Bæjarráð

3. maí 2018 kl. 08:15

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3492

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir formaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir varaformaður
  • Kristinn Andersen aðalmaður
  • Gunnar Axel Axelsson aðalmaður
  • Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Elva Dögg Ásud. Kristinsdóttir áheyrnarfulltrúi

Ritari

  • Ívar Bragason Lögmaður á stjórnsýslusviði
  1. Almenn erindi

    • 1804530 – Kveikjan, frumkvöðlasetur Hafnarfirði

      Lögð fram stöðuskýrsla Kveikjunnar 2018. Nýsköpunarmiðstöð Íslands óskar eftir að samstarfssamningur Nýsköpunarmiðstöðvar, Hafnarfjarðar og Garðabæjar frá 2. júní 2015 verði framlengdur um 3 ár.
      Til fundarins mæta, Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Kristján Óskarsson verkefnastjóri

      Bæjarstjóra falið að vinna áfram að málinu.

    • 1704173 – Golfklúbburinn Keilir, framkvæmdir, viðræður

      Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi mætir til fundarins

      Bæjarráð samþykkir að vísa fyrirliggjandi samningi til afgreiðslu í bæjarstjórn með áorðnum breytingum.

    • 1601218 – Opnunartími sundlauga

      Á fundi bæjarstjórnar 25.apríl sl.var málið á dagskrá.

      Fyrir fund bæjarráðs senda fulltrúa minnihlutans eftirfarandi bréf ásamt tillögu:

      Fulltrúar minnihlutans ítreka eftirfarandi spurningar sem lagðar voru fram á fundi bæjarstjórnar þann 25. apríl sl. og óska eftir því að skrifleg svör verði lögð fram, helst eigi síðar en fyrir fund bæjarráðs þann 3. maí nk.

      “Hvers vegna segir í greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 að festa eigi í sessi lengdan opnunartíma sundlauga að sumri ef í reynd á að bjóða upp á opnunartíma sumarið 2018 sem er umtalsvert minni en árið 2017??

      “Hvers vegna hefur bæjarráð ekki verið upplýst um þær skerðingar á starfskjörum starfsmanna sundlauga sem fyrirhugaðar breytingar á opnunartíma hafa haft í för með sér?”

      Þá leggja fulltrúar minnihlutans til að sumaropnunartími verði sá sami árið 2018 og hann var árið 2017, þ.e. að ekki verði ráðist í skerðingar á opnunartíma milli ára eins og boðað hefur verið. Þá verði einnig tryggt að starfskjör starfsmanna sundlauga verði varin á meðan nánari skoðun fer fram á allri framkvæmd málsins síðustu mánuði og ný bæjarstjórn hefur fengið tækifæri til að móta nýja stefnu um opnunartíma sundlauga í Hafnarfirði í góðri sátt við gesti lauganna og starfsfólk þeirra.

      Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og VG
      Gunnar Axel Axelsson
      Adda María Jóhannsdóttir
      Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir

      Aðalsteinn Hrafnkelsson forstöðumaður sundlauganna og Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi mættu til fundarins.

      Bæjarráð þakkar fyrir upplýsinganar og bendir á að fræðsluráð samþykkti á fundi sínum í gær, 2. maí, að endurskoða nýjan opnunartíma sundlauga um helgar með það að markmiði að bæta að minnsta kosti tveimur klukkustundum við með því að halda áfram að opna Suðurbæjar- og Ásvallalaug kl. 8.00 um helgar. Lengist þá opnunartími sundlauga bæjarins alls um að minnsta kosti 6 klst á viku með þeim breytingum sem áður höfðu verið samþykktar.

      Í fjárhagsáætlun 2018 er skýrt kveðið á um nýjan og lengri opnunartíma og er markmiðið að auka þjónustuna við bæjarbúa. Með því að halda í morgunopunartímann í umræddum sundlaugum en falla frá helgaropnun í Sundhöllinni er verið að bregðast við ábendingum fastagesta.

      Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskað bókað:

      “Það er ánægjulegt að fyrri ákvörðun um skerðingu á opnunartíma sundlauga hafi verið dregin til baka á fundi fræðsluráðs í gær. Spurningu fulltrúa minnihlutans um hvers vegna bæjarráð hafi ekki verið upplýst um málið fyrr er enn ósvarað.
      Við munum eftir sem áður fylgja því eftir að opnunartími sundlauga í Hafnarfirði verði lengdur til samræmis við það sem tíðkast í nágrannasveitarfélögunum, enda teljum við að frekari nýting sundlauganna sé einhver sú besta ráðstöfun sem sveitarfélagið geti ráðist í varðandi bætta lýðheilsu fólks á öllum aldri. Við munum sömuleiðis fara fram á að allt þetta ákvarðanatökuferli verði yfirfarið og kjör starfsmanna sundlauga verði varin og eftir atvikum leiðrétt í þeim tilvikum sem þau hafa verið skert í tengslum við þessar aðgerðir.
      Þá leggjum við áherslu á að ráðist verði í löngu tímabærar og gagngerar endurbætur á sundlaugum bæjarins.”

      Adda María Jóhannsdóttir
      Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir
      Gunnar Axel Axelsson

    • 1404083 – Kaldárselsvegur, tenging við Reykjanesbraut, deiliskipulag

      Þormóður Sveinsson, skipulagsfulltrúi mætir til fundarins.

      Farið yfir stöðu málsins og bæjarstjóri upplýsti að verið væri að vinna minnisblað um úrlausn málsins í samráði við hesthúsaeigendur.

      Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG leggja til að bæjarstjóra verði falið að vinna að viðunandi lausn málsins í samráði við eigendur hesthúsa á umræddu svæði.

    • 1708254 – Sandskeiðslína 1, framkvæmdaleyfi, kæra mál 84/2017 - Lyklafellslína

      Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri gerir grein f. stöðu málsins.

    • 1804522 – Bæjarfulltrúar, kjörgengi og forföll, erindi.

      Guðlaug Kristánsdóttir víkur af fundi undir þessum lið.

      Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskað bókað:

      Bæjarráðsfulltrúar minnihlutans gagnrýna það harðlega að erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dagsett 20. apríl sl. sé lagt fyrir hér á þessum fundi án þess að fyrir liggi nein drög að svari til ráðuneytisins. Ástæða er til að benda á að eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins er lögum samkvæmt í höndum bæjarráðs og eðlilegt í ljósi aðstæðna að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði bregðist strax við og veiti ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar, án frekari tafa.

      Adda María Jóhannsdóttir
      Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir
      Gunnar Axel Axelsson

      Formaður bæjarráðs vekur athygli á að með vísan til 5. gr. í erindisbréfi forsetanefndar er málið til umfjöllunar þar og í eðlilegum farvegi.

      Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska eftir að fundargerð þessa fundar verði send samgöngu – og sveitastjórnarráðuneytinu í kjölfar þessa fundar.

    • 1712270 – Bæjarráð, styrkir 2018

      Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til bæjarráðs.

      Andri Ómarsson, verkefnastjóri mætir til fundarins.

    • 1804478 – Thorsplan, HM útsending

      Útsending frá HM í fótbolta á Thorsplani, sumarið 2018.

      Bæjarráð samþykkir að sýna frá leik Íslands á HM á Thorsplani þann 16. júní í sumar.

    • 1804367 – Sólvangur, uppgjör, eignaskipti

      Lagðir fram samningar um uppgjör og eignaskipta á milli Ríkissjóðs Íslands og Hafnarfjarðarkaupstaðar á Sólvangi, Sólvangsvegi 2.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja fyrirliggjandi samning.

    • 1612120 – Barnvænt samfélag, vottun

      Lagt fram svar við fyrirspurn frá fundi bæjarráðs 20. apríl s.l. Fyrirspurnirna voru svohljóðandi:

      “Þann 7. desember 2016 lögðum við fram tillögu í bæjarstjórn um að samstarfi yrði komið á við Unicef og Akureyrarbæ við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allt starf, reglur, samþykktir og stefnur bæjarins til að uppfylla kröfur til þess að fá vottun sem Barnvænt samfélag.
      Samþykkt var að vísa tillögunni til bæjarráðs þar sem það var tekið til afgreiðslu þann 15. desember sama ár og óskað eftir kynningu um verkefnið og næstu skref í innleiðingu þess frá Unicef. Sú kynning var á fundi bæjarráðs þann 6. apríl 2017 þar sem framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi kynnti hugmyndina um barnvæn samfélög. Á þeim fundi var bæjarstjóra falið að undirbúa stofnun stýrihóps um verkefnið „fyrir haustið“.
      Þar sem engin sjáanleg merki eru um frekari afgreiðslu eða framkvæmd þessa máls leggjum við fram eftirfarandi fyrirspurnir.
      – Var stýrihópur um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna stofnaður?
      – Ef svo er, hvenær var það gert og hvar er vinna hans stödd?

