Bæjarráð

16. ágúst 2018 kl. 08:15

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3500

Mætt til fundar

 • Ágúst Bjarni Garðarsson formaður
 • Kristinn Andersen varaformaður
 • Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður
 • Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður
 • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir áheyrnarfulltrúi
 • Sigurður Þórður Ragnarsson áheyrnarfulltrúi
 • Vaka Ágústsdóttir varamaður

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

Ritari

 • Guðríður Guðmundsdóttir

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

 1. Almenn erindi

  • 1808014 – Árshlutauppgjör 2018

   Rósa Steingrímsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs mætti til fundarins.

   Lagt fram árshlutaupppgjör 2018.

   Árshlutauppgjör 2018 lagt fram.

  • 1808075 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2019 og 2020-2022

   Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjámálasviðs mætti til fundarins.

   Lagt fram minnisblað vegna fjárhagsáætlunar 2019 til 2022.

   Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu um vinnu við fjárhagsáætlun og vísar til vinnslu í viðkomandi ráðum.

  • 1704040 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2018 og 2019-2021

   Rósa Steingrímsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs mætti til fundarins.

   Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun.

   Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja framlagðan viðauka við fjárhagsáætlun.

   Fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlista og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
   Undirritaðir fulltrúar óska bókað undir lið í viðauka um að Hafnarfarðarkaupstaður falli frá byggingu knatthús í Kaplakrika.

   Minnihluti bæjarstjórnar hefur ákveðið að kæra þessa ákvörðun meirihluta til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis, á grunni þess að hún standist ekki 65. grein laganna um ábyrga meðferð fjármuna sveitarfélagsins. Furðu sætir að gera eigi viðauka áður en úrskurður liggur fyrir um lögmæti gjörningsins.

   Fram kom við fyrirspurn um stöðu íþróttahússins í Kaplakrika, að það er bókfært á 92 milljón krónur í bókhaldi bæjarins. Er þar væntanlega um að ræða 80% eignarhlut bæjarins í umræddu húsi, sem meirihlutinn virðist nú ætla að láta Hafnarfjörð kaupa aftur af sjálfum sér. Spurningar vekur hvernig þetta bókfærða virði passar við áætlun meirihluta um að greiða 790 milljónir fyrir hús sem bærinn sjálfur hefur skjalfest á mun lægra virði. Annars vegar er þar um að ræða íþróttahúsið sem fyrr greinir og hins vegar eldra verðmat á Risa og Dverg upp á 200 milljónir fyrir 55% hlut í báðum byggingum, samanber kauptilboð Hafnarfjarðarbæjar frá janúar 2017.
   Fjárhagsáætlun er gildandi stefna sveitarfélagsins og hana ber að virða. Um hana gilda leikreglur sem fara ber eftir. Í 87. gr. samþykkta bæjarins og 63. gr. sveitarstjórnarlaga 138/2011 er skýrt kveðið á um bindandi áhrif ákvörðunar um fjárhagsáætlun ársins. Þar kemur fram í 2. mgr. að óheimilt sé að víkja frá fjárhagsáætlun nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Það að leggja fram viðauka nú, eftir að málið hefur verið keyrt í gegnum bæjarráð og bæjarstjórn með meirihlutavaldi, getur því með engu móti talist merki um góða stjórnsýsluhætti og fer beinlínis gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Fullyrðing í viðauka um að umrædd breyting á fjárhagsáætlun hafi ekki áhrif á rekstur, efnahag eða sjóðsstreymi þarfnast frekari útskýringa. Fulltrúar minnihluta í bæjarstjórn lögðu fram fyrirspurn þess efnis á fundi bæjarstjórnar í gær, þann 15. ágúst 2018. Eðlilegt hefði verið að bíða með frekari ákvarðanir eða vinnu á grundvelli þessarar tillögu þar til þeim fyrirspurnum hefur verið svarað og bæjarfulltrúar hefðu tök á að geta tekið upplýsta og vandaða afstöðu til málsins.

   Adda María Jóhannsdóttir, Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, Vaka Ágústsdóttir

   Fulltrúar Framsóknarflokks og óháðra og fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
   Eins og komið hefur fram á undanförnum árum eru eignarhlutir í mannvirkjum á Kaplakrika ekki rétt skráðir í öllum tilvikum og hefur verið ljóst um langan tíma að brýnt er að klára þau skipti. Ber þar hæst að ákvæði í samningi Hafnarfjarðarbæjar við FH sem samþykktur var í bæjarstjórn 10. janúar 1989 hefur aldrei verið fullnustað og eignarhlutir því ekki rétt skráðir í bókum bæjarins. Í 7. gr. samningsins segir m.a.: ,,Húsið skal vera sameign Hafnarfjarðarbæjar og FH í hlutföllunum 80-20 til 1. janúar 2005, en að loknum þeim tíma skal FH eignast húsið að fullu og öllu og reka það frá þeim tíma á sína ábyrgð og sinn kostnað.“

