Bæjarstjórn

19. ágúst 2020 kl. 14:00

í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg

Fundur 1851

Mætt til fundar

 • Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri
 • Kristinn Andersen forseti
 • Sigurður Þórður Ragnarsson 1. varaforseti
 • Ágúst Bjarni Garðarsson 2. varaforseti
 • Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður
 • Friðþjófur Helgi Karlsson aðalmaður
 • Jón Ingi Hákonarson aðalmaður
 • Helga Ingólfsdóttir aðalmaður
 • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir aðalmaður
 • Kristín María Thoroddsen aðalmaður
 • Árni Rúnar Þorvaldsson varamaður

Mættir eru allir aðalbæjarfulltrúar að undanskilinni Öddu Maríu Jóhannsdóttir en í hennar stað situr fundinn Árni Rúnar Þorvaldsson varabæjarfulltrúi.

Í upphafi fundar ber forseti upp tillögu um að mál nr. 2002513, Reglur um styrki til náms, verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir, verði tekið inn á dagskrá fundarins ásamt fundargerð fjölskylduráðs frá 14. ágúst sl. Er það samþykkt.

Ritari

 • Ívar Bragason Ritari bæjarstjórnar og lögmaður á stjórnsýslusviði

Mættir eru allir aðalbæjarfulltrúar að undanskilinni Öddu Maríu Jóhannsdóttir en í hennar stað situr fundinn Árni Rúnar Þorvaldsson varabæjarfulltrúi.

Í upphafi fundar ber forseti upp tillögu um að mál nr. 2002513, Reglur um styrki til náms, verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir, verði tekið inn á dagskrá fundarins ásamt fundargerð fjölskylduráðs frá 14. ágúst sl. Er það samþykkt.

 1. Kosningar

  • 1806149 – Ráð og nefndir 2018-2022, kosningar

   10.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 24.júní sl.
   Leiðrétting á ritun á nafni fulltrúa í umhverfis- og framkvæmdaráði sem kjörinn var á fundi bæjarstjórnar 24. júní sl. En á fundinum var nafn Árna Rúnars Þorvaldssonar XS Stekjarhvammi 5 á lista yfir þá fulltrúa sem kjörnir voru í umhverfis og framkvæmdaráð en þar átti að hins vegar að vera nafn Árna Rúnars Árnasonar Álfaskeiði 72. Er lagt til við bæjarstjórn að þetta skuli leiðrétt.

   Samþykkt samhljóða.

  Almenn erindi

  • 1512128 – Notendastýrð persónuleg aðstoð NPA

   1. liður úr fundargerð fjölskylduráðs dags. 22. júlí sl.

   Tillaga:
   Tímagjald vegna NPA í Hafnarfirði verður eftirfarandi:
   – Tímagjaldið verður 4468 kr. með hvíldarvöktum.
   – Tímagjaldið verður 4724 kr. án næturvakta.
   – Tímagjaldið verður 4903 kr. án hvíldarvakta.
   Tímagjaldið tekur mið af launavísitölu og verður endurskoðað um hver áramót.

   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra samþykkja tillöguna. Fulltrúi Bæjarlistans samþykkir ekki. Fulltrúi Samfylkingar situr hjá.

   Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu. Einn situr hjá.

   Vísað er til bæjarstjórnar til staðfestingar.

   Fulltrúi Bæjarlista gerir athugasemd við að upplýsingabeiðni hafi ekki verið svarað og að gögn varðandi málið vanti, s.s. reiknuð dæmi um áhrif svo hægt sé að taka upplýsta afstöðu. Fulltrúi Bæjarlista gerir einnig athugasemd við að aukafundur hafi verið settur á í miðju sumarleyfi bæjarstjórnar þar sem erfitt er að afla gagna yfir sumartímann og að um fjarfund hafi verið að ræða, sem er undarlegt fyrirkomulag utan samkomubanns. Að lokum ítrekar fulltrúi Bæjarlista mikilvægi samráðs við fulltrúa notenda.

   Fulltrúi Miðflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:
   Það er ánægjulegt að komin sé ásættanleg niðurstaða á tímagjaldi vegna NPA samninga sem tekið hefur alltof langan tíma að leiðrétta. Það er eðlilegt að taxtinn sé á sama róli og taxtinn hjá samanburðarsveitarfélögunum, ekki síst Reykjavík. Með þessari ákvörðun í dag er því marki náð.

   Fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlist og Viðreisnar óska bókað:
   Eitt verkefna starfshópsins var að koma með tillögu að tímagjaldi vegna NPA þjónustu sem endurspeglar heildarkostnað við hverja klukkustund að meðaltali. Það var einnig lagt fyrir hópinn að samræma tímagjaldið því sem gerist í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Frá því lífskjarasamningarnir voru undirritaðir fyrir ári síðan er ljóst að þörf hefur verið á því að hækka tímagjaldið vegna NPA samninga. Hafnarfjörður hefur því miður dregið lappirnar með það og það hefur valdið NPA notendum óþægindum. Reykjavíkurborg ákvað sl. haust að hækka tímagjaldið í kjölfar lífskjarasamninganna og í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinna og var sú hækkun afturvirk til 1. apríl 2019. Um leið og fulltrúar Samfylkingar, Bæjarlistans og Viðreisnar fagna því að nú sé loks verið að taka ákvörðun um hækkun tímagjaldsins þá hörmum við hversu langan tíma það hefur tekið að taka þessa ákvörðun. Við bendum einnig á að tímagjaldið er ennþá lægra en í Reykjavík, Reykjanesbæ og Árborg. Við teljum að hækka verði tímagjaldið til samræmis við útreikninga NPA miðstöðvarinnar og tímagjaldið verði þá það sama og það er hjá Reykjavíkurborg.

   Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra.
   Í samræmi við skýrslu starfshóps um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) frá maí sl. er í dag lögð fram tillaga að breytingum á tímagjaldi þannig að í stað jafnaðargjalds fyrir hverja klukkustund þá verði tímagjald breytilegt eftir stærð samninga. Þannig verði áfram greitt jafnaðargjald fyrir samninga sem eru með 600 klukkustundir eða færri á mánuði en tekið verði upp nýtt fyrirkomulag vegna samninga sem eru með yfir 600 klukkustundir á mánuði. Þannig verði tímagjald samninga með hvíldarvöktum að fjárhæð kr. 4.468,- fyrir hverja klukkustund og samningar án hvíldarvakta verði með tímagjald að fjárhæð kr. 4.903,-
   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra þakka starfshópi um notendastýrða persónulega aðstoð(NPA) fyrir vel unnin störf og árétta mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að þróa þetta mikilvæga þjónustuform fyrir fólk með fötlun sem hentar að stýra sjálft þeirri stoðþjónustu sem viðkomandi þarf á að halda.

   Fyrirspurn fulltrúa Bæjarlistans varðandi ákvörðun um tímagjald NPA í Hafnarfirði.
   Tímagjald er uppreiknaður taxti með tilliti til launavísitölu. Annars engin talnagögn í skýrslunni.

   Hver er yfirskrift þrískiptingarinnar, er eitthvað af þessu dagtaxti?

   Vantar upplýsingar um samanburð á var-verður í þeim tilvikum þar sem fólk færist frá venjulegum taxta yfir í nýjann. Fá einhverjir lægri taxta og þá lægri greiðslur en áður? Óska eftir reiknuðum dæmum hvernig áhrifin verða á notendur.

   Fær starfsfólk greitt eftir kjarasamningum NPA miðstöðvarinnar? Sem þýðir þá hvað fyrir notandann?

   Starfshópur tekur mið af kjarasamningum Hlífar, hvernig eru þeir kjarasamningar? Er Hlíf með samning við NPA starfsfólk?

   Liggur álit Ráðgjafaráðs/notanda fyrir?

   Mér skilst að bara sé kveðið á um hvíldarvaktir í NPA kjarasamningum, sem er hjá Eflingu. Ætlum við að gera nýjan? Ef svo er má hann vera lægri?

   Á að reikna nýjar launatöflur aðstoðarfólks aftur í tímann, samanber samnings NPA miðstöðvar og Eflingar?

   Spurningar eru lagðar fram með fyrirvara. Fleiri spurningar vakna væntanlega við nánari skoðun en þá sem tveggja daga frestur gaf kost á.

   Helga Ingólfsdóttir, Guðlaug Kristjánsdóttir og Árni Rúnar Þorvaldsson taka öll til máls. Þá kemur Helga til andsvars við ræðu Árna Rúnars sem svarar andsvari.

   Þá tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls. Einnig Jón Ingi Hákonarson.

   Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu fjölskylduráðs með 7 atkvæðum en fultrúi bæjarlistans greiðir atkvæði á móti og fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

   Árni Rúnar Þorvaldsson gerir grein fyrir atkvæði sínu.

   Guðlaug Kristjánsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

   Bæjarfulltrúi Bæjarlistans ítrekar fyrri bókanir sínar í þessu máli, um þær takmarkandi breytingar sem orðið hafa á reglum um NPA í Hafnarfirði.
   Varðandi taxtann sem hér er til umfjöllunar, þá er rétt að það komi fram að talnagögn um útreikninga, dæmi um breytingar hjá notendum og samanburð milli sveitarfélaga, svo eitthvað sé nefnt, hafa ekki verið lögð fram að frumkvæði meirihlutans, heldur hafa komið til sem svar við fyrirspurnum frá Bæjarlistanum.
   Skýrsla starfshópsins sem vann tillögur að bæði reglum og taxta NPA er afar rýr og nánast ekkert talnaefni þar að finna, né samanburð milli sveitarfélaga svo eitthvað sé nefnt.
   Það er gagnrýnivert að upplýsingar í jafnmikilvægu máli og NPA þjónustu liggi ekki fyrir þegar það er tekið til umfjöllunar og bæjarfulltrúum gert að taka afstöðu til tillagna.
   Undirrituð vill líka hvetja til þess að í framhaldi þeirra ákvarðana sem nú liggja fyrir verði með virkum hætti fylgst með og tekið þátt í umræðu um þróun þjónustuformsins til framtíðar litið. Má þar nefna starfsumgjörð starfsfólks í þessari þjónustu og einnig það hvernig sú aðferð Hafnarfjarðarbæjar að uppfæra upphæðir taxta um áramót miðað við vísitölu frekar en að fylgja takti kjarasamninga reynist notendum í okkar sveitarfélagi. NPA miðstöðin hefur lagt á það ríka áherslu að taxtar taki breytingum í samræmi við kjarasamninga en ekki með þeim hætti sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Hafnarfirði hefur ákveðið að gera. Vel færi á því að samtali verði haldið áfram um þennan skoðanamun meirihlutans í Hafnarfirði og NPA miðstöðvarinnar. Í öllu falli þarf að fylgjast vel með því hvaða áhrif það hefur á líf og fjárhag notenda að búa við fyrirliggjandi misræmi, þar sem kjarasamningar geta breyst á miðju ári en Hafnarfjörður leiðréttir taxta ekki fyrr en um áramót.

