Bæjarstjórn

25. nóvember 2020 kl. 14:00

á fjarfundi

Fundur 1858

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri
  • Kristinn Andersen forseti
  • Sigurður Þórður Ragnarsson 1. varaforseti
  • Ágúst Bjarni Garðarsson 2. varaforseti
  • Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður
  • Sigrún Sverrisdóttir aðalmaður
  • Friðþjófur Helgi Karlsson aðalmaður
  • Jón Ingi Hákonarson aðalmaður
  • Helga Ingólfsdóttir aðalmaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir aðalmaður
  • Kristín María Thoroddsen aðalmaður

Mættir eru allir aðalbæjarfulltrúar.

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stjórnaði honum.

Í upphafi fundar minntist forseti Kjartans Jóhannssonar fyrrverandi bæjarfulltrúa 1974-1978 sem lést þann 13. nóvember sl.

Ritari

  • Ívar Bragason Ritari bæjarstjórnar og lögmaður á stjórnsýslusviði

Mættir eru allir aðalbæjarfulltrúar.

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stjórnaði honum.

Í upphafi fundar minntist forseti Kjartans Jóhannssonar fyrrverandi bæjarfulltrúa 1974-1978 sem lést þann 13. nóvember sl.

  1. Almenn erindi

    • 2011293 – Útsvarsprósenta við álagningu 2021

      2.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
      Eftirfarandi tillaga liggur fyrir fundinum:
      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að útsvarsprósenta við álagningu 2021 verði 14,48%

      Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs situr fundinn undir þessum lið.

      Tillaga Miðflokks, Bæjarlista og Samfylkingar:
      Fulltrúar Miðflokks, Bæjarlista og Samfylkingar leggja til að útsvarsprósenta við álagningu 2021 verði 14,52%
      Greinargerð:
      Að fullnýta útsvarsprósentuna (14,52%) hefði þýtt kostnaðarauka fyrir einstakling með eina milljón á mánuði um 400 krónur á mánuði. Kostnaðarauki einstaklings með 500 þúsund á mánuði yrði 200 kr.
      Sveitarfélagið munar hins vegar um þennan mismun á útsvari 14,52%/14,48% um 50 milljónir á ári sem er upphæð sem sveitarfélagið sárvantar.

      Tillagan er felld með þremur atkvæðum meirihluta. Fulltrúar Miðflokks og Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni.

      Fyrirliggjandi tillaga er samþykkt með atkvæðum meirihluta. Fulltrúar Samfylkingar og Miðflokks greiða atkvæði á móti.

      Fulltrúi Samfylkingar leggur fram svohljóðandi bókun:
      Nú er ljóst að meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks ætlar sér ekki að fullnýta útsvarið. Hann ákveður þess í stað að hækka gjaldskrár. Með þeirri ákvörðun er meirihlutinn að hlífa breiðu bökunum í samfélaginu á meðan hann leggur þyngri byrðar á viðkvæma hópa. Meðal annrars vegna þess getur Samfylkingin ekki samþykkt þessa tillögu og greiðir atkvæði gegn henni.

      Fulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
      Fulltrúi Viðreisnar óskar eftir því að gerðar verði nokkrar sviðsmyndir þar sem sýnt verði hvernig allar fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir munu koma við ólíkar stærðir fjölskyldna. Telur fulltrúi Viðreisnar það nauðsýnlegt til að geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvernig heildar hækkanir koma við heimilin í Hafnarfirði. Þær sviðsmyndir sem þarf að skoða eru krónutöluhækkanir á einstakling, á einstætt foreldri með eitt barn, hjón með eitt barn og hjón með 3 börn.

      Fulltrúi Miðflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
      Það er hrein og klár sýndarmennska meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að viðhalda útsvarsprósentu sveitarfélagsins óbreyttri (14,48%) í ljósi erfiðrar rekstrarstöðu bæjarins. Vandanum hefur verið mætt m.a. með sölu fyrirtækja bæjarins, hækkun gjaldskrár og fleira. Að fullnýta útsvarsprósentuna (14,52%) hefði þýtt kostnaðarauka fyrir mann með eina milljón á mánuði um 400 krónur á mánuði. Kostnaðarauki manns með 500 þúsund á mánuði yrði 200 kr.
      Fyrir sveitarfélagið munar hins vegar um þennan mismun á útsvari 14,52%/14,48% um 50 milljónir á ári sem er upphæð sem sveitarfélaginu sárvantar. Því er þetta sýndarmennska að geta veifað því að halda útsvarsprósentu óbreyttri og í raun ábyrgðarleysi.

      Fulltrúi Bæjarlista leggur fram svohljóðandi bókun:
      Fulltrúi Bæjarlistans lýsir furðu á því vali meirihlutans að nýta ekki útsvarsheimildir til fulls, til ráðstöfunar í þjónustu við viðkvæma hópa.
      Hér er um að ræða uþb 50 milljón króna svigrúm sem bærinn gæti verið að nýta á sviðum sem þjónusta viðkvæma hópa, sem myndi ekki þýða nema nokkur hundruð krónur á mánuði fyrir einstakling með meðallaun í útsvarsgreiðslur.
      Á tímum þegar tekjur afmarkaðra hópa á vinnumarkaði hafa orðið fyrir skörpu höggi væri fullnýting á útsvari málefnaleg leið til að auka tekjur bæjarins til góða fyrir nauðsynlega þjónustu á fræðslu- og fjölskyldusviði.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
      Það hefur verið ein af áherslum núverandi meirihluta að hækka ekki álögur á íbúa. Útsvarshækkun hefði í för með sér tekjuskerðingu fyrir bæjarbúa eða með öðrum orðum; útborguð laun íbúa bæjarfélagsins lækka. Slíkt er ekki í samræmi við stefnu núverandi meirihluta sem hefur það markmið að létta undir með fjölskyldufólki og jafnframt að tryggja að allar gjaldskrár sem snerta viðkvæmustu hópa samfélagsins séu ávallt með þeim lægri sé horft til samanburðarsveitarfélaga. Því leggja fullltrúar meirihlutans það til við bæjarstjórn að prósentuhlutfallið verði ekki hækkað. Hagkerfið, verslun og þjónusta, munar um þær milljónir í sinn rekstur.

