Formleg afhending 3ju hæðar í Lífsgæðasetri St. Jó

Fréttir

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowreglunnar á Íslandi afhenti, við formlega athöfn síðastliðinn föstudag, Alzheimersamtökunum og Parkinsonsamtökunum 530 fermetra húsnæði til afnota fyrir starfsemi samtakanna. Bæði samtökin hafa komið sér fallega fyrir á 3. hæð í Lífsgæðasetri St.Jó í Hafnarfirði og eru þegar farin að taka á móti skjólstæðingum og aðstandendum, veita ráðgjöf og fræðslu. 

Ný aðstaða mun valda byltingu í starfsemi samtakanna tveggja 

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowreglunnar á Íslandi afhenti, við formlega athöfn síðastliðinn föstudag, Alzheimersamtökunum og Parkinsonsamtökunum 530 fermetra húsnæði til afnota fyrir starfsemi samtakanna. Bæði samtökin hafa komið sér fallega fyrir á 3. hæð í Lífsgæðasetri St.Jó í Hafnarfirði og eru þegar farin að taka á móti skjólstæðingum og aðstandendum, veita ráðgjöf og fræðslu. Um er að ræða 3ju hæðina í gamla St. Jósepsspítala sem teiknaður var af Guðjóni Samúelssyni og er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Húsið hefur gengið í endurnýjun lífdaga að utan sem innan síðustu mánuði og ár fyrir tilstuðlan bæjarins og öflugra samstarfsaðila eins og Oddfellowreglunnar á Íslandi. 

IMG_2873

Lífsgæðasetur St. Jó stendur við Suðurgötu 41 í Hafnarfirði

Ný aðstaða samtakanna tveggja í sögufrægu og reisulegu húsi Lífsgæðaseturs St.Jó mun valda byltingu í starfsemi félaganna þar sem Parkinsonsamtökin hafa opnað þjónustumiðstöðina Takt fyrir sína skjólstæðinga og Alzheimersamtökin þjónustumiðstöðina Seigluna fyrir yngra fólk sem greinist með heilabilun og þá sem eru skammt gengnir með sjúkdóm sinn. Um gríðarlega stórt verkefni er að ræða og komu um 110 sjálboðaliðar frá 15 bræðrastúkum Oddfellow að verkinu. Þá söfnuðu mun fleiri stúkur fjármunum til að styrka búnaðarkaup að auki. Viðstödd formlega athöfn í vikulok voru, auk æðstu stjórnenda Oddfellowreglunnar, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og forsvarsmenn beggja félaga.

IMG_2900

„Opnun Parkisonseturs og þjónustumiðstöð Alzheimersamtakanna eykur enn frekar virði og þjónustu Lífsgæðaseturs St. Jó fyrir Hafnarfjörð og í raun fyrir íslenskt samfélag enda margir í húsinu að sinna starfsemi sem nær til landsins alls. Endurreisn St. Jó hefur gengið framar vonum og það með dýrmætum stuðningi, hlýhug og dugnaði m.a. Oddfellowreglunnar á Íslandi. Allar hæðir í þessu fallega og sögufræga húsi eru að fyllast af fólki og lífi þessa dagana og draumur um samfélag heilsu, sköpunar, fræðslu og forvarna að verða að veruleika“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar sem er að vonum ánægð með uppbygginguna í St. Jó.

Hafnarfjarðarbær eignaðist St. Jósefsspítala að fullu sumarið 2017 og skuldbatt sig samhliða til að reka almannaþjónustu í fasteigninni að lágmarki í 15 ár frá undirritun samnings og hefja rekstur í eigninni innan 3 ára frá undirritun samnings. Tveimur árum frá undirritun samnings, á 92 ára vígsluafmæli hússins þann 5. september 2019, var húsið opnað formlega sem lífsgæðasetur og samhliða fluttu inn fimmtán fyrirtæki sem öll hafa það að markmiði að bæta lífsgæði fólks. Nú rétt tæpum fimm árum síðar stendur til að opna formlega allar hæðir í Lífsgæðasetri St. Jó að undanskildum kjallara og flytja inn fimmtán fyrirtæki til viðbótar. Hátíð og opið hús fyrir alla áhugasama verður haldin á Sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 21. apríl nk.

Eldri tilkynningar um St. Jó 

Ábendingagátt