   Árni RúnarÞorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:

   Um leið og fulltrúar Samfylkingarinnar fagna því að nú sé loks verið að taka ákvörðun um hækkun tímagjalds þá gagnrýnum við hversu langan tíma það hefur tekið meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að taka þessa ákvörðun. Frá því lífskjarasamningarnir voru undirritaðir fyrir rúmu ári síðan er ljóst að þörf hefur verið á því að hækka tímagjaldið vegna NPA samninga. Hafnarfjörður hefur því miður dregið lappirnar með það og það hefur valdið NPA notendum óþægindum. Reykjavíkurborg ákvað sl. haust að hækka tímagjaldið í kjölfar lífskjarasamninganna í samræmi við útreikninga NPA miðstöðvarinnar og var sú hækkun afturvirk til 1. apríl 2019. Við bendum einnig á að tímagjaldið er ennþá lægra en í Reykjavík, Reykjanesbæ og Árborg. Við teljum að hækka verði tímagjaldið til samræmis við útreikninga NPA miðstöðvarinnar og tímagjaldið verði þá það sama og það er hjá Reykjavíkurborg. Það er ómögulegt að láta fatlað fólk búa við ólíkar aðstæður eftir því í hvaða sveitarfélagi það býr. NPA er mikilvæg grunnþjónusta við fatlað fólk sem mikilvægt er standa vörð um og halda áfram að efla.

   Þá kemur Helga Ingólfsdóttir að svohljóðandi bókun:

   Í samræmi við lið 1 í fundargerð Fjölskylduráðs frá 22. Júlí sl. um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) í dag lögð
   fram til staðfestingar í bæjarstjórn tillaga að breytingum á tímagjaldi þannig að í stað jafnaðargjalds fyrir hverja klukkustund þá verði tímagjald breytilegt eftir stærð samninga. Þannig verði áfram greitt jafnaðargjald fyrir samninga sem eru með 600 klukkustundir eða færri á mánuði en tekið verði upp nýtt fyrirkomulag vegna samninga sem eru með yfir 600 klukkustundir á mánuði. Þannig verði tímagjald samninga með hvíldarvöktum að fjárhæð kr. 4.468,- fyrir hverja klukkustund og samningar án hvíldarvakta verði með tímagjald að fjárhæð kr. 4.903,- Jafnaðargjald vegna samninga sem hafa færri en 600 klukkustundir á mánuði verður eftir hækkun kr. 4.724,-
   Tímagjald mun framvegis taka breytingum um áramót í samræmi við launavísitölu og þetta varðar alla samninga sem eru núna 22 talsins.
   Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra þakka starfshópi um notendastýrða persónulega aðstoð(NPA) fyrir vel unnin störf og árétta mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að þróa þetta mikilvæga þjónustuform fyrir fólk með fötlun sem hentar að stýra sjálft þeirri stoðþjónustu sem viðkomandi þarf á að halda.

   Jón Ingi Hákonarson tekur undir bókun fulltrúa bæjarlistans.

  • 2002513 – Reglur um styrki til náms, verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir

   4. liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 14. ágúst sl.

   Lagðar fram til samþykktar reglur um styrki til náms-, verkfæra og tækjakaupa fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir.
   Fjölskylduráð samþykkir reglur um styrki til náms, verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir og vísar þeim til bæjarstjórnar til samþykktar.

   Til máls tekur Helga Ingólfsdóttir. Til andsvars kemur Guðlaug Kristjánsdóttir.

   Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi reglur.

  • 2007620 – Vesturgata 8, deiliskipulagsbreyting, Norðurbakki

   4. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs dags. 11. ágúst sl.
   Tillaga Hafnarfjarðarkaupstaðar um breytt deiliskipulag Norðurbakka vegna lóðanna Vesturgötu 4- 8 var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa þann 22.7.2020 og vísað til staðfestingar skipulags- og byggingarráðs.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkir með vísan í 43. gr. skipulagslaga að auglýsa breytt deiliskipulag lóðanna Vesturgata 4-8. Jafnframt er erindinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

   Ingi Tómasson tekur til máls.

   Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

  • 1701084 – Hamranes I, nýbyggingarsvæði, reitir 7,8 og 9

   9. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs dags. 11. ágúst sl.
   Með vísan til bréf Skipulagsstofnunar frá 7/5 s.l. er deiliskipulagið tekið til umfjöllunar á ný. Lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags 5/8 2020.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkir umsögn skipulagsfulltrúa dags. 05.08.2020 um birtingu auglýsingu um gildistöku deiliskipulags fyrir reiti 7,8 og 9. Erindinu er jafnframt vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.

   Ingi Tómasson tekur til máls. Einnig Sigurður Þ. Ragnarsson og kemur Ingi Tómasson til andsvars og svarar Sigurður andsvari.

   Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með 10 greiddum atkvæðum en Sigurður Þ. Ragnarsson greiðir atkvæði á móti.

   Þá kemur Sigurður Þ. Ragnarsson að svohljóðandi bókun:

   Deilskipulag þessara lóða fela í sér enn eina aðförina að einkabílnum. Gert er ráð fyrir að bílastæðahlutfall verði 0,9. Það hefur sýnt sig að við fjölbýli t.a.m. á Völlunum, að þó bílastæðahlutfall sé 1,5 er oft umtalsverður skortur á bílastæðum. Þá stöðu eigum við að forðast og greiði ég því atkvæði gegn umræddu deiliskipulagi.

  • 1701084 – Hamranes I, Aðalskipulagsbreyting

   . liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs dags. 11. ágúst sl.
   Á fundi skipulags- og byggingarráðs þann 5/5 s.l. var samþykkt uppfærð greinagerð ásamt uppdrætti að breyttu aðalskipulagi í Hamranesi.
   Í breytingunni fólst landnotkunarbreyting við Hamranes. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem S34 (samfélagsþjónusta, 6ha) VÞ11 (verslunar- og þjónustusvæði, 3ha) og ÍB13 (íbúðarsvæði, 14ha). Með breytingunni verður landnotkun svæðisins skilgreind sem M3 (miðbær/miðsvæði), heildarstærð þess verður 23ha. Aðlakipulagsbreytingin var auglýst frá 14/5 til 26/6. Auglýsingatími var framlengdur til 27/7. Engar athugasemdir bárust.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkir aðalskipulagsbreytinguna með vísan til 32. gr. skipulagslaga og vísar henni til staðfestingar í bæjarstjórn.

   Ingi Tómasson tekur til máls. Einnig tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls og kemur Ingi til andsvars sem Friðþjófur svarar. Þá kemur Ingi til andsvars öðru sinni.

   Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

  • 2001561 – Hamranes, deiliskipulag reitir 6,10 og 11

   10. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs dags. 11. ágúst sl.
   Með vísan til bréf Skipulagsstofnunar frá 7/5 s.l. er deiliskipulagið tekið til umfjöllunar á ný. Lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags.5/8 2020.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkir umsögn skipulagsfulltrúa dags. 05.08.2020 um birtingu auglýsingu um gildistöku deiliskipulags fyrir reiti 6,10 og 11. Erindinu er jafnframt vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.

   Ingi Tómasson tekur til máls.

   Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

  • 1908058 – Hjallabraut, deiliskipulagsbreyting

   7. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 11. ágúst sl.

   Lagður fram uppdráttur er gerir grein fyrir breyttum mörkum deilskipulagsins “Íbúðarhverfi í Norðurbæ”. Mörk breytingarinnar afmarkast af Hjallabraut í vestur, aðalgöngustíg í austur, hringtorgi til norðurs og bílastæðum við skátaheimilið og göngustíg til suðurs. Hin breyttu deiliskipulagsmörk voru auglýst samhliða deiliskipulagsbreytingu við Hjallabraut. Engar athugasemdir bárust.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkir breytt skipulagsmörk, og að erindinu verði lokið í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

   Ingi Tómasson tekur til máls.

   Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með 9 greiddum atkvæðum en tveir fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá.

  • 1802033 – Hraun vestur, aðalskipulagsbreyting

   11. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs dags. 11. ágúst sl.
   Lögð fram á ný aðalskipulagsbreyting og greinargerð vegna landnotkunarbreytingu reits ÍB2 í M4. Lýsing skipulagsbreytingarinnar var samþykkt á fundi ráðsins þann 31.jan s.l.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkti greinargerð og uppdrátt aðalskipulagsbreytingar Hraun-Vestur gjótur reitur ÍB2/M4 og vísaði erindinu til staðfestingar bæjarstjórnar. Bæjarstjórn staðfesti erindið á fundi sínum þann 29. apríl s.l. Aðalskipulagsbreytingin var auglýst frá 25/6 – 6/8. Engar athugasemdir bárust.

   Skipulags- og byggingaráð samþykkir fyrirliggjandi aðalskipulagsbreytingu og vísar henni til bæjarstjórnar til staðfestingar.

   Fulltrúi Bæjarlistans bókar eftirfarandi:
   Rétt er að minna á að aðalskipulagsbreytingin á reitnum Hraun vestur sem meirihlutinn kom í gegn á fundi ráðsins 31. janúar 2020 var algjörlega í trássi við rammaskipulagstillöguna frá árinu 2018, sem var unnin í samráði við hagsmunaraðila, kynnt almenningi á þremur opnum fundum og samþykkt í skipulags- og byggingaráði í góðri sátt. Með þessari aðalskipulagsbreytingu hefur einn reitur af sjö á svæðinu Hraun vestur verið tekinn sérstaklega út og þar með allt komið í óvissu hvað varðar samræmingu einstakra áfanga, hverfishluta og verkefna innan svæðisins í heild. Þetta vinnulag getur ekki annað en verið fordæmisgefandi fyrir áframhaldandi uppbyggingu svæðisins og ásýnd bæjarmyndar Hafnarfjarðar. Þetta er nú öll fagmennskan.

   Ingi Tómasson tekur til máls. Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir. Ingi Tómasson kemur til andsvars og svarar Guðlaug andsvari.

