Frisbígolf með fjölskyldunni

Fréttir

Nú er hægt að leigja frisbídiska hjá Skátafélaginu Hraunbúum í Hraunbyrgi. Við hvetjum fjölskylduna til að skella sér í frisbígolf í sumar! Íþrótt sem kallar á útiveru og af útiverunni hafa allir gott. 

Nú er hægt að leigja
frisbídiska hjá Skátafélaginu Hraunbúum í Hraunbyrgi

Sumarið 2014 var
opnaður sex holu frisbígolfvöllur á Víðistaðatúni. Frisbígolf er leikið á
svipaðan hátt og venjulegt golf nema að í stað golfkylfa og golfbolta eru
notaðir frisbídiskar og í stað golfhola eru sér útbúnar körfur settar upp. Nú
stendur áhugasömum til boða að leigja frisbídiska hjá Skátafélaginu Hraunbúum í Hraunbyrgi frá kl. 9-22 alla daga vikunnar.

Frisbígolf á það sameiginlegt með golfi að markmiðið er að
reyna að klára hverja holu, í þessu tilfelli körfu, í sem fæstum köstum.
Íþróttin hentar öllum aldurshópum og er skemmtileg íþrótt fyrir alla
fjölskylduna. Frítt er á völlinn og ekki nauðsynlegt að bóka fyrirfram. Upplýsingaskilti
um leikreglur og skipulag vallar á Víðistaðatúni er að finna á túni fyrir neðan
Víðistaðakirkju. Einnig er hægt að finna vallarkort fyrir völlinn á heimasíðu Íslenska frisbígolfsambandsins (folf) – sjá hér . Frisbídisknum er kastað frá teigsvæði í átt að
skotmarki sem er karfan. Leikmenn taka kast frá þeim stað þar sem diskurinn
lenti síðast. Á flestum völlum er að finna einhverjar hindranir, eins og tré,
holur, hóla og hæðir, sem flækt geta spilið fyrir hvorutveggja reyndum og
óreyndum leikmönnum í tilraunum þeirra við að koma disknum í körfuna.

Íþróttabærinn
Hafnarfjörður

Hafnarfjörður er mikill íþróttabær og eru tækifæri til
hvorutveggja hópíþrótta og einstaklingsíþrótta mikil og fjölbreytt. Til
viðbótar við hefðbundnar keppnisíþróttir hafa lífsstíls- og frístundaíþróttir
færst í aukana og er nú svo komið að aldrei hafa fleiri stundað m.a. göngu og
hlaup sér til heilsubótar og það ekki síður fyrir félagsskapinn og skemmtunina sem
þessu fylgir. Þannig aukast ekki aðeins lífslíkur heldur líka lífsgæði. Hafnfirskir
íþróttamenn standa mjög framarlega í frjálsum íþróttum, fimleikum, sundi,
knattspyrnu, handbolta, körfuknattleik og golfi og aldrei að vita nema
Hafnfirðingar fari líka að stimpla sig rækilega inn í frisbígolfi.

Við hvetjum
fjölskylduna til að skella sér í frisbígolf í sumar!
Íþrótt sem kallar á
útiveru og af útiverunni hafa allir gott.

Ábendingagátt