Bæjarráð

14. júní 2016 kl. 08:15

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3436

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir formaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir varaformaður
  • Ófeigur Friðriksson aðalmaður
  • Sverrir Garðarsson áheyrnarfulltrúi
  • Unnur Lára Bryde varamaður
  • Adda María Jóhannsdóttir varamaður

Einnig sátu fundinn Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri og Kristján Sturluson sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

Ritari

  • Guðríður Guðmundsdóttir

Einnig sátu fundinn Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri og Kristján Sturluson sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

  1. Almenn erindi

    • 1507104 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2016

      Rekstrartölur janúar – apríl 2016 lagðar fram.

      Rósa Steingrímsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, mætir á fundinn.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar leggja fram svohljóðandi bókun:

      Meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks fagnar jákvæðri niðurstöðu árshlutauppgjörs sem lögð var fram á fundinum, sem er í fullu samræmi við áætlun. Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar mun áfram sýna ábyrga fjármálastjórnun meðal annars með áherslu á að greiða niður lán og fjármagna nýframkvæmdir án þess að stofna til nýrra skulda, jafnframt því að viðhalda og bæta þjónustu við bæjarbúa.
      Meðal jákvæðra þátta í árshlutauppgjörinu er 40 milljón króna aukning til kennsluúthlutunar í grunnskólum bæjarins umfram fjárhagsáætlun og aukinn systkinaafsláttur í gjaldskrám bæjarins.

      Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:

      Þann 5. desember 2015 samþykkti meirihluti bæjarstjórnar, Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð, fordæmalausa hækkun á fasteignasköttum á íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði um 21,5% fyrir árið 2015. Álagningarstuðull var hækkaður í einu vetfangi úr 0,28% í 0,34%. Aldrei áður í sögu Hafnarfjarðar hafa fasteignaskattar verið hækkaðir jafn mikið á milli ára og raun ber vitni.
      Á sama tíma hefur fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkað jafnt og þétt í Hafnarfirði og nemur hækkunin almennt á milli 15-20% á sl. þremur árum, sem veldur almennt beinni tekjuaukningu hjá sveitarfélögum óháð álagningarprósentunni.
      Raunhækkun fasteignaskatta á eigendur íbúðahúsnæðis er því veruleg og ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði og Björt framtíð hafa með samþykkt sinni skert kaupmátt Hafnfirðinga auk þess sem leigjendur íbúðahúsnæðis hafa tekið við verulegri hækkun á leigu umfram það sem gerst hefur hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, sem almennt hækkuðu ekki skatta með hækkun álagningarprósentu sinni milli ára.
      Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja því til að hækkun fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði verði afturkölluð og álagningarstofn verði 0,28% líkt og árin tvö þar á undan.
      Fasteignaskattar verði þegar í stað endurreiknaðir og endurálagt á eigendur íbúðarhúsnæðis. Tekjuskerðingu bæjarsjóðs verði mætt með hagræðingu í yfirstjórn og stjórnsýslu. Þá ber að nefna að í nýlegu fasteignamati vegna ársins 2017 má gera ráð fyrir 6-11% hækkun á höfuðborgarsvæðinu. Tekjuaukning bæjarfélagsins er því alla tíð fyrirsjánaleg með hækkun fasteignamatsins.
      Mikilvægt er að á sama tíma og hægt er að ná fram lækkun á þjónustugjöldum Fráveitu og Vatnsveitu vegna minni fjárfestinga eftir mikilvæga uppbyggingar á stofnkerfum á sl. áratug að eigendur fasteigna séu ekki beittir þeim misrétti að njóta ekki að sama skapi þjónustugjaldalækkunar með hækkun á sköttum, sem hafa lögformlega viðmiðun.
      Sjá töflu í viðhengi.

      Tillagan er felld með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar leggja fram svohljóðandi bókun:

      Meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks fagnar því að fulltrúar minnihlutans taki undir áherslur meirihlutans á lækkun gjalda á íbúa bæjarins. Tillagan um lækkun fasteignaskatta er að mörgu leyti áhugaverð þótt hún byggi á grundvallarrangtúlkun eins og hún er lögð fram. Enda hafa álögur á fasteignir íbúa Hafnarfjarðar alls ekki hækkað milli ára, nema síður sé.
      1. Fasteignagjöld á íbúa í Hafnarfirði eru óbreytt milli ára. Innbyrðis tilfærsla frá vatns- og fráveitugjöldum yfir í fasteignaskatta hefur ekki áhrif á heildargjöld á íbúa, nema til lækkunar gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum. Þetta var ítarlega kynnt við gerð fjárhagsáætlunar, lýst í greinargerð með henni og ætti því að vera öllum bæjarfulltrúum fullljóst.
      2. Tilfærsla innheimtu frá vatns- og fráveitu yfir í fasteignaskatta er liður í lækkun fasteignagjalda í Hafnarfirði, en eins og kom fram við framlagningu fjárhagsáætlunar, er stefnt að lækkun fasteignaskatthlutfalls á árinu 2017.
      3. Tillagan sem hér er lögð fram byggir á rangtúlkun, þar sem tillögusmiðum er fullljóst að heildargjöld á fasteignir í bænum hafa ekki hækkað milli ára og allt tal um fordæmalausar hækkanir dæmir sig því sjálft.
      4. Tillagan er aukinheldur óábyrg og illa rökstudd þar sem hún myndi leiða til halla á þeirri fjárhagsáætlun A-hluta bæjarsjóðs sem nú er unnið eftir.

