Forseti Íslands í Hraunvallaskóla

Fréttir

Forseti lýðveldisins heimsótti Hraunvallaskóla nú í morgunsárið og sat í pallborði og svaraði spurningum nemendanna. Þau hafa tekið hvatningu forsetans að vera Riddarar kærleikans og buðu Höllu Tómasdóttur í heimsókn.

Hlýja og vinsemd tóku á móti forsetanum

„Það er mikilvægast að þora að vera maður sjálfur,“ sagði forseti Íslands Halla Tómasdóttir við börnin á sal þegar hún heimsótti Hraunvallaskóla á Völlunum í Hafnarfirði. Þriðji bekkur tók á móti Höllu í anddyri skólans. Hún heilsaði þeim með hjarta-merki mótað með fingrunum og stóðst svo ekki mátið og bauð hópknús.

Börnin voru prúðbúin, enda höfðu þau frestað skemmtun fullveldisdagsins og voru því í sparifötunum þegar forsetinn mætti.

Skoðaði skólann og hitti nemendur

Skólastjórnendur og fulltrúar 10. bekkjar leiddu Höllu um skólann. Hún hitti börn margra bekkja og þræddi gangana, fékk gjöf frá 2. bekk. Síðan settist hún í pallborð með nemendum á sal skólans, svaraði þar spurningum þeirra og hvatti börnin til að passa orðin sín, sérstaklega á samfélagsmiðlum. Þau hefðu mikil áhrif.

Halla Tómasdóttir hefur hvatt ungmenni sem og aðra til að verða Riddarar kærleikans og tóku börnin í Hraunvallaskóla þeirri áskorun hennar. Þar er horft til andlegrar líðan ungmenna í samfélagi nútímans til að heiðra minningu Bryndísar Klöru, sem lést í kjölfar hnífaárásar, með því að gera kærleikann að eina vopninu í íslensku samfélagi. Unnið var að verkefninu í vinaviku skólans og forsetanum svo boðið að sjá afraksturinn sem hún þáði.

 

Forsetinn ritaði undir vinasáttmála

Nemendur sögðu Höllu meðal annars frá vináttusáttmála sínum sem hún undirritaði einnig.

„Með undirskrift okkar samþykkjum við, nemendur og starfsfólk Hraunvallaskóla, eftirfarandi vináttusáttmála:

Við skuldbindum okkur að sýna öllum virðingu og vináttu, ALLTAF!

Við beitum aldrei líkamlegu né andlegu ofbeldi.

Við pössum upp á hvort annað og að enginn sé útilokaður.

Við hjálpum þeim sem verða fyrir stríðni og einelti,

Stöndum ekki aðgerðarlaus hjá.

Við hjálpumst að við að láta öllum líða vel því það er réttur allra.

Við ætlum að leggja okkar að mörkum til að í samfélagi okkar ríki kurteisi

og virðing í öllum samskiptum.

Við segjum NEI við einelti, Já við vináttu!“

 

Stolt af nemendunum

Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, skólastjóri Hraunvallaskóla, segir nemendur skólans vinna með vinasáttmálann ár hvert en nú hafi verið ákveðið að tengja hann Riddurum kærleikans.

„Börnin og við starfsfólkið erum rosalega ánægð með heimsókn forsetans. Krakkarnir stóðu sig eins og hetjur. Það var fallegt hvað þau voru tilbúin að taka þátt í verkefninu og hvað þau voru flott. Það var eins og þau hefðu ekki gert annað. Þetta eru dásamleg börn, það eru forréttindi að fá að vera í þeirra hópi,“ segir hún.

„Við vorum má segja agndofa eftir heimsóknina. Við erum stolt af hópnum okkar hér í Hraunvallaskóla. Allir gerðu eins vel og þau gátu. Nemendurnir voru frábærir.“

 

 

 

 

Ábendingagátt