Fjöldi vinningshafa í Ratleik Hafnarfjarðar

Fréttir

Aldrei hafa fleiri tekið þátt í Ratleik Hafnarfjarðar sem er samvinna Hönnunarhússins og heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Guðni Gíslason ritstjóri Fjarðafrétta leggur leikinn með góðri aðstoð Ómars Smára Ármannssonar. Um 200 mættu á uppskeruhátíðina.

Ratleikur Hafnarfjarðar aldrei vinsælli

Um 200 mættu á uppskeruhátíð Ratleiks Hafnarfjarðar í Hafnarborg í byrjun október. Steinunn M. Þórkelsdóttir er þrautakóngur ársins, Þórður Guðbjörnsson fékk önnur verðlaun og Jóhann Atli Hafliðason þau þriðju.

Aldrei hafa fleiri tekið þátt í ratleiknum sem er samvinna Hönnunarhússins og heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Guðni Gíslason ritstjóri Fjarðafrétta leggur leikinn með góðri aðstoð Ómars Smára Ármannssonar.

Fjöldi vinninga og vinningshafa

„Á uppskeruhátíðinni er farið yfir leikinn í máli og myndum og í ár voru veittir 38 vinningar, þrír vinningar í hverjum flokki og 29 útdráttarvinningar sem eru bónusvinningar fyrir þá sem mæta. Fjölmörg fyrirtæki hafa af rausnarskap gefið vinningana sem í ár voru að verðmæti um 450 þúsund kr,“ segir í frétt Fjarðarfrétta um uppskeruna.

Alls skiluðu 294 lausnum inn í ár en fjölmargir taka þátt í leiknum en skila aldrei inn lausnum. Áhugann má sjá á því að 3000 tóku ratleikskort og kynntu sér leikinn. Um 150 fóru á alla staðina, sem er samkvæmt upplýsingum Fjarðarfrétta einnig nýtt met. Ætla megi að þeir sem finni öll merkin gangi allt að 80 kílómetra.

Göngugarpar fóru allt að 80 km

Elín Henriksen var krýnd göngugarpur ársins, hin átta ára Alexía Arna Benjamínsdóttir var önnur og Helga Guðlaug Jóhannsdóttir fékk þriðju verðlaun. Elmar Bjarki Möller, einnig átta ára úr Garðabæ er Léttfeti ársins, Ólafur Skúli Indriðason hreppti 2. verðlaun og Katla Gunnarsdóttir Silva þau þriðju.

Þótt flestir þátttakendur séu Hafnfirðingar fjölgar þeim stöðugt sem koma úr öðrum sveitarfélögum. Þátttakendur í ár komu af öllu höfuðborgarsvæðinu. Einnig voru þátttakendur frá Noregi og Nýja-Sjálandi, sem dvöldu á Íslandi í sumar.

Styrkjendur leiksins eru fjölmargir. Rio Tinto dregur þar vagninn og fjöldi fyrirtækja gefur verðlaun. Sjá frétt Fjarðarfrétta sem þessi texti byggir á hér og þakkar Hafnarfjarðarbær Fjarðarfréttum og Kristjáni Guðnasyni fyrir myndirnar sem fylgja fréttinni.

Já, ratleikir gera Heilsubæinn Hafnarfjörð enn betri.

Ábendingagátt