Framkvæmdir við St. Jó halda áfram

Fréttir

Næstu skref í uppbyggingu á Lífsgæðasetri St. Jó voru mörkuð á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í morgun þegar samþykkt var að klára framkvæmdir utanhúss í sumar. Þann 5. september nk. er eitt ár liðið frá því að Lífsgæðasetur St. Jó var opnað á 2. hæð í húsinu og eru öll rými þar í útleigu.

– nýr verkefnastjóri ráðinn

Næstu skref í uppbyggingu á Lífsgæðasetri St. Jó voru mörkuð á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar sl. miðvikudag þegar samþykkt var að klára framkvæmdir utanhúss í sumar auk þess að bæta aðgengi og lagfæra handrið í stigahúsi innanhúss. Þann 5. september nk. er eitt ár liðið frá því að Lífsgæðasetur St. Jó var opnað á 2. hæð í húsinu og eru öll rými þar í útleigu. Hafnarfjarðarbær festi kaup á 85% hlut ríkisins í húseigninni við Suðurgötu 41 sumarið 2017 sem áður hýsti St. Jósefsspítala.

Nýjar tillögur að endurbótum og uppbyggingu rekstrar

Ragnheiður Agnarsdóttir var á vormánuðum ráðin inn tímabundið sem verkefnastjóri og ráðgjafi fyrir reksturinn á lífsgæðasetrinu og hefur hún síðustu vikur unnið að kortlagningu möguleika fyrir skynsama uppbyggingu rekstrar í húsnæðinu. Ragnheiður hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu bæði sem ráðgjafi og stjórnandi. Hún var framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og samskipta hjá Tryggingamiðstöðinni á árunum 2006-2016 og stjórnendaráðgjafi hjá PWC/IBM/ParX á árunum 2000-2006. Frá árinu 2006 hefur hún rekið Heilsufélagið ráðgjafarþjónustu sem vinnur að umbótaverkefnum sem snúa að vellíðan og árangri einstaklinga, fyrirtækja og stofnanna. Ragnheiður er með BA gráðu í sálfræði og MA gráðu í mannauðsstjórnun frá HÍ.

RDARagnheiður Agnarsdóttir er verkefnastjóri og ráðgjafi Lífsgæðaseturs St. Jó 

Ragnheiður kynnti hugmyndir sínar og drög að tillögum á fundi bæjarráðs í vikunni. Tillögurnar snúa m.a. að því að stofnað verði sérstakt félag sem mun eiga og sjá um rekstur á húsinu og að leitað verði tilboða í þær framkvæmdir sem ráðast þarf í til að koma öllu húsnæðinu í notkun. Biðlisti er eftir rýmum til leigu í húsnæðinu í dag og eru góðar líkur á því að fljótt tækist að fullnýta húsið yrði það klárað. Ráðgert er að vinnuhópar á vegum sveitarfélagsins muni nú í sumar vinna að tiltekt og þrifum með það að markmiði að gera húsið tilbúið fyrir frekari framkvæmdir sem stefnt er á að hefjist síðsumars. 

Ábendingagátt