   Með rammasamkomulaginu við FH sem nú hefur verið samþykkt er verið að taka af skarið og klára eignaskiptasamninga við félagið. Samkvæmt verðmati sem fengið var frá fasteignasala á árinu 2017 stendur mat hússins á verðbilinu 400-500 milljónir króna. Helsta verkefni Kaplakrikahópsins er að klára þessa eignaskipti og sjá til þess að eignir séu rétt skráðar í opinberar bækur eins og eftirlitsnefnd með fjármálum íþróttafélaga hefur hvatt til, nú síðast á fundi sínum í maí sl.

   Um er að ræða óháða eftirlitsnefnd með fjármálum íþróttafélaga sem var sett á laggirnar í byrjun árs 2017 og hefur fundað reglulega síðan. Í fundargerð nefndarinnar frá 14.5.2018 segir:

   9. 1805293 – Eignaskiptasamningar Hafnarfjarðarbæjar og íþrótta- og tómstundafélaga
   Hlutdeild Hafnarfjarðar í sameiginlegum íþróttamannvirkjum íþrótta- og tómstundafélaga er ekki alltaf ljós eða rétt skráð í opinberar bækur.
   Íþróttafulltrúi sendir sviðstjórum og bæjarstjóra erindi frá nefndinni vegna þessa og kallar á að þessar eignir séu rétt skráðar og vinni við það hefjist og klárist sem fyrst.

   Lögð fram svohljóðandi bókun:
   Staðreyndir málsins í opinberum gögnum eru þær að íþróttahúsið er í 80% eign Hafnarfjarðarkaupstaðar, bókfært á 92 milljónir og að á því hvíla skuldir bæjarins að upphæð samtals 870 milljón króna, gagnvart fjölmörgum lífeyrissjóðum.
   Vakin er athygli á því að minnihluti bæjarstjórnar hefur lagt fram fyrirspurn um minnisblað sem gert var á síðasta kjörtímabili um stöðu hins meinta gjafagjörnings frá 1989. Það minnisblað hefur ekki verið lagt fram.
   Ljóst er að Hafnarfjörður hefur meðhöndlað þennan eignarhlut sem sína eign frá árinu 2005 jafnt og áður, bæði með viðhaldskostnaði og ekki síður veðsetningu.

   Adda María Jóhannsdóttir, Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, Vaka Ágústsdóttir

   Fulltrúar meirihluta vísa í fyrri bókun sína hér að ofan.

  • 1502214 – Markaðsstofa Hafnarfjarðar

   Ása Sigríður Þórisdóttir framkvæmdastjóri MsH og Sigríður Margrét Jónsdóttir formaður stjórnar MsH mætatutil fundarins og kynntu starfsemi MsH og hvað er framundan.

  • 1807138 – Háskóli Íslands, kennsluhúsnæði

   Lögð fram drög að húsaleigusamningi við Háskóla Íslands til samþykktar.

   Sigurður Haraldsson sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsþjónustu kom á fundinn.

   Kristinn Andersen vék af fundi undir þessum lið.

   Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi húsaleigusamning.

  • 1804359 – Ósk um niðurfellingu á fasteignaskatti og lóðarleigu vegna Kaplakrika 121342 (Dvergurinn)

   Lögð fram beiðni frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar um niðurfellingu fasteignaskatts og lóðarleigu af fasteigninni Kaplakriki 121342 (Dvergurinn) sem er í eigu FH Knatthúsa ehf.

   Kristinn Andersen tók aftur sæti á fundinum.

   Með vísan til reglna um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka frá 5. desember 2012, samstarfssamnings ÍBH og Hafnarfjarðar frá 2008 og fyrirliggjandi minnisblaðs, samþykkir bæjarráð erindi frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar um niðurfellingu fasteignaskatts og lóðarleigu af fasteigninni Kaplakriki 121342 (Dvergurinn) sem er í eigu FH Knatthúsa ehf. og vísar til afgreiðslu í bæjarstjórn.

  • 1801099 – Kaplakriki, framkvæmdir

   Lagt fram erindisbréf fyrir starfshóp “Kaplakrikahóp” í samræmi við rammmasamkomulag milli bæjarins og FH til samþykktar og skipað í hópinn.

   Fundarhlé gert kl. 10:55.
   Fundi fram haldið kl. 11.00.

   Fundarhlé gert kl. 11:05.
   Fundi fram haldið kl. 11:10.

