Jákvæð forvörn

Fréttir

Fræðsla sem hittir beint í mark. Síðustu sex árin hefur Jón Jónsson tónlistarmaður með meiru heimsótt alla nemendur í 8. bekk í Hafnarfirði.  Í ár verður þar engin breyting á og munu heimsóknir í grunnskólana eiga sér stað nú í janúar. 

Síðustu sex árin hefur Jón Ragnar Jónsson tónlistarmaður með meiru heimsótt alla nemendur í 8. bekk í Hafnarfirði.  Í ár verður þar engin breyting á og munu heimsóknir í grunnskólana eiga sér stað nú í janúar.  Heimsóknin er liður í munntóbaksforvörnum sveitarfélagsins. 

Fræðsla sem hittir beint í mark

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar hefur um áraraðir unnið að forvörnum gegn tóbaksneyslu barna og ungmenna.  Árið 2010 urðu nokkur tímamót því að þá var afar sýnilegur árangur af reykingaforvörnum að skila sér en á sama tímapunkti var munntóbaksneysla barna í sögulegu hámarki.  Áherslan beindist því að munntóbaksforvörnum og vann félagið með forvarnafulltrúa Hafnarfjarðar að því að móta nýtt verkefni sem er í anda nýjustu upplýsinga varðandi jákvæðar forvarnir.  Búið var til kynningarefni sem ætlað var að höfðaði til unglinga og Jón Ragnar Jónsson tónlistarmaður var ráðinn til að vinna við framkvæmd verkefnisins. Síðustu sex ár hefur Jón heimsótt alla nemendur í 8. bekk í Hafnarfirði og mæltist það afar vel hjá kennurum og unglingunum sjálfum. Unglingar í 8. bekk lifa almennt mjög heilbrigðu lífi sbr. rannsóknir frá Rannsóknum og greiningu.  Verkefnið, sem byggir á jákvæðum og uppbyggilegum forvörnum, styrkir þau í því að velja áfram heilbrigðan lífstíl. Hingað til hefur Krabbameinsfélagið sótt í eigin sjóði og aðra sjóði til að fjármagna þetta verkefni.  Í ár stendur Hafnarfjarðarbær með Krabbameinsfélaginu við fjármögnun. 

Jón er góð hafnfirsk fyrirmynd

Jón Ragnar er í grunninn venjulegur hafnfirskur ungur maður sem að okkar mati er afar góð fyrirmynd. Jón Ragnar er hress og skemmtilegur, hefur frá mörgu að segja og nær vel til krakkanna. Hann fer í alla 8. bekki, börnum er ekki safnað í sal, og þannig næst meiri nánd og auðveldara er fyrir krakkana að spjalla við hann. Æskilegt er að kennarinn sé með og nýti umræðurnar og það sem kemur upp síðar í lífsleiknitímum. Ætla má að Jón hafi því síðustu fimm ár hitt um 1750 hafnfirska unglinga í 8. bekk og náð að miðla til þeirra boðskap og áherslum um heilbrigðan lífstíl. 

 

Ábendingagátt