Frumkvöðlasetrið Kveikjan flutt í nýtt húsnæði

Fréttir

Frumkvöðlasetrið Kveikjan sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands annast rekstur á í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ flutti fyrir skemmstu í nýtt húsnæði að Flatahrauni 14 í Hafnarfirði en í því húsnæði hafði slökkvilið Hafnarfjarðar áður aðsetur.

Frumkvöðlasetrið Kveikjan sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands annast rekstur á í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ flutti fyrir skemmstu í nýtt húsnæði að Flatahrauni 14 í Hafnarfirði en í því húsnæði hafði slökkvilið Hafnarfjarðar áður aðsetur.

Samstarfssamningur Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, sveitarfélagsins Álftaness og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um frumkvöðlasetrið Kveikjuna var fyrst undirritaður 1. maí árið 2009. Þá var frumkvöðlasetrið hýst að Strandgötu 11 í Hafnarfirði og hafði setrið frá upphafi það markmið að styðja við bakið á frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum á svæðinu með því að útvega þeim faglega aðstoð og aðstöðu sem stuðla átti að nýsköpun, auknum atvinnutækifærum og stofnun nýrra fyrirtækja.

Samningurinn var endurnýjaður á milli Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Hafnarfjarðarbæjar og Garðabæjar á vormánuðum ársins 2012 og í kjölfarið flutti setrið í annað og stærra húsnæði að Strandgötu 31 í Hafnarfirði.

Frumkvöðlarnir sem starfa í Kveikjunni hafa nú komið sér vel fyrir í nýjum húsakynnum að Flatahrauni og hefur nýr samstarfssamningur verið undirritaður á milli ofangreindra aðila um afnot húsnæðisins og reksturs frumkvöðlasetursins Kveikjunnar og nær samningurinn til ársins 2018.

Fjölbreyttar viðskiptahugmyndir

Í gegnum þetta áralanga samstarf hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands og bæjaryfirvöld í Garðabæ og Hafnarfirði lagt vinnu í að hvetja einstaklinga innan sinna sveitarfélaga til að hrinda eigin viðskiptahugmyndum í framkvæmd með veru á frumkvöðlasetrinu og aðgengi að faglegri aðstoð og upplýsingagjöf og má með sanni segja að  árangur þessa samstarfs sé ótvíræður og sýnilegur. Hjá fyrirtækjunum sem starfa í Kveikjunni starfa á bilinu 25-30 manns. Viðskiptahugmyndirnar eru fjölbreyttar og á þeim árum sem Kveikjan hefur starfað hafa mörg frumkvöðlafyrirtækjanna sprengt utan af sér starfsrýmið á frumkvöðlasetrinu og í kjölfarið flutt í stærra húsnæði sem rúmar aukinn mannafla og vöxt viðskiptahugmyndanna. Má þar nefna fyrirtæki eins og Remake Electric, sem þróað hefur nýja tegund rafskynjara, Luminox sem framleiðir tölvuleiki og Mussikids sem framleiðir íslenskt skemmti- og fræðsluefni sem opnar tónlistarheiminn fyrir börnum.

Samstarf við sveitarfélögin afar mikilvægt

„Frumkvöðlasetrið Kveikjan skapar fyrirtækjum og frumkvöðlum ekki einungis aðstöðu til framkvæmda heldur afar mikilvægt tengslanet og vettvang reynslu og samstarfs á ýmsum sviðum. Við erum afar ánægð með það samstarf sem við höfum átt við Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ á undanförnum árum og þeir eiga heiður skilinn fyrir sinn velvilja og áhuga á að skapa frumkvöðlum á þessu svæði góða aðstöðu til góðra verka. Það væri óskandi að fleiri sveitarfélög myndu taka þessi bæjarfélög sér til fyrirmyndar í þessum málum og fara að fordæmi Hafnarfjarðarbæjar og Garðabæjar í þeirra aðkomu að rekstri frumkvöðlasetra því sú starfssemi sem við leiðum þarna í samstarfi við sveitarfélögin hefur sýnt fram á ótvíræðan ávinning fyrir þau og aukið fjölbreytni atvinnulífsins og gert sveitarfélögin að eftirsóknarverðari stað fyrir framsækið og hugmyndaríkt fólk að búa og starfa í “, segir Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og rekstrarstjóri frumkvöðlasetra stofnunarinnar. 

Á myndinni má sjá bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Harald L. Haraldsson, Sigríði Ingvarsdóttur, framkvæmdastjóra og rekstrarstjóra frumkvöðlasetra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ásamt Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar við undirritun samningsins.

Ábendingagátt