      Til máls taka Rósa Guðbjartsdóttir og Guðlaug Kristjánsdóttir sem leggur til tillögu um að útsvarsprósenta við álagningu 2021 verði 14,52%.

      Þá taka til máls Friðþjófur Helgi Karlsson og Sigurður Þ. Ragnarsson. Ingi Tómasson kemur til andsvars við ræðu Sigurðar sem svarar andsvari.

      Þá ber forseti fyrst upp framkomna tillögu Guðlaugar Kristjánsdóttur um að útsvarsprósenta við álagningu 2021 verði 14,52%.

      Er tillagan felld þar sem fulltrúar 4 fulltrúar Samfylkingar, Miðflokksins og Bæjarlistans greiða atkvæði með tillögunni en 6 fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Viðreisnar greiða atkvæði Viðreisnar

      Næst ber forseti upp fyrirliggjandi tillögu bæjarráðs um að útsvarsprósenta við álagningu 2021 verði 14,48% og er tillagan samþykkt með 7 atkvæðum Sjálfstæðisfloikks, Framsóknar og viðreisnar. Fulltrúar Samfylkingar, Miðflokksins og Bæjarlistans greiða atkvæði gegn tillögunni.

      Guðlaug Kristjánsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

      Fulltrúi Bæjarlista leggur fram svohljóðandi bókun: Fulltrúi Bæjarlistans lýsir furðu á því vali meirihlutans að nýta ekki útsvarsheimildir til fulls, til ráðstöfunar í þjónustu við viðkvæma hópa. Hér er um að ræða uþb 50 milljón króna svigrúm sem bærinn gæti verið að nýta á sviðum sem þjónusta viðkvæma hópa, sem myndi ekki þýða nema tvö- til þrjúhundruð krónur á mánuði fyrir einstakling með meðallaun í útsvarsgreiðslur. Á tímum þegar tekjur afmarkaðra hópa á vinnumarkaði hafa orðið fyrir skörpu höggi væri fullnýting á útsvari málefnaleg leið til að auka tekjur bæjarins til góða fyrir nauðsynlega þjónustu á fræðslu- og fjölskyldusviði, á þann hátt að hlífa þeim bæjarbúum við hækkunum sem glíma við atvinnuleysi og tekjufall.

      Guðlaug S Kristjánsdóttir
      bæjarfulltrúi Hafnarfjarðarbæ

      Ágúst Bjarni Garðarsson kemur að svohljóðandi bókun:

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
      Það hefur verið ein af áherslum núverandi meirihluta að hækka ekki álögur á íbúa. Útsvarshækkun hefði í för með sér tekjuskerðingu fyrir bæjarbúa eða með öðrum orðum; útborguð laun íbúa bæjarfélagsins lækka. Slíkt er ekki í samræmi við stefnu núverandi meirihluta sem hefur það markmið að létta undir með fjölskyldufólki og jafnframt að tryggja að allar gjaldskrár sem snerta viðkvæmustu hópa samfélagsins séu ávallt með þeim lægri sé horft til samanburðarsveitarfélaga. Því hafa fullltrúar meirihlutans lagt það til að prósentuhlutfallið verði ekki hækkað. Hagkerfinu, verslun og þjónustu, munar um þær milljónir í sinn rekstur.

      Friðþjófur Helgi Karlsson kemur að svohljóðandi bókun:

      Fulltrúar Samfylkingar leggur fram svohljóðandi bókun:
      Nú er ljóst að meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks ætlar sér ekki að fullnýta útsvarið. Hann ákveður þess í stað að hækka gjaldskrár. Með þeirri ákvörðun er meirihlutinn að hlífa breiðu bökunum í samfélaginu á meðan hann leggur þyngri byrðar á viðkvæma hópa. Einnig er mikil þörf á þessum 50 milljónum króna sem bærinn er að afsala sér með óbreyttu útsvari til ýmissa fjárfestingaverkefna eða til þess að vinna að mikilvægum verkefnum sem snúa að því að hlú að ungum og öldnum sem minna mega sín í samfélaginu. Fulltrúar Samfylkingarinnar geta ekki samþykkt þessa tillögu og greiða því atkvæði gegn henni.

      Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

      Fulltrúi Viðreisnar bókar eftirfarandi
      Gjaldskrárhækkanir og stóraukin hækkun á gjaldi vegna sorphirðu eru auknar álögur á íbúa Hafnarfjarðar. Viðreisn telur að fyrst beri að leita allra leiða við að hagræða í rekstri áður en gripið er til skattahækkana. Sviðsmyndir sýna að uppsöfnuð krónutöluhækkun er töluverð fyrir fjölskyldur í Hafnarfirði. Viðreisn styður óbreytta álagsprósentu

      Sigurður Þ. Ragnarsson kemur að svohljóðandi bókun:

      Bókun bæjarfulltrúa Miðflokksins.
      Það er með ólíkindum að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og einnig Viðreisnar að ætla að viðhalda útsvarsprósentu sveitarfélagsins óbreyttri (14,48%) í ljósi afar erfiðrar rekstrarstöðu bæjarins. Að fullnýta útsvarsprósentuna (14,52%) hefði þýtt kostnaðarauka fyrir einstakling með eina milljón krónur í laun á mánuði um 400 krónur á mánuði. Kostnaðarauki einstaklings með 500 þúsund krónur í laun á mánuði yrði 200 krónur á mánuði. Semsagt óveruleg upphæð fyrir hvern og einn.
      Sveitarfélaginu munar hins vegar mjög um þennan mismun á útsvari 14,52%/14,48% sem nemur milli 50 til 60 milljónum á ári. Þetta er upphæð sem sveitarfélaginu sárvantar. Því er það sýndarmennska hjá meirihlutanum að geta veifað því framan í bæjarbúa að ekki sé verið að hækka skatta á sama tíma og gjaldskrár fyrir þjónustu bæjarfélagsins hækka.

