Fréttir með Finnboga – skapandi sumarstörf

Fréttir

Finnbogi Örn fréttaáhugamaður og Melkorka Assa, námsmaður við Háskóla Íslands, halda nú í sumar úti Instagram síðunni Fréttir með Finnboga. Síðu sem flytur lifandi og skemmtilegar fréttir beint frá hjarta Hafnarfjarðar. Finnbogi og Melkorka, sem kynntust fyrst í Flensborgarskóla í Hafnarfirði, hófu þetta frábæra verkefni á vegum skapandi sumarstarfa hjá Hafnarfjarðarbæ í byrjun sumars og hefur það þegar leitt þau út í hin ýmsu ævintýri. Í sumar eru níu hópar skapandi sumarstarfa starfandi á vegum Hafnarfjarðarbæjar. 

Finnbogi
Örn fréttaáhugamaður og Melkorka Assa, námsmaður við Háskóla Íslands, halda nú í sumar úti Instagram síðunni  Fréttir með Finnboga. Síðu sem flytur lifandi, fjölbreyttar og skemmtilegar fréttir frá Hafnarfirði.  Finnbogi og Melkorka, sem kynntust fyrst í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði, hófu þetta frábæra verkefni á vegum skapandi sumarstarfa hjá Hafnarfjarðarbæ í byrjun sumars og hefur það þegar leitt þau út í hin ýmsu ævintýri. Í sumar eru níu hópar skapandi sumarstarfa starfandi á vegum Hafnarfjarðarbæjar. 

IMG_9671

Vika tvö í Fréttum með Finnboga er hafin

Eftir mikinn undirbúning hófst
fyrsta vika Fréttir með Finnboga mánudaginn 21. júní og þá fengu fylgjendur miðilsins að fylgjast með Finnboga m.a. taka viðtöl við starfsfólk í söfnum bæjarins  og
verslunarstjóra í bænum, ásamt því að fá sögu og fróðleik í tengslum við þema
fyrstu vikunnar sem var merkileg hús í Hafnarfirði. Áður en formlegar tökur hófust,
ákvað teymið að fjárfesta í góðum græjum og keyptu sér þrífót fyrir síma, með
áföstu hringljósi. Búnaðinn nýta þau til að auðvelda
sér upptökuna og bæta gæði efnisins. 

Tala fylgjenda á Instagram fer stöðugt hækkandi 

Fréttir Finnboga eru strax farnar að vekja mikla og verðskuldaða athygli og aukast vinsældir miðilsins á degi hverjum, fréttahaukunum tveimur til mikillar ánægju. Tala fylgjenda á
Instagram fer stöðugt hækkandi og teymið virkilega þakklátt fyrir áhugann og stuðninginn og ekki síst þau frábæru tækifæri og upplifanir sem verkefnið er að færa þeim. Eftir viðburðaríka fyrstu viku er tilhlökkun til sumarsins 2021 mikil og framtíðin sannarlega björt hjá þessum ungu fréttamiðlurum.  Þema vikunnar er fjölbreytileiki hafnfirskra veitinga og veitingastaða.

Hér má fylgjast með Fréttum með Finnboga 

Skapandi sumarstörf eru hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar – níu verkefni sumarið 2021 

Skapandi sumarstörf hjá Hafnarfjarðarbæ eru hluti af sumarstarfi Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Skapandi sumarstörf eru auglýst sérstaklega og býðst einstaklingum og hópum að skila inn með umsókn sinni hugmyndum að skapandi verkefnum sem eru til þess fallin að glæða bæinn enn meira lífi yfir sumartímann, gera hann enn skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Horft er sérstaklega til fjölbreytileika verkefna og þess að þau höfði til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Valdir hópar fá svo tækifæri til að lífga upp á mannlíf og skemmtun í hjarta Hafnarfjarðar og gleðja ferðamenn og íbúa með alls kyns uppátækjum.  Fréttir með Finnboga eru eitt þessarra verkefna. Átta önnur skapandi verkefni eru starfrækt hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar í ár og munu þessi verkefni einnig verða kynnt á miðlum bæjarins. 

Ábendingagátt