Frisbígolfvöllur á Víðistaðatúni alvöru keppnisvöllur

Fréttir

Frisbígolfvöllurinn á Víðistaðatúni er nú orðinn löggildur heilsárs keppnisvöllur. Sex brauta völlur var settur upp sumarið 2014 og á árinu 2020 var völlurinn stækkaður í níu brauta völl og unnið að því að setja upp heilsársteiga á allar brautir undir leiðsögn og í góðu samstarfi við Íslenska frisbígolfsambandið (ÍFS). 

Frisbígolf er kjörin íþrótt fyrir alla aldurshópa og alla
fjölskylduna

Frisbígolfvöllurinn á Víðistaðatúni er nú orðinn alvöru heilsárs keppnisvöllur. Sex brauta völlur var settur upp sumarið 2014 og á
árinu 2020 var völlurinn stækkaður í níu brauta völl og unnið að því að setja
upp heilsársteiga á allar brautir undir leiðsögn og í góðu samstarfi við
Íslenska frisbígolfsambandið (ÍFS) . Nú er völlurinn fullbúinn og tilvalið að
nýta einmuna veðurblíðu til útileikja og skemmtunar í góðum félagsskap.

IMG_6630

Birgir Ómarsson formaður Íslenska frisbígolfsambandsins  og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri sýndu góða takta við formlega opnun á endurbættum frisbígolfvelli í Hafnarfirði  

IMG_6636Frisbígolfvöllurinn á Víðistaðatúni er nú níu brauta löggildur keppnisvöllur

Völlurinn nýttur allt árið um kring

Frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf nema
að í stað golfkylfa og golfbolta eru notaðir frisbídiskar og í stað hola eru körfur.
Allt árið um kring sjást spilarar nær daglega á vellinum á Víðistaðatúni og þykir
hann bæði flottur og spennandi og það ekki síst fyrir einfaldleika og fyrir
krefjandi og fallegt umhverfi. Hafnarfjörður er mikill íþróttabær og eru
tækifæri til hvorutveggja hópíþrótta og einstaklingsíþrótta mikil og
fjölbreytt. Til viðbótar við hefðbundnar keppnisíþróttir hafa lífstíls- og
frístundaíþróttir færst í aukana og er nú svo komið að aldrei hafa fleiri
stundað m.a. göngu, hlaup og hjól sér til heilsubótar og ekki síður fyrir
félagsskapinn og skemmtunina sem þessu fylgir. Þannig aukast ekki aðeins
lífslíkur heldur líka lífsgæði. Nýlegar niðurstöður Gallup könnunar sýna að 50%
íbúa á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 18-24 ára spiluðu frisbígolf á árinu 2020 og 45% íbúa á
aldrinum 25-34 ára. Niðurstöður sýna jafnframt að 16% landsmanna 18 ára og
eldri spiluðu frisbígolf á síðasta ári eða um 45.000 manns. Frisbígolf hentar
öllum aldurshópum og er skemmtileg íþrótt fyrir alla fjölskylduna. Frítt er á alla
velli og ekki nauðsynlegt að bóka fyrirfram. Upplýsingaskilti um leikreglur og
skipulag vallar á Víðistaðatúni er að finna á túni fyrir neðan Víðistaðakirkju.

Hér má einnig sjá vallarkort fyrir völlinn

Komdu með alla fjölskylduna í frisbígolf á Víðistaðatúni!
Ömmu og afa líka!  

Ábendingagátt