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri Grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

      Það er óumdeilt og ekki rangtúlkun að fasteignaskattar voru hækkaðir úr 0,28% í 0,34% við gerð fjárhagsáæltunar í desember 2015. Á sama tíma hefur fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkað. Það gefur því auga leið að útgjöld heimila í Hafnarfirði hafa aukist í hlutfalli við hækkun á fasteignaskatti.
      Við leggjum til að tillögunni verði vísað til frekari umræðna í bæjarstjórn.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar leggja fram svohljóðandi bókun:

      Aftur er ástæða til að leiðrétta þá rangtúlkun að gjöld á heimili hafi aukist. Það er alrangt. Meginreglan er að álögur á heimili eru óbreyttar, nema hvað þær lækka gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum.
      Hækkun fasteignamats sem kynnt hefur verið nýlega tekur gildi um áramótin 2016-17. Við þeirri hækkun verður brugðist í fjárhagsáætlun fyrir árið 2017.

    • 1507104 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2016, viðauki

      Viðauki við fjárhagsáætlun 2016 lagður fram.
      Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir á fundinn

      Bæjarráð samþykkir viðaukann og vísar til afgreiðslu bæjarstjórnar.

      Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri Grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna gera athugasemdir við þá forgangsröðun fjármuna sem kemur fram í viðauka við fjárhagsáætlun 2016 og birtist í framlagi til stofnun einkaskóla. Áður hefur verið bókað í fræðsluráði að finnist svigrúm innan fjárheimilda til þess að auka framlög til skólamála teljum við brýnt að forgangsraðað sé í þágu þeirra grunnskóla sem sveitarfélagið rekur sjálft áður en ráðist er í slíkt verkefni.

      Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar leggja fram svohljóðandi bókun:

      Forgangsröðun fjármuna birtist með þeim hætti í viðauka við fjárhagsáætlun, að 29 milljón krónum sem áætlað var að verja í greiðslur til sjálfstætt starfandi skóla er áfram varið til sjálfstætt starfandi skóla.
      Nýting 40 milljón króna aukins svigrúms til kennsluúthlutunar í grunnskólum endurspeglar forgangsröðun til öflugs skólastarfs í bænum.

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna benda á að þær 40 milljónir sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar nefna hér eru ekki til ráðstöfunar. Það að hætta við niðurskurð tímabundið er ekki það sama og gefa innspýtingu til skólamála. Þetta er villandi framsetning og í besta falli rangtúlkun.

    • 1603229 – Gúmmikurl, sparkvellir

      Lögð fram áætlun um endurnýjun sparkvalla.

      Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi, mætir á fundinn.

      Lagt fram.

    • 1606043 – Sorpa bs, endurnýjuð kostnaðaráætlun 2016, endurvinnslustöðvar, sveitarfélögin

      Lagt fram bréf frá Sorpu bs.

      Lagt fram.

    • 1605309 – Samstarf við ASÍ um uppbyggingu leiguíbúða

      Farið yfir stöðuna í viðræðum Hafnarfjarðarbæjar og ASÍ um uppbyggingu leiguíbúða.

      Bæjarstjóri gerði grein fyrri viðræðum við ASÍ um uppbyggingu leiguíbúða.

    • 1604408 – Forsetakosningar 2016

      1604408 – Forsetakosningar 2016
      Lögð fram tillaga kjörstjórnar Hafnarfjarðar að kjörstöðum og undirkjörstjórnum vegna forsetakjörs sem fram fer 25. júní n.k. sbr. 68. gr, 10.gr. og 15.gr. l.24/2000, sbr. l. 36/1945.
      Kjörstaðir eru 2, Lækjarskóli og Víðistaðaskóli og kjördeildir eru 13.