    • 2007447 – Verslunarmiðstöðin Fjörður, ósk um samstarf, erindi

      6.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
      Lagt fram samkomulag á milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og 220 Fjarðar. Til afgreiðslu.

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samkomulag milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og 220 Fjarðar. Málinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Fulltrúi Samfylkingar situr hjá við afgreiðslu málsins.

      Fulltrúi Samfylkingar leggur fram svohljóðandi bókun:
      Ég er hrifinn af hugmyndum um nýtt bókasafn í miðbænum en mér finnst málið ekki hafa fengið nægjanlega umræðu í samfélaginu og aðkoma íbúa hefur engin verið. Ég hefði viljað sjá þetta mál skoðað betur í heild og í tengslum við þá vinnu sem nú er í gangi varðandi framtíðarhúsnæði stjórnsýslunnar. Á þeim forsendum sit ég hjá við þessa afgreiðslu.

      Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

      Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjaráðs með 10 greiddum atkvæðum en þau Friðþjófur Helgi Karlsson og sigrún Sverrisdóttir sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

      Friðþjófur Helgi Karlsson kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd fulltrúa Samfylkingar:

      Við erum að mörgu leyti hrifin af hugmyndum um nýtt bókasafn í miðbænum en okkur finnst mikill asi í tengslum við málið og það hafi ekki hafa fengið nægjanlega umræðu í samfélaginu og aðkoma íbúa hefur engin verið. Við hefðum viljað sjá þetta mál skoðað betur í heild og í tengslum við þá vinnu sem nú er í gangi varðandi framtíðarhúsnæði stjórnsýslunnar. Á þeim forsendum sitjum við hjá við þessa afgreiðslu.

    • 2005379 – Undirskriftasöfnun, tilkynning, HS Veitur

      3. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.

      Lögð fram tilkynning um undirskriftasöfnun. Til afgreiðslu.

      Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

      Einnig tekur Sigrún Sverrisdóttir til máls. Rósa kemur til andsvars.

      Þá tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls.

      Bæjarstjórn hafnar fyrirliggjandi erindi um undirskriftarsöfnun með 6 greiddum atkvæðum meirihluta gegn 5 atkvæðum meirihluta.

      Ágúst Bjarni Garðarsson kemur að svohljóðandi bókun:

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
      Þann 23. október sl. barst Hafnarfjarðarbæ tilkynning þriggja einstaklinga um fyrirhugaða undirskriftasöfnun í Hafnarfirði „vegna kröfu um almenna atkvæðagreiðslu í bæjarfélaginu um þá ákvörðun bæjarráðs að selja 15,42% hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum, sbr. fund bæjarráðs haldinn 22. október síðastliðinn“, eins og segir í erindinu. Er í erindinu vísað til 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og í reglugerð nr. 155/2013 um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Samhljóða erindi hafði borist í maí sl. að meginhluta frá sömu aðilum vegna ákvörðunar bæjarráðs frá 22. apríl sl. um að hefja söluferli á hlut bæjarins í HS Veitum. Bæjarráð samþykkti þá á fundi sínum þann 4. júní sl. að undirskriftarsöfnun færi fram og var yfirskrift undirskriftarsöfnunarinnar svohljóðandi:

      „Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar 22. apríl s.l. var ákveðið að hefja undirbúning að sölu hlutabréfa bæjarins í HS Veitum hf. Við krefjumst þess að Hafnfirðingar fái að tjá hug sinn í almennri íbúakosningu áður en ákvörðun er tekin um að selja hlutabréf bæjarins í félaginu.“
      Söfnun undirskrifta fór fram á tímabilinu 15. júní til 13. júlí sl. og alls skráðu 1593 nafn sitt á undirskriftarlistann eða 7,6% þeirra sem voru á kjörskrá. Var niðurstaða söfnunarinnar kynnt í bæjarráði þann þann 16. júlí sl.
      Samkvæmt framangreindu er ljóst að nú þegar hefur farið fram undirskriftarsöfnun þar sem óskað er eftir almennri atkvæðagreiðslu um sölu sveitarfélagsins á hlut sínum í HS Veitum og liggur niðurstaða þeirrar söfnunar fyrir. Verður ekki séð að hægt sé að óska eftir nýrri undirskriftarsöfnun vegna sama máls.

      Í samræmi við fyrirliggjandi gögn hafnar meirihluti bæjarstjórnar fyrirliggjandi erindi um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 2. mgr. 108 gr. sveitarstjórnarlaga.“

      Friðþjófur Helgi Karlsson kemur að svohljóðandi bókun:

      Hér er um að ræða slæleg vinnubrögð meirihlutans í þessu máli. Það er ljóst að hér hefur ekki verið svarað innan tiltekins tíma. Tikynning þess efnis að fyrirhuguð væri undirskriftarsöfnun barst bæjaryfirvöldum 23. október síðastliðinn. Í lögunum segir að eftir að sveitarstjórn hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftasöfnun, þá skal hún innan fjögurra vikna meta hvort ákvæði 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málið og tilkynna ábyrgðaraðila um niðurstöðu sína án tafar.
      Sveitarstjórn skal leiðbeina ábyrgðaraðila um orðalag tilkynningarinnar og önnur framkvæmdaratriði eftir því sem þörf er á og veita honum frest til að bæta úr annmörkum, sé tilefni til.
      Fulltrúar Samfylkingarinnar telja mikilvægt að lýðræðislegum rétti bæjarbúa sé sómi sýndur. Við teljum að þarna fari eðlileg og réttmæt krafa um söfnun undirskrifta frá bæjarbúum til að mótmæla sölu á hlut bæjarins í HS-Veitum og krefjast þess að málið fari í íbúakosningu þar sem hægt væri að hnekkja þessari niðurstöðu sé vilji meirihluta bæjarbúa til þess.

