Fjölmenni í 100 ára afmæli Skátafélagsins Hraunbúa 

Fréttir

Margt var um manninn þegar Skátafélagið Hraunbúar héldu upp á aldarafmæli félagsins í skátaheimilinu Hraunbyrgi við Hjallabraut í dag, laugardag. Hafnarfjarðarbær færði þeim afmælisgjöf við þessi merku tímamót. 

Hraunbúar fagna 100 árum!

„Innilega til hamingju. Við hér í Hafnarfirði getum verið stolt af þessu rótgróna félagi sem hefur eflt marga þátttakendurna í gegnum árin. Megi þessi 100 ár bara vera byrjunin,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri.  

„Við höfum alltaf verið í nánu samstarfi um mörg verkefni, skátarnir eiga mest í Sumardeginum fyrsta og þeir gegna mjög mikilvægu hlutverki á 17. júní. Þeir sjá einnig um tjaldsvæðið og grillhúsið og eru með afar vinsælt og fullbókað sumarnámskeið fyrir börn ár eftir ár.“ Valdimar hélt tölu þegar hafnfirska Skátafélagið Hraunbúar fagnaði aldarafmæli og var með opið hús og afmælisveislu í skátaheimilinu Hraunbyrgi milli klukkan 14-17 í dag. 

Bjarni Freyr Þórðarson, félagsforingi Hraunbúa, segir starf skátanna hafa eflst síðustu 20 árin. Uppbyggingin hafi verið mikil. „Núna erum við með 150 þátttakendur undir átján ára aldri. Það er fundað nánast öll kvöld í viku, líka um helgar,“ segir hann í aðdraganda afmælisins. Bæði hafi fundum fjölgað og aldursbilið breikkað. 

Fjölskyldan saman í skátunum 

„Við vorum að byrja með fjölskylduskátastarf. Þar býðst yngstu krökkunum að koma með foreldrum sínum,“ segir hann. 

Er fólk meðvitað um skátastarf í dag? „Allir tengja við skátana í dag og flestir þekkja einhvern sem var skáti. En að það sé svo svona virkt starf fer stundum undir radarinn.“ Öll geti fengið að koma og prófa skátastarf. „Já, koma á nokkra fundi og prófa. Langflestir af yngri krökkunum byrja á leikjanámskeiðum á sumrin. Þau koma svo á haustin og vilja starfa áfram.“ 

Fyrsta félagið fyrir bæði stelpur og stráka

Bjarni segir Skátafélagið Hraunbúar það fyrsta ásamt Heiðarbúum í Reykjanesbæ sem hafi haft bæði drengja og stúlknasveitir. Þau séu stolt af því. En er gott að vera skáti? 

„Já, þetta bætir lífið. Ég hef verið þarna í mörg ár, næstum tuttugu, vikulega. Þetta hefur hentað mér,“ segir félagsforinginn. „Þegar fólk spyr hvað við kennum má segja að punkturinn í þessu sé að undirbúa fólk fyrir lífið. Við erum ekki með bikara og medalíur heldur veganesti út í lífið; sjálfsbjargarviðleitni og þróa sjálfstæða einstaklinga og leiðtoga.“ 

Er þá skátastarf jafn mikilvægt nú og fyrir 100 árum? „Já, jafnvel mikilvægara. Við komum krökkum á jörðina. Við nýtum lítið tækni, þótt við séum með tækniskátadeild. Við erum með náttúrudeildir og drögum krakkana á jörðina án þess að það sé sagt berum orðum.“ 

Til hamingju með afmælið Hraunbúar. 

 

Ábendingagátt