      Til máls tekur bæjarfulltrúi Eyrún Ósk Jónsdóttir og leggur fram eftirfarandi bókun Samfylkingar og Vinstri Grænna: “Fulltrúar Samfylkingar og VG beina því til kjörstjórnar að sérstaklega verði hugað að aðgengi íbúa á Völlum fyrir komandi alþingiskosningar og kannaður grundvöllur þess að fjölga kjörstöðum með því að hafa einn þeirra staðsettan í Vallahverfi. Jafnframt beina fulltrúar Samfylkingar og VG því til bæjarráðs að kanna grundvöll þess að boðið verði uppá fríar strætóferðir í Hafnarfirði á kjördag í komandi forsetakosningum og sérstaklega verði hugað góðum samgöngum Vallahverfis og kjörstaða. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson.”

      Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson.

      Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir framlagða tillögu kjörstjórnar Hafnarfjarðar, að við forsetakosningar þann 25. júní n.k. verði kjörstaðir 2, Lækjarskóli og Víðistaðaskóli og kjördeildir verði 13.

      Tillagan er samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

      Bæjarráð tekur jákvætt í framlagða tillögu um fríar strætóferðir á kjördag og felur bæjarstjóra að skoða möguleika þar á, kostnað og hvernig framkvæmdin gæti orðið.

    • 1604408 – Forsetakosningar 2016, kjörskrá

      Lögð fram kjörskrá vegna forsetakosninganna sem fram fara 25.júní nk. Á kjörskrá eru 20.469

      Bæjarráð staðfestir framlagða kjörskrá vegna forsetakosninga sem fram fara 25. júní n.k.

    • 1605362 – Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, leigugreiðslur

      Lagt fram bréf frá innanríkisráðuneytinu, Jöfnunarsjóði sveitarélaga.

      Bæjarráð fagnar þessari niðurstöðu sem felur í sér að húsaleigan verður greidd niður um 20 milljónir á ári, og munu önnur sveitarfélög sem eru með sambærilega samninga njóta góðs af.

    • 1410264 – Bæjarbíó, Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar, rekstur, rekstraraðili

      Samþykkt á fundi menningar- og ferðamálanefndar 3. júní 2016:

      1410264 – Bæjarbíó, Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar, rekstur, rekstraraðili
      Samþykkt að leggja til við bæjarráð að Hafnarfjarðarbær og Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar (MLH) geri með sér viðauka við samning um rekstur og umsjón Bæjarbíós sem feli í sér framlengingu á gildandi samningi sem rennur út 15. júní nk. um tvo mánuði til 15. ágúst.

      Bæjarráð staðfestir ákvörðun menningar- og ferðamálanefndar um framlengingu á gildandi samningi um rekstur og umsjón Bæjarbíós til 15. ágúst n.k.

    • 1305351 – Vinabæjarsamstarf, undirbúningsfundur 2016, mót 2017

      Minnisblað um undirbúningsfund fyrir vinabæjarmót lagt fram.
      Andri Ómarsson verkefnisstjóri mætir á fundinn.

      Lagt fram.

    • 1606121 – Vinabærinn Hämeenlinna Finnlandi, alþjóðlegt listrænt verkefni fyrir ungt fólk og listamenn

      Lagt fram bréf frá Hämeenlinna vegna hátíðarhalda í tilefni af 100 ára sjálfstæði Finnlands.
      Andri Ómarsson verkefnisstjóri mætir á fundinn.

      Lagt fram.

    • 1604079 – Húsnæðisstefna

      Breyting á fulltrúa í starfshóp um húsnæðisstefnu.

      Nýir fulltrúar í starfshóp um húsnæðisstefnu eru Skarphéðinn Orri Björnsson í stað Láru Árnadóttur og Óskar Steinn Ómarsson í stað Guðnýjar Stefánsdóttur.

    • 1604045 – Víðistaðakirkja, freskumyndir, styrkbeiðni

      Lagt fram bréf frá sóknarnefnd Víðistaðakirkju vegna styrkveitingar og boð um fund.

      Bæjarráð þiggur boð um fund og felur bæjarstjóra að finna heppilegan fundartíma.

    • 1606046 – Reykdalsvirkjun, stytta, umsókn

      Lagt fram erindi um leyfi vegna styttu af Jóhannesi Reykdal.

      Bæjarráð vísar erindinu til stjórnar Hafnarborgar.

    • 1506568 – Sólvangsvegur, hjúkrunarheimili Sólvangssvæði

      Tvö ár eru nú liðin frá því að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar stöðvuðu framkvæmdir við hjúkrunarheimili í Skarðshlíð og lögðu til að uppbygging öldrunarþjónstu ætti að eiga sér stað á Sólvangsreit. Hönnun á hjúkrunarheimili í Skarðshlið var þá lokið og áætlað að það gæti opnað í ársbyrjun 2016. Enn bólar ekkert á nýju hjúkrunarheimili í Hafnarfirði og nú hefur fundur í verkefnastjórn ekki verið haldinn í tvo mánuði. Þá hafa ekki borist niðurstöður frá kærunefnd útboðsmála vegna hönnunarútboðs.
      Í ljósi þessa óska fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna eftir upplýsingum um stöðu verkefnisins og framkvæmdaáætlun.