    • 2010604 – Völuskarð 18, umsókn um parhúsalóð,úthlutun

      11.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
      Lögð fram beiðni um að Ingunn Stefánsdóttir og Eiríkur Stefánsson verði lóðarhafar með Jóhanni Ögra Elvarssyni og Rut Helgadóttur en þeim var úthlutað lóðinni 11. nóvember sl.

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi beiðni um að Ingunn Stefánsdóttir og Eiríkur Stefánsson verði meðlóðarhafar að lóðinni Völuskarði 18 og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs

    • 2011037 – Völuskarð 22 og 34, umsókn um lóð

      12.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
      Lagðar fram umsóknir Jóhanns Ögra Elvarssonar og Rutar Helgadóttur um lóðirnar nr. 22 og 34 við Völuskarð. Þá er einnig lögð fram beiðni umsækjanda um áfangaskiptingu framkvæmda.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni Völuskarð 22 og 34 verði úthlutað til Jóhanns Ögra Elvarssonar og Rutar Helgadóttur. Bæjarráð samþykkir einnig fyrirliggjandi beiðni um áfangaskiptingu og vísar til afgreiðslu á stjórnsýslu- og fjármálasviði.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.

    • 2011114 – Völuskarð 20, umsókn um lóð

      13.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
      Lögð fram umsókn Gylfa Andréssonar um lóðina nr. 20 við Völuskarð.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni Völuskarð 20 verði úthlutað til Gylfa Andréssonar.

      bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.

    • 2011087 – Glimmerskarð 2(-6), 8(-12 ) og 14(-16),umsókn um lóð

      14.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
      Lögð fram umsókn Sjónvers ehf., um lóðirnar nr. 2-6, 8-12 og 14-16 við Glimmerskarð.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að lóðunum Glimmerskarði 2(-6), 8(-12) og 14(-16) verði úthlutað til Sjónvers ehf.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að lóðunum Glimmerskarð 2 og 8 verði úthlutað til Sjónvers ehf.

    • 1908176 – Hverfisgata 12,umsókn um lóð, úthlutun,skil

      15.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
      Lagt fram bréf frá lóðarhöfum að Hverfisgötu 12 þar sem óskað er eftir því að afsala sér lóðarúthlutun á lóðinni.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja skil á lóðinni Hverfisgata 12.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu bæjarráðs.

    • 2010454 – Álhella 1, deiliskipulagsbreyting

      8.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 17.nóv. sl.
      Umsókn Kára Eiríkssonar dags. 20.10.2020 um breytingu á skilmálum lóðarinnar er vísað til skipulags- og byggingarráðs frá Afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa. Í stað þess að vera lóð fyrir varaaflstöð Landsvirkjunar verði lóðin í flokki B3, Nýtingarhlutfall verði skilgreint 0,5.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir að auglýsa breytingu á gildandi deiliskipulagi með vísan til 43. gr. skipulagslaga og vísar erindinu til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Til máls tekur Ingi Tómasson.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 2005141 – Kaldársel, Kaldárbotnar og Gjárnar, deiliskipulagsbreyting

      9.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 17.nóvember sl.
      Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 30. september sl. var samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir Kaldársel, Kaldárbotna og Gjánna þar sem gert var ráð fyrir stækkun á bílastæði. Samhliða var breyting á mörkum deiliskipulags fyrir Sléttuhlíð auglýst. Auglýsingatíma er lokið, engar athugasemdir bárust.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir deiliskipulagsbreytinguna fyrir sitt leyti og að erindinu verði lokið í samræmi við 42. gr. skipulagslaga. Erindinu er jafnframt vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Til máls tekur Ingi Tómasson.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 2009385 – Sléttuhlíð, breyting á skipulagsmörkum

      10.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 17.nóvember sl.
      Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 30. september sl. var samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna breytingu á mörkum deiliskipulags fyrir Sléttuhlíð auglýst. Samhliða var auglýst breyting á deiliskipulagi Kaldársels, Kaldárbotna og Gjánna þar sem gert var ráð fyrir stækkun á bílastæði. Auglýsingatíma er lokið, engar athugasemdir bárust.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir deiliskipulagsbreytinguna fyrir sitt leyti og að erindinu verði lokið í samræmi við 42. gr. skipulagslaga. Erindinu er jafnframt vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Til máls tekur Ingi Tómasson.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 1903239 – Kostir og gallar sumarlokunar leikskóla

      13. liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 18. nóvember sl.

      Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og óháðir og Viðreisn samþykkja að farin verði leið B. Samfylkingin og Miðflokkurinn sitja hjá í afstöðu sinni um þá leið sem farin verður. Málinu er vísað til mennta- og lýðheilsusviðs til úrvinnslu og framkvæmda.

      Fulltrúi leikskólastjóra lagði fram eftirfarandi bókun, fulltrúi starfsmanna leikskóla taka undir bókunina;
      Leikskólastjórar í Hafnarfirði ítreka mótmæli sín við sumararopnun leikskóla sumarið 2021 og minna á undirskriftir um það bil 400 starfsmanna leikskóla sem henni voru mótfallnir sem og þau faglegu rök sem undirskriftunum fylgdi og voru sendar inn til fræðsluráðs. Jafnframt minnum við á að Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla sendu frá sér ályktanir sem hvöttu Fræðsluráð til þess að falla frá ákvörðuninni.
      Leikskólastjórar telja að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og hagsmunir leikskólabarna séu ekki hafðir að leiðarljósi. Samráð við fagfólk leikskóla var ekkert fyrr en eftir að ákvörðun var tekin og þá fyrst sett á laggirnar starfshópur. Við teljum kostnað sem liggur til grundvallar þessari ákvörðun verulega vanáætlaðan. Þessi breyting er ekki til þess gerð að bæta starfsumhverfi innan leikskólanna og hætta er á að hlutfall fagfólks minnki og þá sérstaklega með tilkomu eins leyfisbréfs. Í könnun sem oft er vitnað til og var framkvæmd af fræðsluráði árið 2019 kom fram að 94% foreldra gátu verið með barninu sínu að hluta eða öllu leyti í sumarleyfi í núverandi fyrirkomulagi. Frá því könnunin var lögð fyrir hefur sumarorlof foreldra aukist þar sem allir eiga nú 6 vikur í orlof. Foreldrar eiga því 12 vikur samtals, 6 vikur hvort yfir sumarið sem nær vel yfir þessar 4 vikur sem leikskólinn lokar. Sjáum ekki að þessi aðgerð auki samveru barna og foreldra þar sem að eftir sem áður fara börnin í 4 vikna fríi.
      Oddfríður Sæbý Jónsdóttir, sign.

