Fræðsla og aðstoð á sviði sorgarúrvinnslu

Fréttir

Sorgarmiðstöðin og Hafnarfjarðarbær hafa gert með sér samstarfssamning til þriggja ára sem felur meðal annars í sér að Sorgarmiðstöðin fær aðstöðu í nýju lífsgæðasetri í St. Jó gegn því að bjóða upp á fræðslu á sviði sorgarúrvinnslu fyrir grunnskóla og stofnanir bæjarins á sama tíma og þjónustan verður aðgengileg fyrir íbúa og aðra á besta stað í sveitarfélaginu.

Sorgarmiðstöðin og Hafnarfjarðarbær
hafa gert með sér samstarfssamning til þriggja ára sem felur meðal annars í sér
að Sorgarmiðstöðin fær aðstöðu í nýju Lífsgæðasetri í St. Jó gegn því að bjóða
upp á fræðslu á sviði sorgarúrvinnslu fyrir grunnskóla og stofnanir bæjarins á
sama tíma og þjónustan verður aðgengileg fyrir íbúa og aðra á besta stað í
sveitarfélaginu.

Öll
starfsemi í Lífsgæðasetri St. Jó á að stuðla að bættum lífsgæðum og fylgja
þannig þeim anda, hlýju og umhyggju sem húsið hefur alla tíð borið með sér,
allt frá því er St. Jósefssystur hófu þar starfsemi fyrir tæpum 100 árum. Að
styðja og fræða þá sem eiga um sárt að binda vegna ástvinamissis fellur vel að
þessum gildum. Sorgarmiðstöð, sem er nýtt samræmt úrræði fyrir fólk sem misst hefur
aðstandanda, var stofnað af félögunum Nýrri dögun, Birtu, Ljónshjarta og Gleym
mér ei með það fyrir augum að veita heildstætt úrræði á einum stað og þannig enn
betri þjónustu til syrgjandi fólks á Íslandi. Sameiginlegur vinnufundur félaganna
leiddi í ljós að samræma þyrfti úrræði fyrir syrgjendur og tryggja því góðan
farveg og kynningu. „Það skiptir miklu
máli fyrir félögin sem standa að Sorgarmiðstöð að fá samastað fyrir sína
starfsemi og við fögnum áhuga Hafnarfjarðarbæjar á því að vilja efla stuðning
við syrgjendur því það er mikilvægt lýðheilsumál“
segir K. Hulda
Guðmundsdóttir stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvarinnar. Miðstöðin mun einblína á það
að hjálpa fólki sem misst hefur ástvini við að vinna úr sorginni en við fráfall
reynist oft erfitt að finna hjálparleiðir. Því sé mikilvægt að veita syrgjandi
fólki aðhald og sýnilegra úrræði.

“Við erum stolt af því og mjög ánægð með að fá að taka
þátt í stofnun Sorgarmiðstöðvarinnar og fara í samstarf með þeim fagaðilum sem
þar munu starfa
,“
segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar við undirritun samnings í
dag. “Það er gríðarlega þarft og gott
verkefni að hlúa vel og með markvissum hætti að syrgjendum í kjölfar ótímabærs
andláts eins og Sorgarmiðstöðin mun leggja áherslu á, ekki síst börnum og ungmennum
sem missa foreldri eða systkini“
segir Rósa.

Heilsa, samfélag og sköpun undir hatti
Lífsgæðaseturs St. Jó

Gamla
hús St. Jósefssystra, sem þær byggðu og vígðu formlega 5. september 1926 ,
hefur nú 6 árum eftir lokun spítalans fengið nýtt hlutverk sem lífsgæðasetur. Fimmtán
rekstaraðilar eru þegar komnir með aðstöðu í setrinu og bjóða þeir upp á
þjónustu sem miðar að því að efla og auka heilsu, vellíðan og lífsgæði íbúa og
vina Hafnarfjarðar með einum eða öðrum hætti. Sorgarmiðstöðin er ein þessarra
aðila og dvelur undir hatti Lífsgæðaseturs St. Jó með m.a. sálfræðingum,
markþjálfum, félagasamtökum, fræðslusetri, jóga og heilsueflingu fyrir eldri
borgara svo fátt eitt sé nefnt. Opnunarhátíð Sorgarmiðstöðvar verður í Lífsgæðasetri St. Jó fimmtudaginn 12.
september kl. 20.

Rósa
Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og K. Hulda Guðmundsdóttir
stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvar undirrita samstarfssamning.

Ábendingagátt