Bæjarráð

7. maí 2020 kl. 08:15

í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg

Fundur 3544

Mætt til fundar

  • Ágúst Bjarni Garðarsson formaður
  • Kristinn Andersen varaformaður
  • Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður
  • Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir aðalmaður
  • Jón Ingi Hákonarson áheyrnarfulltrúi
  • Sigurður Þórður Ragnarsson áheyrnarfulltrúi

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

Ritari

  • Guðríður Guðmundsdóttir

Einnig sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

  1. Almenn erindi

    • 2003508 – Covid 19, aðgerðaráætlun

      Farið yfir stöðuna.
      Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir til fundarins ásamt Sigurjóni Ólafssyni sviðsstjóra þjónustu- og þróunarsviðs og Andri Ómarsson verkefnastjóri.

      1.liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 29.apríl sl.
      Lagt fram til samþykktar

      Fræðsluráð samþykkir tillögur um aðhald í rekstri og vísar til bæjarráðs til frekari samþykkis. Sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviðs er jafnframt falið að vinna að útfærslu á hverri tillögur fyrir sig.

      1.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 28.apríl sl.

      Eftirfarandi tillögur eru lagðar fram til afgreiðslu ráðsins:

      Tillaga 1
      Í dag er jafnaðartaxti fyrir gjaldskrá heimaþjónustu, 757 kr. fyrir klst. Lagt er til að gjaldskrá heimaþjónustu verði tekjutengd með eftirfarandi hætti:
      – Einstaklingur með tekjur undir 326.300 kr. á mánuði borgar 0 kr. fyrir klst.
      – Einstaklingur með tekjur frá 326.300 til 391.560 kr. borgar 515 kr. fyrir klst.
      – Einstaklingur með hærri tekjur en 391.561 kr. borgar 1040 kr. fyrir klst.
      – Hjón með tekjur undir 530.239 kr. borga 0 kr. fyrir klst.
      – Hjón með tekjur frá 530.239 til 636.285 kr. borga 515 kr. fyrir klst.
      – Hjón með hærri tekjur en 636.286 kr. borga 1040 kr. fyrir klst.

      Fulltrúar Framsóknar og óháðra, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar samþykkja þessa tillögu. Fulltrúi Samfylkingar situr hjá.
      Tillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum.

      Fulltrúi Samfylkingar leggur fram eftirfarandi bókun:
      Samfylkingin er í grunninn ekki mótfallin tekjutengingu eins og hér er lagt til. Hins vegar var tillaga Samfylkingarinnar um að draga til baka hækkanir á gjaldskrám síðasta árs ekki tekin til formlegrar umfjöllunar í Öldungaráði en þar hefði hún átt að vera afgreidd formlega eins og aðrar tillögur sem snúa að eldri borgurum. Einnig liggja ekki fyrir nægjanlega góðar upplýsingar um þau áhrif sem þessi breyting mun hafa í för með sér.

      Fulltrúar Framsóknar og óháðra og Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:
      Þessi breyting á gjaldskrá er til þess að verja viðkvæmustu hópana. Þeir sem hafa lægstu tekjurnar greiða minnst fyrir þjónustuna, þeir sem hafa hærri tekjur borga meira. Þessi breyting er einnig afar kærkomin fyrir hóp þjónustuþega sem eru með tekjur frá 326.300 kr. til 391.560 kr. Þeir borga í dag 757 kr. fyrir þjónustuna en eftir breytingu borga þeir 515 kr. fyrir þjónustuna.

      Tillögunni vísað til bæjarráðs.

      Tillaga 2
      Lagt er til að frístundastyrkur eldri borgara verði tekjutengdur með þeim hætti að einstaklingur með lægri tekjur en 391.560 kr. á mánuði eigi rétt til frístundastyrks en ekki þeir sem hafa hærri tekjur.

      Tillaga tvö er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

      Fulltrúar Viðreisnar og Bæjarlistans leggja áherslu á að ráðamenn bæjarins séu samstíga í þeim aðgerðum sem nú blasa við okkur í ljósi aðstæðna í samfélaginu og eru því samþykkir þessari tillögu. Engu að síður leggjum við áherslu á að málið verði tekið upp aftur og framtíðarfyrirkomulag þess skoðað vel, þegar afleiðingar núverandi ástands liggja ljósari fyrir.