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra og Viðreisnar eftirfarandi leggja fram eftirfarandi bókun;
      Í skýrslu starfshóps kemur eftirfarandi fram;
      ?Markmið með sumaropnun er að koma til móts við óskir foreldra um að hafa leikskólann opinn í júlí og þannig auka möguleika á að foreldrar geti verið í sumarfríi á sama tíma og börn þeirra. Krafa um heilsársopnun er einnig í takt við nútíma samfélag, íslenskt atvinnulíf og rétt barna til að njóta sem flestra stunda með fjölskyldu sinni í fríi sínu?. Fulltrúar taka heilshugar undir þau markmið sem sett voru fram í skýrslunni.
      Í starfshópnum var unnið að leiðum sem höfðu minnstu möguleg áhrif á faglegt starf í leikskólum Hafnarfjarðar yfir sumartímann. Áhersla var lögð á starf og skipulag innan leikskólanna yrði með svipuðu móti og verið hefur og að sumaropnunin hefði ekki áhrif á öryggi barnanna og líðan þeirra í leikskólanum.
      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra og Viðreisnar hafa væntingar til þess að tryggt sé að sú leið sem farin verður við heilsársopnun leikskólanna muni ekki hafa áhrif á traust foreldra til starfsins og að starfsfólk leikskólanna sjái tækiæri í að þróa starfið í takt við þær breytingar sem verða vegna sumaropnunarinnar.
      Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og óháðir og Viðreisnar leggja til að farin verði leið B í skýrslu starfshóps, enda gengur sú leið lengra þegar kemur að hagsmunum barnanna þar sem fastráðnir starfsmenn taka frí frá mai – september eins og tíðkast víða á íslenskum atvinnumarkaði að mati þeirra. Þá er áhersla lögð á að gerð verði árangursmæling eins og lagt er til í skýrslunni svo bæta megi verklag ef á þarf að halda eftir sumarið 2021.
      Kristín María Thoroddsen, sign
      Bergur Þorri Benjamínsson, sign
      Margrét Vala Marteinsdóttir, sign
      Auðubjörg Ólafsdóttir, sign

      Fulltrúar Samfylkingar og Miðflokksins leggja fram eftirfarandi bókun;
      Með því að halda til streitu ákvörðun um að hafa leikskóla opna allt sumarið frá og
      með sumrinu 2021 telja fulltrúar Samfylkingar og Miðflokks að vegið sé að faglegu
      starfi innan leikskóla Hafnarjarðar.
      Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var vorið 2019 um hug starfsfólks og
      foreldra sýndi að einungis 19% þeirra starfsmanna sem svöruðu vildu breytt
      fyrirkomulag varðandi sumarlokanir leikskólanna. Í kjölfar ákvörðunar um
      sumarlokun mótmæltu síðan mikill meirihluti starfsmanna ákvörðuninni og lýstu yfir
      áhyggjum af faglegu starfi innan skólanna.
      Ákvörðun um að skipa starfshóp í kjölfar þessarar ákvörðunar virðist ekki hafa
      orðið til þess að slá á þessar óánægju raddir og sýnir bókun fulltrúa leikskóla það vel.
      Við tökum undir þær áhyggjuraddir og þykir miður að þetta hafi orðið niðurstaða starfshópsins
      Sigrún Sverrisdóttir, sign
      Hólmfríður Þórisdóttir, sign

      Lögð fram svohljóðandi tillaga í bæjarstjórn frá Friðþjófi Helga Karlssyni:

      “Lagt er til að bæjarstjórn ógildi ákvörðun fræðsluráðs um sumaropnun leikskóla og að bærinn haldi óbreyttu skipulagi. Nemendum skólana til heilla”.

      Til máls tekur Friðþjófur Helgi Karlsson.

      Þá tekur Kristín María Thoroddsen til máls og kemur Friðþjófur Helgi til andsvars sem Kristín svarar. Friðþjófur Helgi kemur þá til andsvars öðru sinni.

      Þá tekur Guðlaug Kristjánsdóttir til máls og leggur fram tillögu um að ákvörðun fræðsluráðs um sumaropnun leikskóla verði frestað um ár. Til andsvars kemur Kristín María Thoroddsen. Guðlaug svarar næst andsvari. Þá kemur Kristín María til andsvars öðru sinni.

      Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir. Til andsvars kemur Friðþjófur Helgi Karlsson.

      Einnig tekur til máls Sigurður Þ. Ragnarsson.

      Þá tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls öðru sinni. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson og svarar Friðþjófur andsvari. Þá kemur Kristín María til andsvars. Friðþjófur Helgi svarar andsvari.

      Einnig tekur Sigrún Sverrisdóttir til máls.

      Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls.

      Einnig tekur Sigrún Sverrisdóttir til máls öðru sinni.

      Þá tekur Guðlaug til máls öðru sinni og leggur fram svohljóðandi tillögu:

      Lagt er til að breytingu á sumarlokun leikskóla verði frestað um 1 ár, í ljósi krefjandi aðstæðna vegna Covid og þess álags sem það hefur valdið í leikskólum bæjarins, sem og óvissu um endanlegan kostnað. Óvissa í fjárhag bæjarins og álag á starfsfólk gefa ástæðu til að staldra við og skoða málið betur. Sá frestur gæfi líka tækifæri til betra samráðs við starfsfólk leikskólanna, sem hefur gert athugasemdir við að það samtal hafi hingað til verið af skornum skammti.

