Frístundabíllinn vinsæll í Hafnarfirði

Fréttir

Haustið 2017 hófst að nýju frístundaakstur í Hafnarfirði og nú er svo komið að tæplega 1500 hafnfirsk börn og foreldrar nýta sér þjónustuna í dag. 

Haustið 2017 hófst að nýju frístundaakstur í Hafnarfirði og nú er svo komið að tæplega 1500 hafnfirsk börn og foreldrar nýta sér þjónustuna í dag. Frístundabíllinn ekur frá tíu frístundaheimilum til tíu tómstundaheimila og íþróttafélaga í Hafnarfirði alla virka daga.

Skólaárið 2017-2018 hófst frístundaakstur aftur í Hafnarfirði og var í upphafi verkefnis ekið með 6 og 7 ára nemendur á æfingar hjá þremur íþróttafélögum. Tilraunin tókst vel og nýttu um 300 börn og foreldrar þjónustuna í hverri viku. Á nýju skólaári hefur þjónustan verið efld til muna og er öllum nemendum 1. – 4. bekkjar nú boðið upp á akstur á æfingar sem hefjast klukkan 15 og 16. Aksturinn hófst 3. september og eru upphafsstaðir allir grunnskólar í Hafnarfirði og áfangastaðir tíu mismunandi tómstundaheimili og íþróttafélög s.s. Listdansskólinn, Tónlistarskólinn, Bjarkirnar, FH, Haukar og SH auk þess Golfklúbburinn Keilir bætist við nú í október. Þessu metnaðarfulla verkefni er ætlað að stytta vinnudag barnanna, auka þjónustu við foreldra, nýta íþróttamannvirkin enn betur, styðja við starf íþrótta- og tómstundafélaga, auka aðgengi allra barna að heilbrigðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og gera starf frístundaheimilanna enn skemmtilegra.

Verkefnið er unnið í samvinnu Hafnarfjarðarbæjar við hafnfirsk íþróttafélög og Hópbíla. Skráning í aksturinn fer fram í gegnum frístundaheimili og er aksturinn foreldrum að kostnaðarlausu.

Nánari upplýsingar um frístundaakstur í Hafnarfirði er að finna HÉR

Ábendingagátt