Fræðsla um skynvitund, hlutverk skynjunar og áhrif á líðan

Fréttir

Liður í undirbúningi á nýju skólaári er fjölbreytt námskeiðahald þar sem fagfólk úr ólíkum áttum er fengið að borðinu. Fræðsla um skynvitund í samstarfi við fyrirtækin Heimastyrk og Hlöðuloftið er ný af nálinni og var mikil ánægja með þessa nýjung í fræðsluframboði haustsins.

Betri skilningur á viðbrögðum og líðan nemenda gagnvart ólíkri skynjun

Starfsfólk á mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðarbæjar og í grunnskólum sveitarfélagsins hefur síðustu daga, vikur og mánuði unnið að undirbúningi fræðslu, kennslu og skipulagi skólastarfs á nýju skólaári. Liður í undirbúningi er fjölbreytt námskeiðahald að hausti og skólaárið allt þar sem fagfólk úr ólíkum áttum er fengið að borðinu. Fræðsla um skynvitund í samstarfi við fyrirtækin Heimastyrk og Hlöðuloftið er ný af nálinni hjá þessum hópi og var mikil ánægja með þessa nýjung í fræðsluframboði haustsins bæði meðal aðstandenda námskeiðsins og þátttakenda úr hafnfirsku skólakerfi.

Aukin þekking og betri skilningur getur ýtt undir meiri vellíðan bæði nemenda og kennara

Fræðsla um skynvitund hefur það að markmiði að ýta undir skilning og bjargráð starfsfólks til að styðja börn og ungmenni sem meðal annars takast á við áskorun í skynúrvinnslu, líður ekki nógu vel, eiga erfitt með svefn, eru matvönd, með skerta tilfinningastjórnun, lágt sjálfsmat, eiga erfitt með að vera í hóp og eiga jafnvel fáa eða enga vini. Þessi börn geta bæði verið án greininga og með greiningar á borð við ADHD, áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD), kvíða, þunglyndi, mótþróaröskun eða með röskun á einhverfurófi. Aukin þekking hjá starfsfólki á skynvitund getur stuðlað að meiri vellíðan meðal nemenda og starfsfólksins sjálfs og er námskeiðið hugsað sem hluti af þeirri vegferð að efla hafnfirskt skólakerfi og finna skapandi og áhugaverðar leiðir til að vinna enn betur í takt við nýja farsældarlögin. Fræðslan byggir á hugmyndafræði skynjunar og skynúrvinnslu, reynslunáms, sjálfseflingar og samkenndar og er í höndum Guðrúnar Jóhönnu Hallgrímsdóttur iðjuþjálfa og handleiðara hjá Heimastyrk og Þorkötlu Elínar Sigurðardóttur sálfræðings hjá Hlöðuloftinu.

Vefur Heimastyrks
Vefur Hlöðuloftsins 

Ábendingagátt