Bæjarráð

26. september 2019 kl. 08:15

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3528

Mætt til fundar

  • Ágúst Bjarni Garðarsson formaður
  • Kristinn Andersen varaformaður
  • Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir aðalmaður
  • Sigurður Þórður Ragnarsson áheyrnarfulltrúi
  • Helga Ingólfsdóttir varamaður

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

Ritari

  • Guðríður Guðmundsdóttir

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

  1. Almenn erindi

    • 1707207 – Straumsvík 123154, endurnýjun lóðarleigusamnings

      Farið yfir drög að endurnýjuðum lóðarleigusamningi við Rio Tinto um álverslóðina í Straumsvík. Til umræðu.

      Ívar Bragason lögmaður mætir til fundarins.

      Bæjarstjóra falið að vinna áfram að málinu.

    • 1810029 – Kærumál vegna ákvarðana bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar

      Lagt fram álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis dags 13. september 2019.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram svohljóðandi bókun:

      Álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins staðfestir að afgreiðsla bæjarráðs þann 8. ágúst 2018 á rammasamkomulagi um framkvæmdir á Kaplakrika hafi verið í samræmi við heimildir. Auk þess eru engar athugasemdir gerðar við fundarboðun og meðferð málsins á bæjarstjórnarfundi viku síðar. Ráðuneytið gerir heldur ekki athugasemdir við greiðslu á 100 milljónum króna samkvæmt rammasamkomulaginu þann 16. ágúst 2018, þar sem viðauki við fjárhagsáætlun hafi verið samþykktur í bæjarstjórn, 6 dögum síðar, þann 22. ágúst 2018. Ráðuneytið telur þó að réttara hefði verið að staðfesta viðaukann áður en greiðslan fór fram og verður það sjónarmið haft til hliðsjónar við afgreiðslu sambærilegra mála í framtíðinni. Er það mat ráðuneytisins að þessi ágalli hafi engin áhrif á lögmæti greiðslunnar og því sé ekki tilefni til frekari aðgerða í málinu.

      Fulltrúar Bæjarlista og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:

      Álit Sveitastjórnarráðuneytisins staðfestir að rammasamkomulag það sem samþykkt var í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar þann 8. ágúst 2018 hafi varðað verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins og ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun þess. Ekki sé hægt að leggja að jöfnu byggingu nýs knatthúss annars vegar og kaup á fasteignum af íþróttafélagi hins vegar. Auk þess hafi ekki verið tekið á 70 milljón króna mismun milli fyrri og síðari fyrirætlana. Ekki hafi verið til staðar heimild til ráðstöfunar fjármuna á grunni rammasamkomulagsins fyrr en fyrir lægi viðauki staðfestur af bæjarstjórn. Því hafi greiðsla á 100 milljónum króna sem innt var af hendi til FH þann 16. ágúst 2018 verið án heimildar.
      Telur ráðuneytið ámælisvert af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að hafa ekki undirbúið rammasamkomulagið með gerð viðauka sem og að inna af hendi ótímabæra greiðslu.
      Þetta álit fer þvert gegn þeim rökstuðningi sem lagður hefur verið fram af hálfu bæjarstjóra, enda var viðauki um síðir lagður fram fyrir tilstuðlan fulltrúa minnihluta í bæjarstjórn. Sá viðauki er síðan forsenda þess að ráðuneyti telur ekki ástæðu til íhlutunar þrátt fyrir ámælisverða stjórnsýslu.
      Undirbúningur, framlagning og samþykkt rammasamkomulagsins er talin vera innan lagaramma og falla undir heimild sveitastjórnar til að taka pólitískar ákvarðanir. Þó liggur fyrir að fundur í bæjarráði var boðaður með minnsta mögulega fyrirvara, þremur sólarhringum áður en umboð bæjarstjórnar til ráðsins féll niður. Ástæða þessa flýtis hefur aldrei fyllilega verið rökstudd. Gögn í málinu voru almennt ekki lögð fram fyrr en fast hafði verið gengið eftir þeim af hálfu fulltrúa minnihluta og sumum beiðnum um upplýsingar hefur enn ekki verið svarað.
      Ákvörðun um mál sem varðaði verulega hagsmuni sveitarfélagsins og ekki var heimild fyrir í fjárhagsáætlun var með öðrum orðum keyrð í gegn með meirihlutavaldi með minnsta mögulega fyrirvara og án þess að fyrir lægju haldbær gögn. Í áliti sínu telur ráðuneytið ástæðu til að árétta að heimildir bæjarráðs til fullnaðarafgreiðslu mála í sumarleyfi bæjarstjórnar séu ekki ætlaðar til þess að taka ákvarðanir um ráðstöfun verulegra hagsmuna sveitarfélagsins með skömmum fyrirvara og án tilhlýðilegs undirbúnings enda stangist það á við lýðræðislegan grundvöll sveitarfélaga og sjónarmið um vandaðan undirbúning ákvarðana sem varða almannahag.
      Ráðuneytið telur að stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar hafi að nokkru leyti verið ábótavant við meðferð og afgreiðslu málsins og sé það ámælisvert. Þeim tilmælum er einnig beint til Hafnarfjarðarbæjar að hafa þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu til hliðsjónar við afgreiðslu sambærilegra mála í framtíðinni.
      Ráðuneytið tekur ekki afstöðu til þess hvort það að sveitarfélag gefi aðila byggingu sem metin er á 400 milljónir og kaupi hana svo aftur á ótilgreindu verði teljist ábyrg ráðstöfun skattfjár. Né heldur hvort ákvörðun um að kaupa fasteignir án þess að fyrir liggi gögn um verð eða ástand þeirra teljist ábyrg meðferð almannafjár. Í því máli vitnar ráðuneytið til þess að sveitarstjórn sé heimilt að taka pólitískar ákvarðanir. Hér er því um að ræða pólitíska ákvörðun sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra verða að standa og falla með. Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlista eru andvígir slíkum ráðstöfunum og telja það óábyrgt að semja um kaupverð fasteigna án þess að fyrir liggi ástands- og verðmat á þeim, ekki síst þar sem hluti þeirra er þegar skráður sem eign sveitarfélagsins.

      Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

      Bæjarfulltrúi Miðflokksins fagnar að komin sé niðurstaða í þessu kærumáli. Ljóst er að betur hefði mátt standa að þessari stóru ákvörðun á öllum stigum þess enda þótt ráðuneytið sjái ekki ástæðu til inngripa af þess hálfu.

      Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri leggur fram svohljóðandi bókun:

      Undirrituð fagnar þessari niðurstöðu ráðuneytisins og kemur hún ekki á óvart enda var unnið í málinu í góðri trú um rétt vinnubrögð. Hins vegar verða ábendingar um tímasetningu viðauka að sjálfsögðu teknar til greina héðan í frá. Upphlaup tiltekinna fulltrúa minnihlutans í bæjarstjórn, þung orð sem voru látin falla og ásakanir í garð þeirra sem að málinu unnu dæma sig sjálfar og voru einfaldlega stormur í vatnsglasi.
      Rósa Guðbjartsdóttir

    • 1909513 – Stjórnsýsla, framsal valdheimilda

      Lagt fram bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti dags. 18.sept.sl.

      Vinna við endurskoðun samþykkta Hafnarfjarðarkaupstaðar hvað þessi mál varðar stendur nú þegar yfir og hefur ráðuneytinu verið tilkynnt um það.

    • 1909222 – Skerseyrarvegur 3C, ósk um lóðarstækkun

      8.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 24.sept.sl.
      Gísli Jónsson sækir þann 10.9.2019 um stækkun lóðar Skerseyrarvegs 3c. Um er að ræða stækkun meðfram innkeyrslu og bílskúrs.
      Skipulags- og byggingarráð gerir ekki athugasemd við stækkun lóðar og vísar erindinu til bæjarráðs til samþykktar.

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi erindi og vísar til áframhaldandi vinnslu á umhverfis- og skipulagssviði.

    • 1909152 – Skerseyrarvegur 2, lóðarstækkun

      9.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 24.sept.sl.
      Þorvaldur Skaftason og Erna Sigurbjörnsdóttir sækja þann 5.9.2019 um lóðarstækkun sem nemur 1,5m að götu og að lóðarmörkum Skerseyrarvegar 4.
      Skipulags- og byggingarráð gerir ekki athugasemd við stækkun lóðar og vísar erindinu til bæjarráðs til samþykktar.

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi erindi og vísar til áframhaldandi vinnslu á umhverfis- og skipulagssviði

    • 1806356 – Fjölgun úrræða fyrir fólk með heilabilun

      Lagt fram erindi frá Alzheimersamtökunum um formlegar viðræður um möguleika á samstarfi um að koma upp miðstöð fyrir yngri greinda með heilabilunarsjúkdóma og aðstandendur þeirra.

      Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

    • 1904419 – Hafnarfjarðarkaupstaður, félagslegar leiguíbúðir

      Lögð fram kauptilboð í Suðurhvamm 11, íbúð 0401

      Lögð eru fram tvo kauptilboð í íbúð 0401 að Suðurhvammi 11. Bæjarráð samþykkir að taka hæsta kauptilboði að upphæð 41,5 millj.kr. og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

    • 1909264 – Norðurvangur 19, lóðarleigusamningur

      Lagður fram lóðarleigusamningur um Norðurvang 19

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi lóðarleigusamning og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar.

    Fundargerðir

    • 1909005F – Hafnarstjórn - 1557

      Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 11.september sl.

    • 1909004F – Menningar- og ferðamálanefnd - 331

      Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 6.september sl.

    • 1909007F – Menningar- og ferðamálanefnd - 332

      Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 12.september sl.

    • 1909017F – Menningar- og ferðamálanefnd - 333

      Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 18.sept. sl.

    • 1901144 – Stjórn SSH, fundargerðir 2019

      Lögð fram fundargerð stjórnar SSH frá 2.september sl.

Ábendingagátt