      Þá ber forseti upp þá tillögu sem lá fyrir fundinum í upphafi þ.e. að bæjarstjórn ógildi ákvörðun fræðsluráðs um sumaropnun leikskóla og að bærinn haldi óbreyttu skipulagi. Er tillagan felld með sjö atkvæðum frá meirihlutanum ásamt fulltrúa Viðreisnar sem greiða atkvæði gegn tilögunni. Aðrir fulltrúar greiða atkvæði með tillögunni.

      Forseti ber þá upp framkomna tillögu Guðlaugar Kristjánsdóttir um að ákvörðun fræðsluráðs um sumaropnun leikskóla verði frestað. Er tillagan felld þar sem sex fulltrúar meirihlutans greiddu atkvæði gegn tillögunni, fulltrúi Viðreisnar sat hjá og fulltrúar Miðflokksins, Samfylkingar og Bæjarlistans greiddu atkvæði með tillögunni.

      Friðþjófur Helgi Karlsson og Kristín María Thoroddsen gera grein fyrir atkvæðum sínum.

      Auk þess kemur Kristín María að svohljóðandi bókun:

      Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
      Í skýrslu starfshóps um sumaropnun leikskóla kemur eftirfarandi fram; „Markmið með sumaropnun er að koma til móts við óskir foreldra um að hafa leikskólann opinn í júlí og þannig auka möguleika á að foreldrar geti verið í sumarfríi á sama tíma og börn þeirra. Krafa um heilsársopnun er einnig í takt við nútímasamfélag, íslenskt atvinnulíf og rétt barna til að njóta sem flestra stunda með fjölskyldu sinni í fríi sínu“. Tekið er heilshugar undir þau markmið sem sett voru fram í skýrslunni. Í starfshópnum var unnið að leiðum sem höfðu minnstu möguleg áhrif á faglegt starf í leikskólum Hafnarfjarðar yfir sumartímann. Áhersla var lögð á að starf og skipulag innan leikskólanna yrði með svipuðu móti og verið hefur og að sumaropnunin hefði ekki áhrif á öryggi barnanna og líðan þeirra í leikskólanum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafa væntingar til þess að tryggt sé að sú leið sem farin verður við heilsársopnun leikskólanna muni ekki hafa áhrif á traust foreldra til starfsins og að starfsfólk leikskólanna sjái tækiæri í að þróa starfið í takt við þær breytingar sem verða vegna sumaropnunarinnar. Meirihluti tekur undir ákvörðun meirihluta fræðsluráðs um þá leið sem fara á í verklagi við sumaropnun enda gengur sú leið lengra þegar kemur að hagsmunum barnanna þar sem fastráðnir starfsmenn skipta með sér fríum frá maí – september eins og tíðkast víða á íslenskum vinnumarkaði. Þá er áhersla lögð á að gerð verði árangursmæling eins og lagt er til í skýrslunni svo bæta megi verklag ef á þarf að halda eftir sumarið 2021. Ítrekað er að fastráðið starfsfólk mun sinna starfi leikskólanna í júlí en starfsmenn Vinnuskólans 18 ára og eldri, munu bætast í hópinn eftir þörfum. Þess má geta að mennta- og lýðheilsusvið vinnur nú að undirbúningi innleiðingar breytinganna og kynningar fyrir starfsmenn.

      Einnig kemur Friðþjófur Helgi Karlsson að svohljóðandi bókun:

      Fulltrúar Samfylkingar leggja fram eftirfarandi bókun;
      Það er með ólíkindum hvernig málið hefur verið unnið og keyrt áfram af meirihlutanum í fullkominni andstöðu við starfsfólks leikskólanna í Hafnarfirði, stéttarfélög leikskólakennara og félags stjórnenda í leikskólum og stéttarfélagsins Hlífar í Hafnarfirði. Með því að halda til streitu þessari ákvörðun um að hafa leikskóla opna allt sumarið frá og með sumrinu 2021 telja fulltrúar Samfylkingarinnar að vegið sé alvarlega að faglegu starfi innan leikskóla Hafnarfjarðar. Þessi ákvörðun meirihlutans er óverjandi, hún er andlýðræðisleg og full af yfirlæti. Hún undirstrikar greinilega þá afstöðu meirihlutans að leikskólinn sé fyrst og fremst þjónustustofnun en ekki menntastofnun. Ekki fyrsta skólastigið sem leikskólinn svo sannarlega er og sem slíkt gríðarlega mikilvægt fyrir þróun okkar samfélags til framtíðar.

      Þá kemur Sigurður Þ. Ragnarsson að svohljóðandi bókun:

      Á tímum Covid höfum við hlustað á sérfræðinga sem ráðleggja okkur hvernig best sé að haga hlutunum til að forðast veiruna vondu.
      Sérfræðingar innan leikskólanna hafa tjáð sig og ráðlagt okkur að forðast sumaropnun leikskóla með velferð barnsins að leiðarljósi. En nú ber svo við að meirihlutinn í Hafnarfirði og Viðreisn skella skollaeyrum við ráðum okkar færustu sérfræðinga sem starfa innan leikskólans. Meirihlutinn og Viðreisn tala um að taka tillit til atvinnulífsins. En hvar er ábyrgðin gagnvart okkar yngstu nemendum á aldrinum þriggja til fimm ára sem hafa ekkert um það að segja með hverjum þeir verja átta til níu tímum á dag, í litlu rými og jafnvel án bestu félaga sinna eða starfsmanns sem þeir þekkja verði þessari ákvörðun um sumaropnun ekki snúið við?
      Skyldi nást að manna skólana með þeim hætti að starf haldist óbreytt og nemendur finni fyrir öryggi þegar þeir mæta í skólann sinn þar sem nýir starfsmenn fylla upp í sumarfrístíma kennaranna? Eða munu börnin upplifa kvíða og jafnvel verða fyrir kvíðaröskun en öll þekkjum við að breytingar valda, ekki síst börnunum okkar, kvíða og depurð. Sérfræðingar okkar í leikskólakerfinu í Hafnarfirði ráðleggja okkur eindregið frá því að fara þessa leið, að hafa leikskólana opna allt sumarið. Við eigum að hlusta á sérfræðingana okkar, það eru engir betri en þeir til að horfa á þetta faglega.

