Flensborgarhlaupið: „Við njótum þess að vera saman“

Fréttir

13. Flensborgarhlaupið fer fram á morgun þriðjudaginn 16. september kl. 17.30. Heilsubærinn Hafnarfjörður stendur með Flensbogarnemendum og starfsfólki sem halda þetta flotta götuhlaup.

Hlaupum saman og látum gott af okkur leiða

„Við höfuð tekið eftir því að það er ekki bara gaman hjá nemendum okkar sem hlaupa og labba, heldur einnig þeim sem grilla og stjórna músíkinni. Við getum búið til hér viðburð á virkum degi; götuhlaup, og verið saman úti og notið þess að vera til,“ segir Erla Ragnarsdóttir skólameistari Flensborgarskólans sem á morgun heldur 13. Flensborgarhlaupið sitt. 400 mættu í fyrra. En hvað verða margir nú?

Góð spá og von á hundruð hlaupara

„Vandi er um slíkt að spá,“ segir Erla hressilega en rýnir svo í stöðuna. „Veðurspáin er hagstæð fyrir morgundaginn. Milt og gott hlaupaveður í kortunum. Já, 400 hlauparar í fyrra og við vonumst til að toppa það,“ segir hún.

Þátttökugjaldið er 1500-3000 krónur eftir vegalengd og aldri. Allur ágóði rennur til Píeta samtakanna gegn sjálfsvígum. En af hverju völdu þau þetta málefni?

„Það er gulur september og þessi mál eru í brennidepli í öllu samfélaginu. Svo erum við heilsueflandi framhaldsskóli. Það þýðir að það er þemaskipt milli ára og í ár er áherslan á geðheilbrigði. Þetta tengist allt saman,“ segir Erla.

„Forvarnir gegn sjálfsvígum ungs fólks eru afar mikilvægar. Þetta er áhyggjuefni allra í samfélaginu og unnið með á mörgum vígstöðvum. Við vildum leggja okkar á vogaskálarnar. Þetta er ein leið til að taka á málefninu.“

Erla Ragnarsdóttir skólameistari í Flensborgarhlaupinu í fyrra.

13. Flensborgarhlaupið

Þrettánda hlaupið. „Já, hlaupið hefur farið fram ár eftir ár fyrir utan COVID-árin,“ segir Erla. „Það er góð stemning í kringum hlaupið. Hér hjálpast nemendur og starfsfólk að. Við fáum góða hjálp frá Hafnarfjarðarbæ, KFC og Landsbankanum, eins og undanfarin ár. Einnig frá fyrirtækjum í Hafnarfirði sem gefa vinninga.“ Skipulagið sé þétt og gott. „Við erum með nefnd starfsfólks og nemenda sem vinnur að undirbúningi.“

Erla segir ekki sjálfgefið að framhaldsskóli haldi götuhlaup sem er opið fyrir alla. „Þetta er heljarinnar verkefni sem við vinnum hér saman öll sem eitt.“

Ábendingagátt