      Fulltrúi Samfylkingarinnar tekur undir bókun Viðreisnar- og Bæjarlistans um tillögu tvö.

      Tillögunni vísað til bæjarráðs.

      Tillaga 3
      Í Drafnarhúsi/Strandgötu 75 er rekin dagdvöl fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Þar eru 24 rými. Hafnarfjarðarbær hefur greitt leiguna óháð því hvort þjónustuþegar eru með lögheimili í Hafnarfirði eða ekki. Lagt er til að þau sveitarfélög sem nýta þjónustuna í Drafnarhúsi greiði leigu í hlutfalli við fjölda þjónustuþega.

      Tillaga þrjú er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

      Tillögunni vísað til bæjarráðs.

      Farið yfir stöðu mála á vinnu við að skapa ný störf í bæjarfélaginu sem hægt verði að bjóða hafnfirsku námsfólki og frumkvöðlum í sumar. Bæjarráð samþykkir að fjölga slíkum störfum um allt að 250 í sumar og að undirbúa opnun ,,Nýsköpunarstofu sumarsins“ í Menntasetrinu við Lækinn. Þar verði aðstaða fyrir fyrir ungmenni og frumkvöðla í sumar til að sinna nýsköpunarverkefnum eftir auglýsingar Hafnarfjarðarbæjar þar um og úthlutun verkefna.

      Bæjarráð samþykkir tillögu 1 frá fjölskylduráði og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Fulltrúi Samfylkingarinnar situr hjá og tekur undir bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

      Bæjarráð samþykkir tillögu 2 frá fjölskylduráði og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Fulltrúar Bæjarlistans og Samfylkingarinnar taka undir bókun fulltrúa Viðreisnar og Bæjarlistans í fjölskylduráði.

      Bæjarráð samþykkir tillögu 3 frá fjölskylduráði og vísar til úrvinnslu á fjármálasviði.

      Bæjarráð samþykki tillögur fræðsluráðs og vísar til viðaukagerðar.

      Bæjarráð samþykkir að farið verði í eftirtalin flýtiframkvæmdaverkefni að tillögu Umhverfis- og framkvæmdaráðs: Flatahraun, ný gatnamót; Flatahraun-hringtorg við Kaplakrika, Álfaberg-lokun á rými, Víðistaðaskóli-gardínur og Suðurbæjarlaug, þak. Um er að ræða kostnað upp á alls 203,5 milljónir króna. Málinu vísað til bæjarstjórnar og viðaukagerðar.

    • 2004379 – Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2019 og fyrirtækja hans, uppgjör

      Lagður fram ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2019 og fyrirtækja hans.

      Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir til fundarins.

      Bæjarráð vísar ársreikningi bæjarsjóðs Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2019 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

    • 1902408 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2020 og 2021-2023

      Lagður fram viðauki I.

      Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir til fundarins.

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi viðauka og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

    • 2004050 – Hamranes 1. áfangi, úthlutun lóða 2020

      Lagðar fram umsóknir um lóðir við Hringhamar 1, 3 og 7 og Nónhamar 2, 4 og 8.

      Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf sækir um lóðirnar nr. 1, 3 og 7 við Hringhamar og nr. 2, 4 og 8 við Nónhamar.

      Fjarðarmót ehf., sækir um lóðirnar nr. 3 og 7 við Hringhamar.

      Drauma ehf., sækir um lóðina nr. 7 við Hringhamar og til vara lóðirnar nr. 2 við Nónhamar og 3 við Hringhamar.

      Valhús ehf., sækir um lóðina nr. 4 við Nónhamar og til vara lóðina nr. 8 við Nónhamar.

      Bæjarstjóra falið að ræða við umsækjendur.

    • 2005114 – Launuð námsleyfi haust 2020

      Lögð fram umsókn um launað námsleyfi.

      Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu um að einum aðila verði veitt launað námsleyfi.

    • 1903474 – Hestamannafélagið Sörli, framkvæmdasamningur, erindi

      Lagt fram erindisbréf. Til afgreiðslu og skipun í hópinn.

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi erindisbréf.

    • 2002127 – Geymslusvæðið, vegstæði, Reykjanesbraut

      Lagt fram samkomulag við Geymslusvæðið.

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samkomulag og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

    • 1911252 – Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- Kópavogs og Garðabæjar fjárhagsáætlun 2020 og gjaldskrár

      Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- Kópavogs og Garðabæjar við tillögu sem vísað var til þeirra á fundi bæjarráðs 22.apríl sl.