   Framlagt erindisbréf er samþykkt með atkvæðum meirihluta fulltrúa. Fulltrúar minnihluta sitja hjá.

   Eftirtaldir eru skipaðir í Kaplakrikahópinn:
   Ljósbrá Baldursdóttir, löggiltur endurskoðandi, formaður
   Ásmundur Ingvarsson, verkfræðingur
   Skarphéðinn Orri Björnsson f.h. meirihluta
   Valdimar Svavarsson f.h. FH
   Viðar Halldórsson f.h. FH
   Minnihluti skipar ekki í hópinn að svo stöddu.

   Lögð fram svohljóðandi bókun:
   Eins og fram kom í umræðum og framlögðum fyrirspurnum á fundi bæjarstjórnar í gær, þann 15. ágúst 2018, frá fulltrúum minnihluta bæjarstjórnar, telja undirritaðir fulltrúar eðlilegt að bíða með frekari ákvarðanir eða vinnu á grundvelli tillögu um stefnubreytingu er varðar uppbyggingu knatthúss í Kaplakrika þar til þeim grundvallarspurningum hefur verið svarað og úrskurður fengist vegna framlagðrar kæru fulltrúa minnihlutans á ákvörðuninni til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

   Adda María Jóhannsdóttir
   Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
   Vaka Ágústsdóttir

  • 1806332 – Selhella 8, framsal lóðar, HS Veitur

   Málinu var frestað á fundi bæjarráðs 12. júlí s.l., tekið fyrir að nýju.

   Með vísan til 8. gr. lóðarleigusamnings um lóðina Selhellu 8 er ekki unnt að verða við beiðninni og synjar bæjarráð erindinu.

  • 1807232 – Ölduslóð 37, hreyfihamlaðir, aðgengi, bílastæði

   Lagt fram bréf frá Sr. M. Agnes, varapriorinnu f.h. Karmelklausturs um áform um að breyta aðgengi að kapellu klaustursins í þágu hreyfihamlaðra og ósk um að bærinn leggi klaustrinu lið vegna framkvæmdanna.

   Bæjarráð vísar málinu til umhverfis- og skipulagsþjónustu.

  • 1411359 – Ásvellir, Ólafssalur

   Lagt fram bréf frá Knattspyrnufélaginu Haukum um ósk um kaup á áhorfendabekkjum í Ólafssal á Ásvöllum.

   Bæjarráð vísar erindinu til umhverfis- og framkvæmdaráðs.

  • 1801455 – Knattspyrnufélagið Haukar, knatthús, erindi

   Lagt fram erindisbréf um starfshóp í samræmi við viljayfirlýsingu frá 24. maí s.l. til samþykktar.

   Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi erindisbréf.

  • 1710601 – Hellubraut 5 og 7, dómsmál

   Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. E-1091/2017, sem kveðinn var upp 24. júlí s.l.

   Lagt fram.

  • 1808048 – Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, drög að frumvarpi um nýja stofnun fyrir verndarsvæði á Íslandi, kynningarfundur

   Lagt fram til kynningar fundarboð umhverfis- og auðlindaráðherra til sveitarstjórna – Kynning á frumvarpi um nýja stofnun fyrir verndarsvæði á Íslandi.

   Lagt fram.

  • 1808051 – Stafræn þjónusta bæja og borga í Evrópu, könnun á vegum ESPON

   Lagt fram, boð um að taka þátt í könnun á vegum ESPON um stafræna þjónustu bæja og borga í Evrópu.

   Lagt fram.

  • 1806100 – Samband íslenskra sveitarfélaga, kosning fulltrúa á landsþing 2018-2022

   Bæjarráð tilnefnir og kýs eftirtalda aðila sem fulltrúa á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga:
   Aðalmenn:
   Rósa Guðbjartsdóttir
   Ágúst Bjarni Garðarsson
   Kristinn Andersen
   Ólafur Ingi Tómasson
   Friðþjófur Helgi Karlsson
   Jón Ingi Hákonarson

   Varamenn:
   Helga Ingólfsdóttir
   Valdimar Víðisson
   Kristín María Thoroddsen
   Guðbjörg Oddný Jónasdóttir
   Sigurður Þ. Ragnarsson
   Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir

  • 1712270 – Bæjarráð, styrkir 2018

   Bæjarráð samþykkir að auglýsa seinni úthlutun styrkja bæjarráðs fyrir árið 2018. Til úthlutunar eru kr. 1.250.000

  • 1808146 – Gjáhella 17, umsókn um lóð

   Lögð fram umsókn frá Sóldögg ehf um atvinnuhúsalóðina Gjáhellu 17.

   Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni Gjáhellu 17 verði úthlutað til Sóldaggar ehf.

  Fundargerðir

Ábendingagátt