hátíð til heiðurs 70 ára Hafnfirðingum

Fréttir

Rúmlega hundrað sjötugir Hafnfirðingar komu saman í Hásölum á fimmtudag og hittu þar bæjarstjóra, bæjarfulltrúa, starfsfólk bæjarins, æskuvini, uppeldisfélaga og félaga úr fjölbreyttu félagsstarfi.

Árið er 1954 – til heiðurs 70 ára Hafnfirðingum

Rúmlega hundrað sjötugir Hafnfirðingar komu saman í Hásölum, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, á fimmtudag og hittu þar æskuvini, uppeldisfélaga og félaga úr fjölbreyttu félagsstarfi, sem og bæjarstjóra, bæjarfulltrúa og starfsfólk bæjarins. Hér í Hafnarfirði hefur myndast sú hefð að bjóða þeim bæjarbúum sem hafa orðið eða verða 70 á árinu til veislu, nú árgangi 1954. Veislan var haldin í tíunda sinn og því ljóst að yfir 1000 manns hafa fagnað þessum tímamótum í bænum sínum.

Stundin snýst um samveru umfram allt annað

Dagskrá hátíðarhaldanna er lauflétt enda snýst stundin meira um samveru umfram allt annað. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, bauð öll úr afmælisárganginum velkomin í veisluna með hamingjuóskum og þökkum fyrir komuna.

Hópurinn fékk kynningu á þjónustu Hafnarfjarðarbæjar í þágu eldra fólks. Bæjarminjavörður Hafnarfjörður rifjaði að lokum upp fæðingarárið í máli og myndum við góðar undirtektir. Gestir nutu þess að hlýða á ljúfa tóna Tríós Stefáns Ómars í upphafi veislu, inn á milli atriða og í veislulok.


Fjölbreytt og fyrirbyggjandi heilsueflandi þjónusta

Þjónusta Hafnarfjarðarbæjar til handa eldra fólki hefur hin síðustu ár mótast og þróast markvisst í takt við nýja og breytta tíma og hækkandi lífaldur. Aukin áhersla hefur verið lögð á aukna fyrirbyggjandi og fjölbreyttra heilsueflandi þjónustu sem miðar að því að stuðla að vellíðan og heilsueflingu eldra fólks í Hafnarfirði þannig að þeir geti betur tekið virkan þátt í samfélaginu og búið í sjálfstæðri búsetu sem lengst.

Já, árið 1954 var viðburðaríkt en rólegt að mati Bæjarminjavarðar.

 

Þetta gerðist 1954

ERLENDIS

  • Elvis Presley gaf út smáskífuna „Thats all right“ sem markaði upphaf hans sem rokkstjörnu og Bill Haley gaf út lagið „Rock around the Clock“ sem var eitt af fyrstu rokk lögunum til að ná miklum vinsældum og fyrsta smáskífan sem seldist í yfir miljón eintökum í Englandi.
  • Þetta ár urðu Vestur-Þjóðverjar heimsmeistarar í knattspyrnu eftir að hafa lagt Ungverjaland í úrslitaleik 3-2.
  • Vladimir Kuts frá Sovétríkjunum var fyrstur manna til að hlaupa 5 km undir 14 mínútum og Englendingurinn Roger Bannister varð fyrstur manna til að hlaupa mílu undir 4 mínútum.
  • Hæstiréttur Bandaríkjanna úrsklurðaði þetta ár að aðskilnaður í skólum væri ólöglegur.
  • Fyrsti kjarnorkuknúni kafbáturinn USS Nautilus var sjósettur.
  • Fyrsta nýrnaígræðslan fór fram og fyrsta sólarrafhlaðan leit dagsins ljós.

 

INNANLANDS

  • Í Íslandssögunni þetta ár bar það helst til tíðinda að Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var vígð.
  • Dregið var í fyrsta skipti í happdrætti DAS.
  • Minnismerki um Skúla fógeta var afhjúpað í gamla kirkjugarðinum við Aðalstræti.
  • Minjasafn Reykjavíkur var stofnað.
  • Fyrsta stálskipinu sem smíðað var hér á landi var hleypt af stokkunum.
  • Veitingahúsið Naustið var opnað og kvikmyndin Salka Valka var frumsýnd.
  • Fyrir jólin 1954 voru aðallega tvær bækur auglýstar sem jólabækur barnanna. Annars vegar Litla Vísnabókin, gömlu og góðu vísurnar sem öll börn hafa gaman af og hins vegar Dimmalimm, gullfallega ævintýrið hans Muggs, um kóngsdótturina litlu og fögru sem var engri annarri bók lík.

 

Í HAFNARFIRÐI

  • Í Bæjarbíói byrjaði árið með frumsýningu óskarsverðlaunamyndarinnar „Hægláti maðurinn“ með John Wayne og Maureen O‘Hara sem naut fádæma vinsælda.
  • Lýsi og mjöl hóf rekstur vinnslutækja, þetta ár, til að gernýta hráefnið.
  • Stangveiðimenn í Hafnarfirði hófu þetta ár ræktun í Kleifarvatni. Félagsmenn í stangveiðifélagi Hafnarfjarðar slepptu 15.500 seiðum af þingvallableikju og 1.500 seiðum frá Laxalóni auk 100 fullorðnum bleikjum úr Hlíðarvatni í vatnið
  • Fyrsta stóra olíuskipið lagðist við bryggju í Hafnarfirði þetta ár.
  • Fæðingarheimilið að Sólvangi í Hafnarfirði tók til starfa árið 1954. Fyrsta konan sem lögð var þar inn hét Salvör Sumarliðadóttir, gift Ólafi Sigurgeirssyni og eignuðust þau tvíbura, tvær stúlkur.
  • Árinu lauk í Hafnarfirði með sýningum bæjarbíós á ítölsku stórmyndinni „Vanþákklátt hjarta“ sem sýnd var með dönskum texta og í Hafnarfjarðarbíó var sýnd bandaríska gamanmyndin „Englar í foreldraleit“
Ábendingagátt