Fleiri heimsóttu Hafnarborg – Fjölmargir viðburðir framundan 

Fréttir

Gestafjöldi í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar, jókst um 14% milli ára. Fjölbreytt ár framundan í breyttum miðbæ Hafnarfjarðarbæjar.

Hafnarborg í hjarta miðbæjarins

Gestafjöldi í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar, jókst um 14% milli áranna 2024 og 2025. Tíu nýjar sýningar opnuðu á árinu. Haldnir voru 70 auglýstir viðburðir. Þar af 20 stærri tónleikar. 

Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, segir 2025 hafa verið frábært ár. „Mjög fjölbreyttar sýningar og viðburðir.“ 

Landnám í Hafnarborg

Hún segir sýningu Péturs Thomsen Landnám meðal þess sem stóð upp úr á árinu. Hún stóð yfir í Hafnarborg frá nóvember 2024 til febrúar 2025. Pétur hlaut til að mynda viðurkenninguna Myndlistarmaður ársins á Íslensku myndlistarverðlaununum 2025 fyrir sýninguna. 

„Það er erfitt að gera upp á milli sýninga en það var sérstaklega ánægjulegt að fylgja sýningu Péturs eftir og sjá afraksturinn. Og að öllu öðru ólöstuðu vil ég einnig nefna Sönghátíð í Hafnarborg.“ 

Dagskrá Sönghátíðarinnar hafi verið stórglæsileg. „Átta tónleikar voru á dagskrá yfir tveggja vikna tímabil auk námskeiða. Það er alltaf líf og fjör hjá okkur þegar Sönghátíðin stendur yfir. Hún var í júní í fyrra og verður aftur á sama tíma næsta sumar. Ég hvet öll til að láta þetta ekki fram hjá sér fara. Þetta er metnaðarfull söngdagskrá og margt af okkar glæsilegasta tónlistarfólki kemur fram.“ 

Heimili listaverka Hafnarfjarðar

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri, gerir upp Hafnarborgarárið á Facebook-síðu sinni og segir Hafnfirðinga ákaflega stolta af Hafnarborg, sem var stofnuð árið 1983. Strax við stofnun hafi Hafnarborg orðið aðsetur listaverkasafns Hafnarfjarðarbæjar.  

„Hjónin Ingibjörg Sigurjónsdóttir, lyfjafræðingur, og Sverrir Magnússon, lyfsali, færðu bænum húsið að gjöf ásamt veglegu safni listaverka og bóka,“ segir hann þar. „Hafnarborg á um 1600 listaverk. Á árinu bættust við ný verk í safneign, meðal annars eftir Pétur Thomsen, Arngrunni Ýr, Guðrúnu Bergsdóttur og Eggert Pétursson.“ 

Margt á döfinni í ár

Aldís segir fjölmarga viðburði og sýningar verða í Hafnarborg á þessu ári. „Áfram verður dagskráin mjög fjölbreytt jafnt þegar litið er til sýninga og útgáfu. Við erum alltaf með mismunandi áherslur í huga milli sýninga þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.“ Hún er sérstaklega spennt fyrir haustsýningunni.  

„Vinnutitilinn er Spássían. Sjónarhornið er nýtt og ég hlakka til að sjá hvernig það kemur út. Ég er líka spennt fyrir nóvembersýningunni. Undanfarin ár höfum við meðal annars verið að beina sjónum að myndlistarmönnum sem hafa þegar náð fótfestu en eru ungir og á góðri siglingu. Í ár er það Styrmir Örn Guðmundsson sem verður með einkasýningu í aðalsalnum,“ segir Aldís. „Sama má segja um væntanlega sýningu myndlistarmannanna Lukasar Bury og Weroniku Balcerak sem opnar í safninu í byrjun mars.“ 

„Með ólíkum sýningum fáum við ólíka gesti inn í húsið. Já, fjölbreytnin er að skila sér,“ segir Aldís og að árið 2026 muni leiða margt spennandi af sér.  

Spennandi ár framundan

„Ég hlakka til að sjá Bókasafnið á nýjum stað. Miðbærinn hefur tekið við sér nú þegar Fjörður hefur stækkað. Það er líflegt hér í hjarta Hafnarfjarðar og það skilar sér til okkar,“ segir hún.  

„Aðsóknin var sérstaklega mikil í nóvember og desember. Sýning Eggerts Péturssonar Roði hefur mikið aðdráttarafl og stendur til 1. mars. Svo hafði Jólaþorpið líka áhrif. Það skilaði sér með beinum hætti til okkar og við sáum mikla aukningu gesta um helgar.“ 

Aldís tekur undir orð Valdimars sem hvetur öll til að gefa sér tíma til að njóta alls þess sem Hafnarborg hafi upp á að bjóða. Hann segir: „Frábært starfsfólk starfar þar sem tekur afar vel á móti ykkur.“ Hún segir: „Við vonum að heimsókn til okkar sé alltaf ánægjuleg og vel þess virði!“ 

 

 

Ábendingagátt