      Ef ekki, hvaða skýringar eru á því?

      Bæjarráð samþykkir að á næsta fundi ráðsins verði lagt fram erindisbréf að nýjum starfshópi sem undirbúi verkefnið.

      Bókun fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna:

      “Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna harma að ekki hafi verið unnið í samræmi við samþykkt bæjarráðs frá 6. apríl 2017 og tillögu okkar í bæjarstjórn þann 7. desember 2016 um að undirbúa stofnun stýrihóps um samstarfsverkefni við Unicef og Akureyrarbæ við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stefnur og samþykktir bæjarins. Fulltrúar meirihlutans hafa haft rúmt ár til að ráðast í þau skref sem nefnd eru í svari við fyrirspurnum okkar en ekki aðhafst í samræmi við samþykkt ráðsins.”

    • 1707207 – Straumsvík 123154, endurnýjun lóðarleigusamnings

      Tekin fyrir beiðni Rio Tinto um endurnýjun lóðarleigusamnings um Straumsvík.

      Gunnar Axelsson víkur af fundi kl. 10:34.

      Bæjarstjóra falið að vinna áfram að málinu.

    • 1706312 – Starfshópur, mótun framtíðarstefnu um notkun St. Jósefsspítala

      Upplýst um stöðu verkefnisins.

    • 1804569 – Fundur, beiðni frá Sino World Consulting Company

      Lagt fram bréf frá Cecilia Huang Project Manager Sino World Consulting Company.

      Bæjarráð tekur vel í erindið og felur bæjarstjóra að vinna að málinu.

    • 1804457 – Vikurskarð 3, heimild til sölu

      Lagt fram erindi dags. 23.apríl sl.þar sem óskað er eftir heimild til sölu einbýlishúsalóðarinnar Vikurskarð 3. Lóðarhafi er Eignasamsteypan ehf kt. 601282-0389.

      Bæjarráð samþykkir að veita heimild til sölu á Víkurskarði 3 í samræmi við framlagt erindi.

    • 1708401 – Glimmerskarð 3, umsókn um lóð, úthlutun, afsal

      Lagður fram tölvupóstur frá lóðarhöfum að Glimmerskarði 3 þar sem fram kemur að þau óska eftir að afsala sér lóðarúthlutun á lóðinni.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðarúthlutun á Glimmerskarði 3 verði afturkölluð í samræmi við fyrirliggjandi erindi.

    • 1604501 – Skarðshlíð 2. áfangi, deiliskipulag

      Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska eftir samantekt um lóðarúthlutanir í 2. áfanga Skarðshlíðar. Óskum við eftir upplýsingum um hversu mörgum lóðum hefur veri skilað og endurúthlutað eða bíða endurúthlutunar. Óskað er eftir upplýsingum um fjölda lóða sem úthlutað var til einstaklinga og hversu mörgum þeirra hefur verið skilað og hversu mörgum lóðum var úthlutað til lögaðila og hefur verið skilað. Óskað er eftir yfirliti sem sýnir upphaflegan fjölda úthlutaðra lóða eftir því hvort um er að ræða einbýlishúsalóðir, parhúsalóðir, fjölbýli o.s.fv.

      Óskað er eftir því að yfirlitið verði lagt fram á næsta fundi bæjarráðs.

    • 1712122 – Stofnframlag úthlutun sveitarfélags

      Lögð fram tillaga að úthlutun stofnframlaga frá Hafnarfjarðarkaupstað

      Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu um úthlutun stofnframlaga.

    • 1802385 – Reykjanesbraut, samgönguáætlun, ályktun

      Bæjarráð tekur undir bréf bæjarstjóra til samgögnguráðherra og alþingismanna suðvesturskjördæmis, dags. 2. maí sl., og ítrekar fyrri ályktanir sínar og bæjarstjórnar um mikilvægi þess að fjármagni verði veitt til framkvæmdanna hið fyrsta.

    Fundargerðir

Ábendingagátt