Bæjarráð

8. ágúst 2018 kl. 10:00

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3499

Mætt til fundar

  • Ágúst Bjarni Garðarsson formaður
  • Kristinn Andersen varaformaður
  • Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður
  • Jón Ingi Hákonarson aðalmaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sigurður Þórður Ragnarsson áheyrnarfulltrúi
  • Friðþjófur Helgi Karlsson varamaður

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

Ritari

  • Guðríður Guðmundsdóttir

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

  1. Almenn erindi

    • 1801099 – Kaplakriki, framkvæmdir

      Fundarhlé gert kl. 11:20.
      Fundi fram haldið kl. 11:25

      Friðþjófur Helgi Karlsson fulltrúi Samfylkingar og Guðlaug Kristjánsdóttir áheyrnarfulltrúi Bæjarlistans leggja fram svohljóðandi tillögu:
      Þegar jafn stór ákvörðun er til lykta leidd er eðlilegt að það sé gert á vettvangi bæjarstjórnar þar sem allir bæjarfulltrúar hafa möguleika á að koma að afgreiðslu málsins. Að öðrum kosti er ekki líklegt að náist sú samstaða sem mikilvæg er þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hafnarfirði. Ég legg því til að málinu verði frestað og tekið fyrir og til lykta leitt á næsta fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 22. ágúst næstkomandi.

      Tillagan var felld með þremur atkvæðum gegn tveimur.

      Eftirfarandi tillaga lá fyrir fundinum:
      “Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir eftirfarandi tillögu: Hafnarfjarðarkaupstaður mun ekki byggja, eiga og reka nýtt knatthús í Kaplakrika líkt og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. FH mun sjálft ráðast í þær framkvæmdir og bera ábyrgð á óvissu og kostnaðaraukningu ef til kemur við byggingu hússins. Til að greiða fyrir framkvæmdinni mun Hafnarfjarðakaupstaður gera rammasamkomulag um kaup á mannvirkjun í Kaplakrika að fjárhæð um 790 milljónir króna og verður greiðsla kaupverðsins háð skilyrðum um framgang og framvindu auk hefðbundinna ákvæða um vanefndir og eftirlit með að skilyrðum verði fylgt. Stofnaður verður sameiginlegur starfshópur um framkvæmd samningsins.
      Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir framlagt rammasamkomulag á milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Fimleikafélags Hafnarfjarðar.”

      Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum meirihluta. Fulltrúar minnihluta sátu hjá.

      Sigurður Þ. Ragnarsson áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
      Á fundi bæjarstjórnar 10. maí 2017 var eftirfarandi samþykkt: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggur til að gengið verði út frá 100% eignarhlut bæjarins í íþróttamannvirkjum sem byggð verða með þátttöku sveitarfélagins í framtíðinni“. Ennfremur kemur eftirfarandi fram í fjárhagsáætlun fyrir árin 2018-2021: „Bygging knatthúss hjá FH verður í 100% eign Hafnarfjarðarkaupstaðar og verður framkvæmdin boðin út“.
      Það rammasamkomulag sem liggur fyrir fundinum, milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og FH um eignaskipti og framkvæmdir við nýtt knatthús í Kaplakrika gerir ráð fyrir grundvallarbreytingu frá áður samþykktri stefnu um 100% eignarhlutarhlut í íþróttamannvirkjum. Þessi stefnubreyting og þar sem verkefnið er af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir, er ótækt að ákvörðun þessa mikilvæga máls verði tekin í bæjarráði en ekki í fullskipaðri bæjarstjórn. Bæjarfulltrúi Miðflokksins telur áríðandi að allir kjörnir bæjarfulltrúar komi að þessari ákvörðun en ekki aðeins þeir bæjarfulltrúar sem sitja í bæjarráði. Er því óskað eftir því að bæjarstjórn verði tafarlaust kölluð saman.

      Áheyrnarfulltrúi Bæjarlistans leggur fram svohljóðandi bókun:
      Hér er til umfjöllunar tillaga sem varðar breytingu á gildandi fjárhagsáætlun, sem og samþykkt bæjarstjórnar frá 10. maí 2017. Upphæðir eru stórar og málin hafa verið umdeild og kallað á mikla umræðu bæði meðal kjörinna fulltrúa og bæjarbúa almennt.
      Aðdragandi þessarar tillögu er stuttur og er hún borin fram á aukafundi í sumarleyfi bæjarráðs, með stysta löglega fyrirvara.
      Bæjarstjórn er einnig í sumarleyfi og bæjarráð því starfandi í umboði hennar. Þetta fyrirbyggir möguleika á að skjóta málinu til opins fundar bæjarstjórnar og þannig tryggja beina aðkomu allra flokka í bæjarstjórn, en einungis 4 af 6 flokkum fara með atkvæði í bæjarráði.
      Fulltrúi Bæjarlistans gerir alvarlega athugasemd við þessi vinnubrögð og furðar sig á því að beiðnir um frestun og svigrúm til dýpri umræðu hafi verið hunsaðar.
      Fjölmörgum spurningum um framhaldið er ósvarað og undarlegt að ekki skuli hafa verið orðið við málefnalegum óskum minnihluta um frest til að glöggva sig betur á málum.
      Ekki liggur formlega ljóst fyrir á fundinum hvernig þessi flýtir er til kominn og fyllsta ástæða til að gera athugasemd við gerræðisleg vinnubrögð af þessu tagi, að kjörnum fulltrúum sé ekki tryggð heimild til að sinna skyldum sínum um upplýsta ákvarðanatöku.
      Ekki voru í fundargögnum upplýsingar um gildandi reglur bæjarstjórnar um uppbyggingu íþróttamannvirkja (gildandi samkomulag við ÍBH), sem ekki er heldur að finna á vef bæjarins. Ekki lágu fyrir gögn um verðmat á þeim mannvirkjum sem lagt er til að verði keypt, þrátt fyrir að sett sé fram viðmiðunarupphæð um kaupin.
      Umrædd ákvörðun er hluti af mun stærri heild, bæði hvað varðar fjárhagsáætlun og heildaruppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum. Því er miður að hún hafi með þessum hætti verið tekin út fyrir sviga, bæði hvað varðar heildarstefnumótun og ekki síður hvað varðar aðkomu kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.
      Miklu skiptir að vinna við uppbyggingu íþróttmannvirkja í bænum sé unnin í sátt, í opnu ferli og með virkri aðkomu allra kjörinna fulltrúa. Undirrituð brýnir fulltrúa meirihlutans til að færa sig aftur inn á þá braut, líkt og gert var á síðasta kjörtímabili.
      Fulltrúi Samfylkingarinnar tekur undir bókunina.