   Þá tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls. Einnig tekur Rósa Guðbjartsdóttir til máls.

   Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með 7 atkvæðum frá fulltrúum meirihlutans og Miðflokksins. Fulltrúar Viðreisnar og Bæjarlistans greiða atkvæði á móti og fulltrúar Samfykinarinnar sitja hjá.

   Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

   Bæjarfulltrúi Viðreisnar bókar eftirfarandi

   Búið var að vinna rammaskipulag í sátt og samlyndi við bæjarbúa og í því var að finna skynsamlega heildarsýn fyrir hverfið. Þeirri vinnu er allri kastað á glæ fyrir hagsmuni eins byggingaraðila

   Með því að samþykkja aðalskipulagsbreytingu sem er í engu samræmi við rammaskipulagið er verið að setja í uppnám þær forsendur sem gengið var út frá í upphafi um mannvænt “fimm mínútna hverfi” þar sem öll þjónusta átti að vera í göngufæri.

   Guðlaug Kristjánsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

   Bæjarfulltrúi Bæjarlistans tekur undir bókun fulltrúa listans í skipulags-og byggingarráði og áréttar að líkt og ljóst má vera af þeirri bókun er andstaða í okkar röðum við málið.

   Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:

   Fulltrúar Samfylkingarinnar styðja hugmyndir um þéttingu byggðar við Hraunin eins og þau höfðu verið unnin í góðri sátt eftir vandað ferli með samkeppni, kynningarferli og vinnslu rammaskipulags sem skipulags-og byggingráð samþykkti. Við hörmum það að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk hafi hafnað því að staðfesta rammaskipulagið í bæjarstjórn sem meirihluti flokkanna í skipulags- og byggingaráði hafði samþykkt. Þetta þýðir að staða rammaskipulagsins sem byggði á vandaðri vinnu og íbúasamráði er mjög óljós og skortur er á heildstæðri framtíðarsýn fyrir svæðið. Hér er um mjög mikilvægt uppbyggingarsvæði að ræða fyrir bæinn og því mjög gagnrýnisvert að meirihlutinn í bæjarstjórn skuli grafa undan þeirri framtíðarsýn og stefnumörkun sem lögð voru drög að í rammaskipulaginu.

  • 1903199 – Hraun vestur, gjótur, deiliskipulag

   12. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs dags. 11. ágúst sl.
   Tekin fyrir á ný tillaga að uppbyggingu á reit sem liggur að Reykjavíkurvegi, Hjallahrauni og Helluhrauni. Tillaga Tendru arkitekta dags. 28. maí 2020 að deilskipulagi reits sem nær til lóða við Reykjavíkurveg 60-62 og Hjallahrauns 2-4 lögð fram auk greinargerðar deiliskipulagsins dags. 28. maí 2020 og umsögnum frá Veðurvaktinni og Verkfræðistofu VSÓ.
   Tillaga að deiliskipulagi var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs 2. júní s.l. og að málsmeðferð yrði í samræmi við 1.mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Erindinu var jafnframt vísað til staðfestingar í bæjarstjórn. Bæjarstjórn staðfesti erindið þann 10. júní. Deiliskipulagið var auglýst frá 25/6 – 6/8. Engar athugasemdir bárust.
   Skipulags- og byggingaráð samþykkir fyrirliggjandi deiliskipulabreytingu og vísar henni til bæjarstjórnar til staðfestingar.

   Fulltrúi Bæjarlistans bókar eftirfarandi:
   Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir minnihlutans ætlar meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknar að þröngva í gegn nýju deiliskipulagi fyrir reitinn Hraun vestur. Samkvæmt þessu nýja deiliskipulagi er byggingamagnið á reitnum stórlega aukið og gert ráð fyrir 490 íbúðum eða um 1.400 íbúum á þessum litla reit. Um þetta er ekki samstaða meðal bæjarbúa. Engar haldbærar skýringar hafa fengist hjá meirihlutanum varðandi ástæðu fyrir þessari breytingu. Enginn skilur hvað meirihlutanum gengur til enda hefur hann ekki haft fyrir því að efna til kynningarfundar um málið. Augljóst er að meirihlutinn lætur ekkert stoppa sig í þessum ásetningi, hvorki Skipulagsstofnun eða skynsamleg rök frá bæjarbúum. Athugasemdum og ábendingum hefur meirihlutinn svarað á þann hátt að þar hljóti að liggja að baki annarleg sjónarmið og örvænting. Þetta er nú öll fagmennskan.

   Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:

   Hér er um að ræða nýja deiliskipulagstillögu og var íbúafundur haldinn um málið þann 9. júlí kl. 17. Fundinum var einnig streymt á vef bæjarfélagsins auk þess sem engar athugasemdir bárust við fyrirliggjandi tillögu. Það sem fram kemur því í bókun fulltrúa Bæjarlistans er því efnislega rangt en slíkt kemur því miður ekki á óvart og er í raun framhald af því sem verið hefur.

   Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga opnar á fjölbreytta byggð íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Tillagan fellur vel að markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins þar sem meginstefnan er uppbygging og þétting byggðar við miðkjarna og önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði og að hlutfall íbúðabyggðar á þeim svæðum vaxi úr 30% í 66%. Landsvæðið liggur að fyrirhugðuðum samgönguás Borgarlínu sem styrkir markmið svæðisskipulagsins og þéttingu byggðar. Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga gerir ráð fyrir að með bættum almenningssamgöngum muni þeim bílastæðum, sem tillagan gerir ráð fyrir ofanjarðar fækka til að auka umhverfisgæði á útivistarsvæði.

   Þá er deiliskipulagstillagan í samræmi við þá framtíðarsýn og hugmyndir sem settar eru fram í rammaskipulagsdrögum fyrir Hraun vestur. Í greinargerð aðalskipulagsins er gerð góð grein fyrir leik- og grunnskólum ásamt opnum grænum svæðum. Gert er ráð fyrir uppbyggingu á öllu svæðinu, Hraun vestur, geti tekið allt að 20 árum og gera má ráð fyrir ýmsum breytingum á því tímabili er varðar samgöngur og samfélag sem getur haft áhrif á skipulag framtíðar.

   Ingi Tómasson tekur til máls. Einnig tekur Ágúst Bjarni Garðarsson til máls. Til andsvars kemur Friðþjófur Helgi Karlsson. Ágúst Bjarni svarar andsvari og kemur Friðþjófur næst til andsvars öðru sinni.

   Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með 7 atkvæðum frá fulltrúum meirihlutans og Miðflokksins. Fulltrúar Viðreisnar og Bæjarlistans greiða atkvæði á móti en fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá.

   Guðlaug Kristjánsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

   Bæjarfulltrúi Bæjarlistans tekur undir bókanir fulltrúa listans í skipulags- og byggingarráði og áréttar að líkt og ljóst má vera af þeim bókunum er andstaða í okkar röðum við málið.

   Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

   Fulltrúi Viðreisnar bókar eftirfarandi

   Hið mikla byggingarmagn sem lagt er til í deiluskipulagstillögunni er ekki í neinu samræmi við þá heildarsýn sem lagt var upp með við gerð rammaskipulags. Hætt er við að ef allir lóðarhafar fá sjálfdæmi um það hvað á að byggja mikið þá verði hverfið ekki “nýtt glæsilegt andlit Hafnarfjarðar sem mun gera okkur öll stolt af því að bjóða gesti og nýja íbúa velkomna” eins og sagði í kynningu á rammaskipulaginu á sínum tíma. Það vekur upp ýmsar spurningar um hvað meirihlutanum gengur til þegar lagt er milljóna kostnað við gerð skipulagslýsinga og rammaskipulaga sem hann hefur í raun engan hug á að fylgja eftir.

   Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:

   Fulltrúar Samfylkingarinnar benda á að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi fyrir Hraun vestur, gjótur, víkur í meginatriðum frá vandaðri vinnu við rammaskipulag fyrir hverfið sem var kynnt íbúum og samþykkt í skipulags- og byggingaráði. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks fullyrðir að tillagan sé í samræmi við rammaskipulagið en horfir fram hjá því að verið er að auka byggingarmagnið verulega, mikilli fjölgun bílastæða og fækkun grænna reita. Hæðir húsa fara úr 4-6 í 8 hæðir með tilheyrandi skuggavarpi og vindþrýstingi. Þá hefur ekki verið gerð áætlun um hvernig þessa mikla frammúrkeyrsla hefur á hverfið í heild sinni hvað varðar skólamál, umferð og gæði byggðar. Samráðið við íbúa um gerð rammaskipulags fjallaði ekki um þetta og hér skortir skýra framtíðarsýn um mikilvæga uppbyggingu. Af þessum ástæðum geta fulltrúar Samfylkingarinnar ekki stutt tillöguna.

   Ágúst Bjarni kemur að svohljóðandi bókun:

   Bókun fulltrúa meirihluta og fulltrúa Miðflokksins

   Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga opnar á fjölbreytta byggð íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Tillagan fellur vel að markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins þar sem meginstefnan er uppbygging og þétting byggðar við miðkjarna og önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði og að hlutfall íbúðabyggðar á þeim svæðum vaxi úr 30% í 66%. Landsvæðið liggur að fyrirhugðuðum samgönguás Borgarlínu sem styrkir markmið svæðisskipulagsins og þéttingu byggðar. Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga gerir ráð fyrir að með bættum almenningssamgöngum muni þeim bílastæðum, sem tillagan gerir ráð fyrir ofanjarðar fækka til að auka umhverfisgæði á útivistarsvæði.

   Þá er deiliskipulagstillagan í samræmi við þá framtíðarsýn og hugmyndir sem settar eru fram í rammaskipulagsdrögum fyrir Hraun vestur. Í greinargerð aðalskipulagsins er gerð góð grein fyrir leik- og grunnskólum ásamt opnum grænum svæðum. Gert er ráð fyrir uppbyggingu á öllu svæðinu, Hraun vestur, geti tekið allt að 20 árum og gera má ráð fyrir ýmsum breytingum á því tímabili er varðar samgöngur og samfélag sem getur haft áhrif á skipulag framtíðar.

  • 0809375 – Ásvellir, Haukasvæði, breyting á deiliskipulagi

   13. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs dags. 11. ágúst sl.
   Lögð fram ný umhverfisskýrsla vegna breytingar á deiliskipulagi Haukasvæðisins samanber bréf skipulagsstofnunar dags. 12.06.2020.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkir að auglýsa umhverfisskýrsluna í samræmi við málsmeðferð deiliskipulags Haukasvæðisins og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar.

