Framkvæmdir við flutning Hamraneslínu geta loks hafist

Fréttir

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag voru tvö framkvæmdaleyfi samþykkt sem marka munu tímamót í uppbyggingu og öryggi atvinnulífs í Hellnahrauni og uppbyggingu byggðar í Skarðshlíð, nýju og fjölskylduvænu íbúðahverfi inn af Völlunum í Hafnarfirði.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag voru tvö
framkvæmdaleyfi samþykkt sem marka munu tímamót í uppbyggingu og öryggi
atvinnulífs í Hellnahrauni og uppbyggingu byggðar í Skarðshlíð, nýju og fjölskylduvænu
íbúðahverfi inn af Völlunum í Hafnarfirði. Samþykkt var að Landsnet fengi
framkvæmdarleyfi fyrir breytingum á legu Hamraneslínu 1 og 2 og mun
háspennulínan færast tímabundið á kafla við tengivirkið í Hamranesi. Einnig var samþykkt að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi
til að tvöfalda kaflann á Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi og vestur fyrir
Krýsuvíkurgatnamót með því að byggja nýja akbraut sunnan núverandi vegar.
Hafnarfjarðarbær hefur talað máli tvöföldunar um árabil og loks sér fyrir endann á þessum áfanga tvöföldunar
Reykjanesbrautarinnar.

Beðið lengi eftir þessum degi

Lega Hamraneslínu í nýjasta íbúðahverfi Hafnarfjarðar hefur
staðið uppbyggingu í hverfinu fyrir þrifum en línan
liggur í dag þvert í gegnum Skarðshlíðina. Staðið hefur til að færa
háspennulínuna um töluvert skeið og er því miklum áfanga náð með veitingu þessa
leyfis þannig að framkvæmdir við flutning geti loks hafist, núverandi íbúum í
Vallahverfi, framtíðaríbúum í Skarðshlíðarhverfi og öðrum Hafnfirðingum til
mikillar ánægju. „Ég fagna því mjög að
framkvæmdaleyfin séu nú samþykkt og að við sjáum loks fyrir endann á flutningi
Hamranesslínunnar. Við höfum um langt skeið barist fyrir því að koma þessum
málum í réttan farveg. Sannarlega hefði verið gott fyrir alla hlutaðeigandi að
hefja þessar framkvæmdir fyrir nokkuð löngu og höfum við beðið lengi eftir
þessum degi“ segir
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Áætlað
er að framkvæmdum verði að fullu lokið um mánaðarmótin október/nóvember 2019.

Uppbygging á nýju hverfi í Skarðshlíð skiptist í þrjá áfanga
og hefur öllum lóðum í áfanga 1, sem stendur á flata undir Skarðshlíðinni
sjálfri og rýmir fjölbýlishús, verið úthlutað. Lóðir í áfanga 2 eru nú til
úthlutunar og hefur nokkrum hluta þeirra þegar verið úthlutað. Gert er ráð fyrir
að opnað verði fyrir úthlutun lóða í síðasta áfangann á vormánuðum en þar
stendur nú yfir undirbúningur og deiliskipulagsvinna. Strax í framhaldinu mun
Hamranesið í heild sinni koma til úthlutunar. Gera má ráð fyrir að svæðið í
heild, Skarðshlíð og Hamranes rými hátt í 2000
íbúðir og það á friðsælum og fjölskylduvænum stað þar sem stutt er í
alla þjónustu.

Skarðshlíðarskóli teikning

Skarðshlíðarskóli tók til starfa í nýju og glæsilegu húsnæði
í Skarðshlíð síðastliðið haust og hýsir skólinn nú í fyrsta áfanga nemendur í
1. – 4. bekk, í heild 97 nemendur í sex bekkjardeildum en mun fullbúinn, sumarið
2020, verða tveggja hliðstæðu grunnskóli með um 400-500 nemendur. Gert er ráð
fyrir að fjögurra deilda leikskóli fyrir 80-90 nemendur verði opnaður nú í
sumar ásamt útibúi frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem getur annað allt að 200
nemendum. „Það eru spennandi tímar framundan
á þessu svæði og ekki oft sem innviðir eins og nýr grunnskóli taki á móti nýjum
íbúum sem er raunin í þessu hverfi. Ásvallabraut mun svo opna á enn frekari
tækifæri fyrir hverfið enda um að ræða greiða tengingu við helstu umferðaræðar“
segir Rósa að lokum.  


Í fundargerð bæjarstjórnar frá 23. janúar er að finna yfirlitskort af færslu Hamraneslínu 1 og 2 og  yfirlitsmynd af tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi .

Ábendingagátt