Framkvæmdum lokið í Seltúni í Krýsuvík

Fréttir

Framkvæmdum við nýjan göngupall í Seltúni í Krýsuvík lauk í vikunni og búið er að opna svæðið aftur fyrir umferð gesta. Til að fagna opnun svæðisins mun DJ Leon S Kemp hjá Nordic Voyage Rec leika raftónlist á göngupallinum laugardaginn 10. júní um kl. 12-13.

Framkvæmdum við nýjan göngupall í Seltúni í Krýsuvík lauk í vikunni og búið er að opna svæðið aftur fyrir umferð gesta. Þegar mest var í fyrra sumar sóttu yfir 1100 manns Seltún heim daglega samkvæmt talningu Ferðamálastofu á fjölda ferðamanna á ferðamannastöðum á landinu.

Verkefnið var unnið með styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu sem er talið brýnt vegna öryggis- og náttúruverndarsjónarmiða. Samhliða byggingu göngupallsins var borið í malarstíga á svæðinu.

Raftónlistarviðburður í Seltúni

Til að fagna opnun svæðisins mun DJ Leon S Kemp hjá Nordic Voyage Rec leika raftónlist á göngupallinum laugardaginn 10. júní um kl. 12-13. Viðburðurinn er hluti af menningarhátíðinni Björtum dögum sem fer fram í Hafnarfirði í júní. Með viðburðinum í náttúruperlunni Seltúni vill framleiðsluteymi tónleikanna sameina íslenska náttúru og landslag með raftónlist. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröð sem nefnist Minimal in Iceland en þeir verða teknir upp og myndband frá tónlistarflutningnum úr dróna og myndavélum á jörðu niðri birt síðar.

Ein fegursta náttúruperla landsins

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún heillar marga. Viðhald á stígum og uppbygging gönguleiða á þessum vinsæla ferðamannastað er forgangsatriði Hafnarfjarðarbæjar í nýútgefinni áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins en hugmyndir eru uppi um frekari uppbyggingu aðstöðu á svæðinu á næstu árum.

Ábendingagátt