      Fulltrúar meirihluta leggja fram svohljóðandi bókun:
      Hér er um rammasamkomulag að ræða og á frekari útfærsla málsins eftir að eiga sér stað í ráðum bæjarins, starfshópi um málið og bæjarstjórn á komandi vikum.

    • 1805076 – Hamraneslína, bráðabirgðaflutningur

      Þormóður Sveinsson skipulagsfulltrúi mætti til fundarins.

      1. liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 10. júlí s.l. “Tekin til umræðu á ný breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 vegna færslu á háspennulínu við Hamranes.
      Lögð var fram skipulagslýsing dags. 22. maí 2018 og hún samþykkt. Með bréfi skipulagsstofnunar dags. 19.06. 2018 er óskað eftir umsögn Hafnarfjarðarbæjar um tilkynningu Landsnets um færslu Hamraneslínu 1 og 2.
      Lögð fram drög að umsögn Hafnarfjarðarbæjar dags. 09.07.2018.
      Skipulags- og byggingarráð samþykkir fyrirliggjandi umsögn dags. 09.07.2018 vegna tilkynningu Landsnets um bráðabirgðafærslu Hamraneslínu 1 og 2.”

      Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir fyrirliggjandi skipulagslýsingu dags 22. maí 2018 og umsögn Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. júlí 2018.

    • 1706321 – Fornubúðir 5, mál nr. 67/2017, kæra

      Þormóður Sveinsson skipulagsfulltrúi mætti til fundarins.

      1 liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 20. júlí 2018: “Með bréfum dags. 19. júní 2107 og 1. maí 2018 frá Sigurjóni Ingvasyni og Rannveigu Guðlaugsdottur Suðurgötu 70 Hafnarfirði, þá kærðu þau breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Fornubúðir 5 og samþykkt byggingaráform á sömu lóð frá 27 mars 2018 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Deiliskipulagsbreyting lóðarinnar að Fornubúðum 5 var samþykkt í bæjarstjórn þann 27 apríl 2014. Með úrskurði ÚUA þann 12. júlí s.l. var samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna Fornubúða 5 felld úr gildi. Jafnframt var samþykkt byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 27 mars s.l. á umsókn um byggingu skrifstofu- og rannsóknarhúss sem tengist sjávarútvegi felld úr gildi.
      Með vísan til úrskurðar ÚUA frá 12 júlí s.l. og 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er lögð fram lýsing dags 19.07.2018 í samræmi við 1. mgr. 30 gr. sömu laga, þar sem tekin er saman lýsing á skipulagsverkefninu.
      Skipulags- og byggingarráð samþykkir framlagaða skipulagslýsingu.”

      Bæjarráð í umboði bæjastjórnar samþykkir framlagða skipulagslýsingu.

      Fulltrúi Samfylkingar leggur fram svohljóðandi bókun:
      Fulltrúi Samfylkingarinnar ítrekar fyrri bókun fulltrúa flokksins í Skipulags- og byggingarráði þann 20. júlí síðastliðinn sem hljóðar svo: “Niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála þar sem byggingarleyfi og deiluskipulag vegna lóðarinnar Fornubúða 5 er fellt úr gildi er í samræmi við bókun bæjarfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um deiluskipulagsbreytiginguna fyrir lóðina bæjarstjórnarfundi 27. apríl, 2017. Í bókuninni er m.a. bent á að ef á að blanda hafnarstarfsemi við aðra starfsemi og íbúðabyggð ber að gera það með heildstæðum hætti og vanda til verka, ekki með einstaka deiliskipulagsbreytingum eftir óskum eigenda lóða á hafnarsvæðinu. Þá hefur verið bent á að viðbyggingin er ekki í samræmi við lýsingu sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiluskipulagi Flensborgarhafnar, en þar kemur fram að þarna eiga að vera lágreistar byggingar, sem falli að aðliggjandi byggð. Ef farið hefði verið eftir þessum ábendingum, þá hefði mátt komast hjá stöðvun framkvæmda og spara dýrmætan tíma. Einnig að vinna skipulagið í nánu samstarfi við íbúa og aðra hlutaðeigandi. “

    • 1807277 – Bæjar- og tónlistarhátíð, Hjarta Hafnarfjarðar

      Lagt fram erindi frá Bæjarbíói slf um ósk um að nýta útisvæði framan við Bæjarbíó frá fimmtudegi 30. ágúst frá kl. 17:00 til 1. september fram að miðnætti í tilefni að hátíðinni í Hjarta Hafnarfjarðar 2018.

      Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur umhverfis- og skipulagsþjónustu afgreiðslu þess.

Ábendingagátt