Framköllun – Listamannsspjall

Fréttir

Sunnudag 1. febrúar
kl. 15 ræðir Hekla Dögg Jónsdóttir við gesti um sýninguna Framköllun sem nú stendur yfir í
Hafnarborg.

Sunnudag 1. febrúar kl. 15 ræðir Hekla Dögg Jónsdóttir við gesti um sýninguna Framköllun sem nú stendur yfir í Hafnarborg.

Framköllun er sjálfstæður heimur þar sem sköpun, úrvinnsla, miðlun og viðtaka listaverks eiga sér stað í sama rými. Hér er á ferðinni ný innsetning sem er eitt umfangsmesta verk listamannsins hingað til og dregur saman margt af því sem einkennt hefur sköpun hennar til þessa.

Sýningarsal Hafnarborgar hefur verið umbreytt í kvikmyndasýningarsal, upptöku- og vinnslurými þar sem 16mm kvikmynd er unnin, sett saman og sýnd. Svarthvítir eiginleikar filmunnar einkenna rýmið og móta þá sköpun sem á sér stað innan ramma sýningarinnar.

Framköllun er allt í senn skúlptúr, gjörningur og þátttökuverk þar sem Hekla Dögg kallar fram það afl sem býr í samstarfi skapandi einstaklinga en hún fær til liðs við sig fjölda listamanna sem vinna stutt myndskeið. Þeir hafa því áhrif á frásögn og framvindu listaverksins en sköpun og frásögn verksins verður að miklu leyti til á sýningartímabilinu. Þannig er sýningin breytileg og verkið ekki hið sama við upphaf sýningarinnar og lok.

Hekla Dögg Jónsdóttir er á meðal fremstu listamanna samtímans hér á landi. Hún hefur um árabil vakið athygli fyrir verk sem sýnd hafa verið í söfnum og öðrum sýningarstöðum bæði hér heima og erlendis. Hekla er prófessor í myndlist við Listaháskóla Íslands og hefur auk þess að skapa eigin verk haft áhrif á íslenskan myndlistarheim meðal annars með því að standa að baki Kling og Bang sem hefur verið atkvæðamikið samfélag listamanna um árabil. Sýning Heklu Daggar er unnin í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands.

Ábendingagátt