Fleiri bækur á skólabókasöfn

Fréttir

Fræðsluráð lagði til á fundi sínum í vikunni aukningu um 50% í fjárveitingu til bókakaupa í leik- og grunnskólum og kaupa á föndurvörum auk fjárveitingar til Bíó- og bókahátíðar barnanna. Í heild að upphæð 3,6 milljónir króna

Fræðsluráð hefur samþykkt að leggja fram tillögu til Bæjarstjórnar þess efnis að fjárveiting til bókakaupa í skólum bæjarins og kaupa á föndurvörum verði aukin um 50% auk þess að veita 700.000.- krónum í Bíó- og bókahátíð barnanna sem fram fer nú í febrúar. Þetta er gert til að styðja frekar við læsisverkefnið sem í gangi er í skólum Hafnarfjarðarbæjar.

Bókasafns- og upplýsingafræðingar í grunnskólum Hafnarfjarðar skoruðu á dögunum á fræðsluyfirvöld að tryggja skólabókasöfnunum meira fjármagn til bókakaupa því það gæti haft úrslitaáhrif á læsi barna í Hafnarfirði.  Skólastjórar grunnskólanna ítrekuðu síðan þessa áskorun á fundi með bæjarstjóra og sviðsstjóra í upphafi þessa árs auk þess sem leikskólastjórar lýstu yfir áhyggjum sínum vegna of lítils fjármagns sem ætlað væri til kaupa á bókum og föndurefni. Metnaðarfullt læsisverkefni, Lestur er lífsins leikur, er í fullum gangi í leik- og grunnskólum bæjarins og er eitt skilyrðið fyrir því að vel gangi að nægur bókakostur sé fyrir hendi innan skólanna.

Fræðsluráð lagði til á fundi sínum í vikunni aukningu um 50% í fjárveitingu til bókakaupa í leik- og grunnskólum og kaupa á föndurvörum auk fjárveitingar til Bíó- og bókahátíðar barnanna. Í heild að upphæð 3,6 milljónir króna. Lagt var til að framkvæmdin yrði fjármögnuð með hluta þeirrar hagræðingar sem fengist hefur með útboðum á ýmsum þjónustuþáttum meðal annars innan leik- og grunnskóla. Til stóð frá upphafi að halda þeirri hagræðingu sem myndaðist við útboð innan málaflokkanna og var því brugðist við áskorunum frá skólunum með þessum hætti. Fræðsluráð fagnaði þessum sjónarmiðum á fundi sínum í vikunni og samþykkti tillöguna samhljóða. 

Ábendingagátt