   Ingi Tóamsson tekur til máls. Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir.

   Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

  • 1706152 – Hverfisgata 49, lóðarstækkun, lóðarleigusamningur, endurnýjun

   14. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs dags. 11. ágúst sl.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkti á fundi sínum þann 2. júní s.l. tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar að Hverfisgötu 49. Bæjarstjórn staðfesti erindið á fundi sínum þann 10. júní s.l. Tillagan var auglýst frá 25/6 – 6/8. Athugasemdir bárust.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkir fyrirliggjandi umsögn skipulagsfulltrúa sem og fyrirliggjandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi og vísar erindinu til staðfestingar í bæjarstjórn.

   Ingi Tómasson tekur til máls.

   Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

  • 2008009 – Hvaleyri , golfklúbburinn Keilir, breyting á deiliskipulagi

   15. liður úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs dags. 11. ágúst sl.
   Golfklúbburinn Keilir óskar eftir að breyta gildandi deiliskipulagi þar sem bætt er inn byggingarreit fyrir vélageymsluhús í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt dags. 25. júlí 2020 gerður af TEARK arkitektum í Kaupmannahöfn.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkir að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Golfklúbbsins Keilis í samræmi við 43. gr. skipulagslaga. Erindinu er jafnframt vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

   Ingi Tómasson tekur til máls.

   Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs

  • 1908058 – Hjallabraut, deiliskipulagsbreyting

   1.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 17.ágúst sl.
   Á fundi bæjarstjórnar þann 5. feb. s.l. var Hjallabraut, deiliskipulagsbreytingu vísað aftur til skipulags- og byggingarráðs. Lögð var fram breytt tillaga sem gerir ráð fyrir fækkun á húsum. Lagður fram endurgerður deiliskipulagsuppdráttur Bj.snæ arkitekta, dags. 02.04.2020, sem tekur mið af fækkun húsa og framkomnum athugasemdum.
   Skipulags- og byggingarráð samþykkti þann 21.04.2020 breytta tillögu að deiliskipulagi og að auglýsa hana í samræmi við 41.gr.skipulagslaga. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs. Tillagan var auglýst 02.04.-02.06.2020. Athugasemdir bárust.

   Skipulags- og byggingarráð samþykkir endurgert deiliskipulag Hjallabrautar og að erindinu verði lokið í samræmi við 3.mgr. 41.gr. skipulagslaga. Skipulags- og byggingarráð tekur undir umsögn skipulagsfulltrúa. Erindinu er vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

   Ingi Tómasson tekur til máls. Einnig Friðþjófur Helgi Karlsson. Til andsvars kemur Ingi Tómasson sem og Ágúst Bjarni Garðarsson.

   Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með 9 greiddum atkvæðum en fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá.

   Friðþjófur Helgi Karlsson kemur að svohljóðandi bókun.

   Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar harma þann hringlandahátt sem einkennt hefur vinnu meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í þessu máli. Á fundi skipulags – og byggingaráðs þann 17. desember, 2019 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi lágreistrar byggðar. Það var loks tekið fyrir í bæjarstjórn í febrúar, en þá var því vísað aftur til ráðsins. Á fundi Skipulags- og byggingaráðs þann 21. apríl sl. lá fyrir alveg ný tillaga með umtalsverðum breytingum frá annarri arkitektaskrifstofu en gerði upphaflegu tillöguna. Engar ástæður voru tilgreindar fyrir þessum breytingum sem hafa verið unnar með ærnum tilkostnaði. Því miður er þetta enn eitt dæmið hjá meirihlutanum um hringlandann í skipulagsmálum og hvernig málum er þvælt fram og til baka innan kerfisins með tilheyrandi kostnaði sem kemur niður á áformum um uppbygginu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði. Það er til marks um vinnubrögð meirihlutans í málinu að fyrirspurn Samfylkingarinnar sem lögð var fram á fundi ráðsins þann 30. júní sl. hefur enn ekki verið svarað. Hún er því ítrekuð hér að nýju: 1. Hver er kostnaðurinn við gerð tveggja tillagna að deiliskipulagi fyrir Hjallabrautina? 2. Hver er áætlaður heildarkostnaðurinn vegna þeirra vinnu? 3. Áður en vinna við deiliskipulagið hófst hver var kostnaðaráætlunin vegna þessarar vinnu? Óskað er eftir sundurliðun kostnaðar með tilliti til aðkeyptrar þjónustu.

   Ingi Tómasson tekur til máls undir fundarsköpum. Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að stuttri athugasemd.

   Fundarhlé kl. 16:45. fundi framhaldið kl. 16:55.

   Þá kemur Ingi Tómasson að stuttri athugasemd.

  • 1910032 – Hörgsholt 1a, deiliskipulag, lóðarleigusamningur

   8. liður úr fundargerð bæjarráðs dags. 13. ágúst sl.

   Lagður fram lóðarleigusamningur sem er í samræmi við gildandi deiliskipulag.
   Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi lóðarleigusamning og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.

   Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.

  • 2007451 – Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, verkstæðishús, erindi

   9. liður úr fundargerð bæjarráðs dags. 13. ágúst sl.