    Fundargerðir

    • 2001041 – Fundargerðir 2020, til kynningar í bæjarstjórn

      Fundargerð fræðsluráðs frá 18.nóvember sl.
      a. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 11.nóvember sl.
      Fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
      a. Fundargerðir hafnarstjórnar frá 4. og 6.nóvember sl.
      b. Fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 12.nóvember sl.
      c. Fundargerðir stjórnar SSH frá 27.október og 2.nóvember sl.
      Fundargerðir fjölskylduráðs frá 13. og 18.nóvember sl.
      Fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 17.nóvember sl.
      Fundargerðir umhverfis- og framkævmdaráðs frá 16. og 18.nóvember sl.
      Fundargerð forsetanefndar frá 23.nóvember sl.

      Til máls tekur Sigrún Sverrisdóttir undir 12. lið í fundargerð fræðsluráðs frá 18. nóvember sl.

      Þá tekur Kristín María Thoroddsen til máls undir liðum 8, 9 og 10 í fundargerð fræðsluráðs frá 18. nóvember sl.

    • 2001456 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2021 og 2022-2024, fyrri umræða.

      1.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
      Lögð fram fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans fyrir 2021 og langtímaáætlun fyrir 2022-2024.

      Lagðar fram gjaldskrár Hafnarfjarðarkaupstaðar 2021.

      Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir til fundarins.

      Bæjarráð vísar fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun og gjaldskrá Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2021 og langtímaáætlun fyrir 2022-2024 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

      Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

      Einnig Friðþjófur Helgi Karlsson og leggur hann jafnframt svohljóðandi tillögur við fjárhagsáætlun:

      Tillögur Samfylkingarinnar sem lagðar eru fram við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar 2021 í bæjarstjórn Hafnarfjarðar

      Sveitarfélögin eru stór í efnahagslegu samhengi á Íslandi. Allt sem við gerum hefur áhrif út í samfélagið. Við þurfum að gæta vel að þeim aðgerðum sem farið er í. Niðurskurður í rekstri getur sem dæmi komið í bakið á okkur í framtíðinni og birst okkur í ófyrirséðum félagslegum og fjárhagslegum vanda síðar.

      Það verður stóra verkefni okkar á næstu árum, ekki bara hjá sveitarfélögum eða okkur hér á Íslandi, heldur út um allan heim að fjárfesta í kerfisbreytingum á vinnumarkaði sem gera okkur kleift að flytja fólk úr störfum þar sem tæknin getur sinnt verkinu yfir í greinar sem þarfnast mannlegrar nándar.
      Svona umbreyting kostar fjárfestingu í lausnum, nýjum ferlum og kerfum. Það er mikilvægt að nýta tímann í núverandi niðursveiflu í að viðhalda þjónustustigi samhliða því að fjárfesta í nýrri þekkingu og nýjum lausnum í mennta-, félags- og velferðarmálum. Að fjárfesta ekki síður og kannski miklu frekar í fólki en steinsteypu.

      Það er skynsamlegast fyrir okkur í yfirstandandi efnahagsþrengingum að stórauka fjárframlög til nýsköpunar, mennta-, félags og velferðarmála og skapandi greina.

      Fjölga þarf störfum með beinum hætti, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Hvort tveggja er nauðsynlegt ? í atvinnukreppu er ekki tími til að karpa um hlutfallslegt vægi opinberrar þjónustu og einkareksturs. Nú er lag að ráðast í átak gegn undirmönnun í velferðarþjónustu og menntastofnunum en ljóst er að við núverandi aðstæður myndu niðurskurður og uppsagnir hjá sveitarfélögum dýpka og lengja kreppuna. Því er algjörlega nauðsynlegt að fjölga störfum í almannaþjónustu.

      1) Lagt er til að ráðið verði í 50 – 100% starf forvarnarfulltrúa.
      Mikilvægt er að ráðinn verði forvarnarfulltrúi í 50 – 100% starf sem heyra myndi undir íþrótta- og tómstundafulltrúa. Það er ljóst að ungt fólk hefur upplifað talsverða vanlíðan og erfiðleika í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar og einhver hópur hefur flosnað upp úr námi. Því er mikilvægt að setja inn aukið fé til að styðja við ungt fólk á þessum erfiðu tímum og koma í veg fyrir að það leiti í auknum mæli í neyslu og annan óheilbrigðan lífsstíl. Öflugar forvarnir eru afar mikilvægar til að hægt sé að takast á við eftirköst faraldursins og draga úr þeim skaða sem hann getur valdið hjá ungu fólki í samfélaginu.
      Vísa inn í fræðsluráð, íþrótta- og tómstundanefnd og bæjarráð

      2) Efla starfsemi Ungmennahúsana í Hafnarfirði
      Fjölga þarf stöðugildum og rekstrarfé til Hamarsins og Músík og Mótor svo efla megi starf þeirra enn frekar. Það er mikilvægt að ungu fólki, 16 ? 25 ára sé boðið upp á fjölbreytta þjónustu ekki hvað síst á þeim skrítnu og erfiðu tímum sem við lifum nú á. Það eru vísbendingar um verri andlega líðan þessa aldurshóps og meiri einangrun einstaklinga innan hans sem kalla á tafarlausar aðgerðir. Ungmennahúsin gegna mismunandi hlutverki í tómstundastarfi hafnfirskra ungmenna en hafa sameiginleg markmið um að stuðla að menningu og bættri þjónustu við ungmennin í gegnum þau verkefni sem þau taka þátt í. Hlutverk ungmennahúsanna er tvíþætt, annarsvegar að bjóða ungmennum upp á tómstundir sem hafa forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Hins vegar er hlutverk þeirra að bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi. Áhersla er lögð á fjölbreytileikann og að allir upplifi sig velkomna.
      Við leggjum því til að fjölgað verði um 2 stöðugildi í Hamrinum og 1 stöðugildi í Músík og Mótor á næsta fjárhagsári.

