Frístundastyrkir – breyting

Fréttir

Búið er að opna fyrir þann möguleika að börn fá niðurgreiðslu vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar í öðrum sveitafélögum óháð því hvort viðkomandi starf eða grein sé í boði í Hafnarfirði.

Frá og með áramótum breyttust reglur varðandi niðurgreiðslur þátttökugjalda vegna íþrótta- og frístundastarfs. Búið er að opna fyrir þann möguleika hér í Hafnarfirði að börn geti fengið niðurgreiðslu vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar í öðrum sveitafélögum óháð því hvort viðkomandi starf eða grein sé í boði í Hafnarfirði. Styrkurinn gildir sem fyrr fyrir börn á aldrinum sex til 16 ára.

Markmið niðurgreiðslna er að gera börnum með lögheimili í Hafnarfirði kleift að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag fjölskyldna og að efla íþrótta- og annað forvarnastarf í Hafnarfirði. Einnig á niðurgreiðslan að vinna gegn óæskilegu brottfalli í eldri aldurshópum iðkenda.  Niðurgreiðslur ná einungis til félaga með skipulagða kennslu/þjálfun í að minnsta kosti 10 vikur í senn og að lágmarki eina æfingu í viku. Ef þátttökugjald er hærra en sem nemur niðurgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar innheimtir félag/deild mismun hjá forráðamönnum.

Framkvæmd niðurgreiðslu

Framkvæmd niðurgreiðslunnar er þannig að forráðamenn fara inn á
Mínar síður eða heimasíðu viðkomandi félags og staðfesta þátttöku iðkandans hjá viðkomandi félagi/deild rafrænt. Eingöngu er hægt að staðfesta þátttökuna á Mínar síður eða hjá viðkomandi félagi. Þegar forráðamaður staðfestir þátttöku barns fær viðkomandi félag/deild og Hafnarfjarðarbær staðfestingu þar um. Mánaðarlega tekur Hafnarfjarðarbær saman lista með fjölda þátttökustaðfestinga forráðamanna og sendir til félaga/deilda og greiðir félögum/deildum niðurgreiðslustyrki samkvæmt nánara samkomulagi við viðkomandi íþróttafélag /deild útfrá heildarlista. Félög sem ekki eru tengd Nórakerfinu og
Mínar síður gefa út kvittun fyrir greiðslu æfingagjalda. Forráðamenn/iðkendur verða að koma kvittun fyrir greiðslu æfingagjalda til Þjónustuvers Hafnarfjarðar ásamt reikningi og sækja um niðurgreiðsluna þar.

Hafnarfjarðarbær greiðir styrk út mánaðarlega með það fyrir augum að viðhalda fastri ástundun og virkni allt árið auk þess sem hærri greiðslur fyrir eldri börn hvetja unglinga til að halda áfram í tómstundum. Yngri börn fá 1.700.- kr á mánuði og eldri 2.550.- kr.  

Þjónustuver Hafnarfjarðar í s. 585-5500 veitir frekari upplýsingar og aðstoð varðandi skráningar á
Mínum síðum .

Ábendingagátt