Fljúgandi hálka um allan bæ

Fréttir

Þrátt fyrir að starfsmenn hafi unnið að söndun og söltun gatna og göngustíga alla vikuna þá sér vart högg á vatni.

Hálka og stórir klakabunkar um allan bæ hafa ekki farið framhjá neinum þessa dagana. Þrátt fyrir að starfsmenn bæjarins hafi meira og minna verið að hálkuverja með sandi og salti götur og göngustíga alla vikuna þá sér vart högg á vatni. Við biðjum íbúa að fara varlega og taka þátt með okkur í söndun og söltun meðan ástandið er eins og það er.

Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar hafa alla vikuna unnið í því að hálkuverja götur og göngustíga með sandi og salti. Umhleypingar; hiti, rigning og síðan frost, eru að gera bæjarstarfsmönnum erfitt fyrir og íbúum lífið leitt. Sandur skolast fljótt í burtu þó farnar séu allar aðalleiðir samkvæmt ríkjandi
forgangsleiðum hjá bænum. Hins vegar situr saltið eftir og étur upp klakann. Frá því í október hafa 489 tonn af salti farið á götur og gangstéttir bæjarins. Ástandið hefur verst verið nú í desember en bara í þessum eina mánuði voru tonn af salti rúm þrjúhundruð.

Við biðjum íbúa alla og gesti bæjarins að fara varlega í þessu ástandi sem nú er á einhverjum götum og ekki síst á göngu- og hjólastígum bæjarins. Við vitum af vandanum og bregðumst við honum eftir bestu getu.  Öllum áhugasömum og þeim sem vettlingi geta valdið í þessari baráttu okkar við veðurguðina er bent á að hægt er að sækja sand til Þjónustumiðstöðvar bæjarins sem staðsett er á Norðurhellu.  Þar er hægt að nálgast sand úr körum og eru pokar og skófla á staðnum. Hvetjum íbúa til að vera meðvitaða um sitt nærumhverfi og aðstoða við söndun og söltun þannig að tryggja megi öryggi sem flestra. 

Mynd sem fylgir frétt er í eigu: mbl.is

Ábendingagátt