    • 1504489 – Stofnun grunnskóla

      Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska svara við eftirfarandi fyrirspurnum:
      Hvernig var staðið að undirbúningi að gerð þjónustusamnings við þriðja aðila um framkvæmd umræddrar þjónustu fyrir hönd sveitarfélagsins og hvernig voru skilyrði laga um opinber innkaup uppfyllt, m.a. um jafnræði og tækniforskrift?
      Tilkynnti Hafnarfjarðarbæjar tímanlega og með formlegum hætti um hvaða þjónustu sveitarfélagið vildi kaupa af þriðja aðila, sbr. ákvæði laga um opinber innkaup, jafnvel þó svo að ekki hafi verið um að ræða eiginlegt útboðsferli? Hvar var sú tilkynning sett fram, hvenær og hvert var innihald hennar með tilliti til þeirra skilyrða og viðmiða sem horft var til við mat og ákvörðun um samstarfsaðila og ætlast er til að opinberir aðilar upplýsi um áður en slíkir samningar eru gerðir?
      Þrátt fyrir að fella megi gerð þjónustusamnings um rekstur skóla undir undanþágukvæði laga um opinber innkaup og ekki sé gert ófrávíkjanleg krafa um að útboð sé viðhaft, kom ekki til greina að viðhafa engu að síður slíkt ferli?
      Í ljósi þess að ekkert eiginlegt innkaupaferli virðist hafa átt sér stað fyrir gerð umrædds þjónustusamnings, telur bæjarstjóri það eðlileg og jafnvel ákjósanleg vinnubrögð við gerð samninga af þessu tagi sem fjalla um viðskipti upp á tugi og jafnvel hundruða milljóna króna og umtalsverða hagsmuni væntanlegra þjónustunotenda að semja við aðila eingöngu á grundvelli innsendra erinda frá óstofnuðu hlutafélagi, jafnvel þó svo að viðkomandi aðilar hafa aldrei komið að slíkum rekstri áður?

    • 1606258 – Rekstur og útgjöld til fræðslumála, fyrirspurn, ítrekun

      Í tengslum við umræður um skólamál hafa komið fram upplýsingar um það að stöðugildum kennara hafi fjölgað í bænum. Óskað hefur verið eftir þeim gögnum en þau ekki borist. Þar sem við teljum hins vegar afar brýnt að svör við þessum spurningum fáist eins fljótt og auðið ítrekum við þær fyrirspurnir hér og óskum svara eigi síðar en tímanlega fyrir næsta bæjarstjórnarfund svo kjörnir fulltrúar geti sinnt lögboðnu skyldum í sínum störfum.
      Við óskum eftir samantekt á upplýsingum um fjölda kennara og annarra starfsmanna og fjárveitingar á föstu verðlagi, brotið niður á hvern skóla.
      Eins óskum við eftir upplýsingum um það hvernig samþykktum frá seinasta hausti í tengslum við fjárhagsáætlun hefur reitt af. Hverjar þeirra hafa raunverulega komið til framkvæmda og hverjar ekki, bæði hvað varðar hagræðingaraðgerðir og viðbætur.

    Umsóknir

    • 1606191 – Strandgata 26-30, lóðarstækkun, umsókn

      Lögð fram umsókn um stækkun lóðarinnar Strandgötu 26-30 að Fjarðargötu 13-15.

      Bæjarráð samþykkir umsóknina með fyrirvara um breytingu á deiliskipulagi og vísar til afgreiðslu í bæjarstjórn.

    • 1606071 – Suðurgata 40, umsókn um lóð

      Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

    • 1606070 – Hnoðravellir 35-39, umsókn um lóð

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi umsókn Byggingafélagsins X ehf. og vísar til bæjarstjórnar.

    Fundargerðir

    • 1605024F – Menningar- og ferðamálanefnd - 266

      Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 3.júní sl.

    • 1602157 – Stjórn SSH, fundargerðir 2016

      Lögð fram fundargerð stjórnar SSH frá 2.maí sl., 429.fundur

    • 1601856 – Strætó bs, fundargerðir 2016

      Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs frá 27.maí sl., 245. fundur.

    • 1605015F – Stjórn Hafnarborgar - 339

      Lögð fram fundargerð stjórnar Hafnarborgar frá 26.maí sl.

Ábendingagátt