   Tekið fyrir að nýju til afgreiðslu.
   Í samræmi við fyrirliggjandi minnisblað bæjarlögmanns samþykkir bæjarráð að fella niður gatnagerðargjald af verkstæðishúsi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar sem fyrirhugað er að reisa á athafnasvæði skógræktarinnar með vísan sérstakra lækkunarheimilda í 6. gr. samþykktar um gatnagjald í Hafnarfjarðarkaupstað nr. 242/2016 sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um gatnagerðargjöld nr. 153/2006. Erindinu er vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

   Bæjarstjórn staðfestir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.

  • 2008047 – Völuskarð 5, umsókn um lóð

   10. liður úr fundargerð bæjarráðs dags. 13. ágúst sl.

   Lögð fram umsókn Hallgríms Guðmundssonar og Aldísar Sigurðardóttur um lóðina nr. 5 við Völuskarð.
   Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni Völuskarð 5 verði úthlutað til umsækjenda.

   Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu bæjarráðs um úthlutun á lóðinni Völuskarð 5 til umsækjanda.

  • 2007358 – Völuskarð 28, umsókn um lóð

   11. liður úr fundargerð bæjarráðs dags. 13. ágúst sl.

   Lögð fram umsókn Báts ehf um lóðina nr. 28 við Völuskarð. Ekki er tilgreind varalóð.
   Tvær umsóknir eru um lóðina Völuskarð 28 og er því dregið á milli umsækjenda. Fulltrúi sýslumanns dregur út nafn umsækjandans Báts ehf.

   Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni Völuskarð 28 verði úthlutað til Báts ehf.

   Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu bæjarráðs um úthlutun á lóðinni Völuskarð 28 til Báts ehf.

  • 2007633 – Völuskarð 28, umsókn um lóð

   12. liður úr fundargerð bæjarráðs dags. 13. ágúst sl.

   Lögð fram umsókn Andra Þórs Sigurjónssonar og Önnu Helgu Ragnarsdóttur um lóðina nr. 28 við Völuskarð, sótt er um lóðina nr. 30 við Völuskarð til vara.
   Tvær umsóknir eru um lóðina Völuskarð 28 og er því dregið á milli umsækjenda. Fulltrúi sýslumanns dregur út nafn umsækjandans Báts ehf.

   Bæjarráð leggur því við bæjarstjórn að lóðinni Völuskarð 28 verði úthlutað til Báts ehf.

   Þá leggur bæharráð jafnframt til að lóðinni Völuskarð nr. 30 verði úthlutað til Andra Þórs Sigurjónssonar og Önnu Helgu Ragnarsdóttur.

   Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu bæjarráðs um úthlutun á lóðinni Völuskarð 30 til Andra Þórs Sigurjónssonar og Önnu Helgu Ragnarsdóttur.

  • 2006130 – Fluguskeið 9a,umsókn um lóð

   13. liður úr fundargerð bæjarráðs dags. 13. ágúst sl.

   Lögð fram umsókn Birnu Sigurkarlsdóttur um hesthúsalóðina Fluguskeið 9a.
   Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni Fluguskeiði 9a verði úthlutað til umsækjanda.

   Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu bæjarráðs um úthlutun á lóðinni Fluguskeið 9a til umsækjanda.

  • 1711024 – Móbergsskarð 11, tilboð, lóðarúthlutun, skil lóðar

   14. liður úr fundargerð bæjarráðs dags. 13. ágúst sl.

   Lögð fram beiðni Haghúsa um að skila lóðinni nr. 11 við Móbergsskarð.
   Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja skil lóðarinnar Móbergsskarð 11.

   Samþykkt samhljóða

  • 1711023 – Móbergsskarð 9, tilboð, lóðarúthlutun, skil lóðar

   15. liður úr fundargerð bæjarráðs dags. 13. ágúst sl.

   Lögð fram beiðni Haghúsa um að skila lóðinni nr. 9 við Móbergsskarð.
   Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja skil lóðarinnar Móbergsskarð 9.

   Samþykkt samhljóða

  • 2003453 – Fjarfundir sveitarstjórnar, ráða og nefnda

   Endurnýjun á heimild um að bæjarstjórn, ráðum og nefndum verði heimilt að halda fjarfundi sbr. auglýsingu um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að framlengja heimild sveitarstjórna til að víkja tímabundið frá tilteknum skilyrðum ákvæða í sveitarstjórnarlögum til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og að auðvelda ákvörðunartöku þeirra við þær aðstæður sem eru upp í þjóðfélaginu.

   Bæjarstjórn samþykkir samhljóða með vísan VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011 að heimilt er að halda fundi bæjarstjórnar, ráða og nefnda í fjarfundi.

  Fundargerðir

  • 2001041 – Fundargerðir 2020, til kynningar í bæjarstjórn

   Fundargerð fjölskylduráðs frá 22. júlí sl.
   Fundargerðir skipulags- og byggingarráðs frá 11. og 17. ágúst sl.
   Fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 12. ágúst sl.
   Fundargerð fræðsluráðs frá 12. ágúst sl.
   Fundargerð bæjarráðs frá 13. ágúst sl.
   a.Fundargerð hafnarstjórnar frá. 12. ágúst sl.
   b.Fundargerð strætó bs. frá 19. júní sl.
   Fundargerð forsetanefndar frá 17.ágúst sl.

Ábendingagátt