      Fulltrúi Viðreisnar harmar afstöðu Heilbrigðisnefndar.

    • 2004409 – Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, ársskýrsla og ársreikningur 2019

      Lagður fram ársreikningur og ársskýrsla 2019 fyrir Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar-Kópavogs og Garðabæjar

      Lagt fram.

    • 2004364 – Hamranes I, gatnagerð

      4. liður úr fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs 6. maí sl.
      Kynnt gatnagerð í Hamranesi I og óskað eftir heimild til útboðs.
      Umhverfis- og framkvæmdaráð heimilar útboð vegna gatnagerðar í Hamranesi I með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

      Bæjarráð heimilar að farið verði í útboð vegna gatnagerðar í Hamranesi I.

    • 2005169 – Fyrirspurnir

      Adda María Jóhannsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir:

      Fyrirspurn varðandi áhrif hækkunar þingfararkaups
      Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar eftir upplýsingum um áhrif hækkunar þingfararkaups á laun og launatengd gjöld kjörinna fulltrúa í ráðum og nefndum Hafnarfjarðarkaupstaðar.
      ? Óskað er eftir upplýsingum um laun allra aðal- og varafulltrúa fyrir setu í bæjarstjórn og vegna annarra starfa sem tengjast henni, s.s. setu í ráðum eða nefndum sveitarfélagsins, fyrir og eftir hækkun.
      ? Óskað er eftir því að gefin verði upp samanlögð heildarlaun hvers og eins fulltrúa á mánuði, fyrir og eftir hækkun.
      ? Að lokum er óskað eftir upplýsingum um hver áætlaður árlegur kostnaðarauki bæjarsjóðs er vegna hækkunarinnar.
      Þar sem um er að ræða upplýsingar sem liggja fyrir í upplýsingakerfum sveitarfélagsins, er óskað eftir því að umbeðnar upplýsingar verði lagðar fram eigi síðar en á næsta fundi bæjarráðs.

      HS Veitur – Fyrirspurnir
      Í ljósi þess að fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks samþykktu nýverið að hafinn verði undirbúningur að sölu hlutabréfa sveitarfélagsins í HS Veitum leggur fulltrúi Samfylkingarinnar fram eftirfarandi fyrirspurnir:
      1. Hver var hagnaður HS Veitna eftir skatta árið 2019?
      2. Hver var EBITDA HS Veitna á síðasta ári og hver hefur hún verið að meðaltali á ári frá árinu 2010, reiknað á verðlagi hvers árs?
      3. Hvert var EBITDA hlutfallið á síðasta ári og hvert hefur það verið að meðaltali á ári frá árinu 2010?
      4. Hvað hafa HS Veitur greitt mikið samanlagt til eigenda sinna í formi kaupa á eigin bréfum frá árinu 2010?
      5. Hvert var eiginfjárhlutfall HS Veitna í árslok 2019?
      6. Hverjir eru fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar í stjórn og varastjórn HS Veitna?
      i. Er það rökstutt mat þeirra að skynsamlegt sé fyrir bæjarsjóð að selja eignarhlut sinn?
      ii. Á hvaða forsendum byggir það mat og hefur það verið gert opinbert?
      7. Liggur fyrir álit fjármálastjóra sveitarfélagsins eða annarra sérfróðra aðila sem gefur meirihluta bæjarstjórnar tilefni til leggja fram tillögu að sölu á viðkomandi eign?
      i. Ef ekkert slíkt liggur fyrir, þá er óskað eftir því að lagt verði fram minnisblað sem innihaldi faglegt yfirlit um rekstur, efnahag og arðsemi HS Veitna á síðastliðnum áratug sem geti nýst kjörnum fulltrúum til upplýstrar ákvarðanatöku.
      8. Er það opinber afstaða Hafnarfjarðarbæjar að eignarhald á dreifikerfum vatns og orku eigi að vera í höndum einkaaðila?
      i. Ef svo er ekki, hvaða opinberi aðili telja bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að sé betur til þess falinn en sveitarfélagið Hafnarfjörður, að halda á eignarhlut í fyrirtæki sem m.a. á og rekur dreifikerfi rafmagns í Hafnarfirði?

      Lagt fram.

    Fundargerðir

Ábendingagátt