Flugeldasýning Bjössa Thor og Robben Ford

Fréttir

Hafnfirska tónlistarhátíðin, Guitarama, gítarveisla Bjössa Thor fer fram í Bæjarbíói þann 11. og 12. nóvember þegar Björn Thoroddsen, ásamt fríðu föruneyti sínu, heldur stórtónleika.

Bjössi Thor og Robben Ford

Bjössi Thor og Robben Ford heimsækja Tónlistarskóla Hafnarfjarðar

Hafnfirska tónlistarhátíðin, Guitarama, gítarveisla Bjössa Thor fer fram í Bæjarbíói þann 11. og 12. nóvember þegar Björn Thoroddsen, ásamt fríðu föruneyti sínu, heldur stórtónleika. Aðalgestur veislunnar í ár verður Robben Ford sem án nokkurs vafa er einn allra færasti gítarleikari heimsins í dag og heimsækir Ísland heim í annað skiptið. Robben er blús gítarleikari í grunninn og samstarfsmenn hans í gegnum tíðina segja allt sem segja þarf: Miles Davis, Joni Mitchell, George Harrison, KISS og Björn Thoroddsen.

Töfrandi tónlistarupplifun fyrir áhorfendur

Í vikunni gafst nemendum Tónlistarskóla Hafnarfjarðar tækifæri til að hitta Robben Ford og Bjössa Thor en hátíðin stendur fyrir ýmsum uppákomum í Tónlistarskólanum, ungmennahúsinu Hamrinum og Hrafnistu í aðdraganda tónleikanna. Viðburðurinn í tónlistarskólanum var samstarfsverkefni Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Tónlistarskóla Garðabæjar, Tónlitarskóla Reykjanesbæjar, Tónlistarskólans í Garði og Listaskóla Mosfellsbæjar.

Gítarveislan er sett upp með því markmiði að skapa töfrandi tónlistarupplifun fyrir áhorfendur, þar sem gítarinn verður í aðalhlutverki. Það stefnir allt í sannkallaða flugeldasýningu í ár því húshljómsveit Guitarama hefur sjaldan verið þéttari og þá mun Guitar Islandico einnig stíga á stokk.

Ábendingagátt