      Vísa inn í fræðsluráð, íþrótta- og tómstundanefnd og bæjarráð

      3) Þróunar- og nýsköpunarsjóður leik- og grunnskóla.

      Nýsköpunar- og þróunastarf er mikilvægur hluti skólastarfs. Við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu nú um stundir þá er afar mikilvægt að hvetja til þess að efla faglegt starf í skólum svo sem þróun kennsluaðferða og tækni sem hægt er að nota til hagsbóta fyrir nemendur í skólum bæjarins. Áætlað er að leggja 23 milljónir í þennan sjóð á næsta ári. Það er langt frá því að vera nóg við núverandi aðstæður. Því leggjum við til að lagðar verði 50 milljónir til viðbótar í þróunar- og nýsköpunarsjóð leik- og grunnskóla sem bæði opinberir aðilar og einkaðilar geta sótt fjármagn í til að þróa nýjar lausnir og aðferðir til hagsbóta fyrir hafnfirska nemendur.
      Vísa inn í fræðsluráð og bæjarráð

      4) Uppbygging leikskóla í Öldutúnsskólahverfi

      Við fulltrúar Samfylkingarinnar leggjum til að hafist verði handa án tafa við frekari uppbyggingu á leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla.

      Það er fyrirséð að með fjölgun íbúa í hverfinu, breytinga á aldurssamsetningu vegna endurnýjunar í hverfinu sem og með frekari áætlunum um lækkun á inntökualdri muni þörfin í hverfinu síst fara minnkandi og því mikilvægt að horfa til framtíðar. Ráðist verði þegar á næsta ári í að byggja upp þessa mikilvægu grunnþjónustu innan hverfisins með áherslu á að samnýta grunnstoðir leik- og grunnskóla og draga þannig úr aðgreiningu milli skólastiga.
      Vísa inn í fræðsluráð og bæjarráð

      5) Efla starf Brúarinnar með fjölgun stöðugilda.
      Fjölga þarf stöðugildum og efla enn frekar starf Brúarinnar. Það er ljóst að þverfaglegt starf í grunnskólum bæjarins hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú um stundir. Í kjölfar farsóttarinnar og þeirra efnahags- og félagslegu áhrifa sem hún hefur haft verður mikil þörf á að mæta nemendum í leik- og grunnskólum með markvissum hætti með snemmtækri íhlutun. Því er það tillaga okkar að í það minnsta tveimur stöðugildum verði bætt við til að efla þetta mikilvæga starf strax á næsta ári.

      Vísa inn í fjölskylduráð, fræðsluráð og bæjarráð

      6) Barnavernd fjölga stöðugildum til að mæta auknu álagi
      Það er ljóst að brýnt er að fjölga stöðugildum í barnavernd vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur þegar haft á samfélag okkar. Einnig er ljóst að þörfin á aðkomu barnaverndar verður ekki minni á komandi ári. Það er ekki viturlegt að láta okkar góða fagfólk sem við eigum hér í bænum á þessu sviði hlaupa bara hraðar og hraðar, það mun koma niður á þjónustunni til lengri tíma litið og leiða til kulnunar starfsfólks. Til að takast á við þau verkefni sem bíða okkar hér í bænum á næsta ári þá er að okkar mati nauðsynlegt að fjölga stöðugildum í barnavernd að minnsta kosti um tvö á næsta ári.
      Vísa inn í fjölskylduráð og bæjarráð

      7) Nýsköpun í velferðarþjónustu
      Komið verði á laggirnar þróunarsjóði sem ýtir undir nýsköpun í velferðarþjónustu. Mikilvægt er að fjárfesta í þekkingu í þeirri þjónustu sem krefst mannlegrar nándar. Samdóma álit hagfræðinga um allan heim er að efla þurfi velferðarþjónustu og hvetja til nýsköpunar hvort sem um er ræða verkefni, lausnir eða hugmyndir opinberra eða einkaaðila. Við leggjum því til að settar verði 50 milljónir í sjóð til efla velferðarþjónustu í sveitarfélaginu.
      Vísa inn í fjölskylduráð og bæjarráð

      8) Þjónusta við aldraða
      Gert er ráð fyrir minna fjármagni inn í þennan þjónustuþátt á næsta ári þegar við ættum einmitt að vera að efla þjónustuna eða í það minnsta að halda í horfinu á milli ára. Það er óásættanlegt að gert sé ráð fyrir 6% samdrætti í þjónustu við aldraða í sveitarfélaginu.
      Við leggjum til að horfið verði frá því og sett fram aukning sem nemur að minnsta kosti 3% við þennan lið í fjárhagsáætluninnni. Eldri íbúar bæjarins hafa margir hverjir búið við mikla einangrun undanfarin misseri. Það er því mikilvæg fyrir andlega og líkamlega heilsu þessa hóps að efla félagsstarf þeirra sem og aðra þjónustu við hann.
      Vísa inn í fjölskylduráð og bæjarráð

      9) Fjárfestum í menningu og listum
      Covid´19 ástandið hefur þýtt algjöran tekjubrest hjá listafólki í samfélagi okkar. Því er mikilvægt að bæta fjármagni í þennan málflokk og fjárfesta þar til framtíðar. Sérstaklega er mikilvæg að styðja við ungt hafnfirskt listafólk. Við leggjum til að settur verði upp vettvangur fyrir ungt fólk til listsköpunar og sýninga. Einnig að það verði settur á laggirnar sérstakur 20 milljón króna sjóður sem ætlaður er til að styðja við listafólk í bænum með sérstaka áherslu á ungt listafólk.
      Vísa inn í bæjarráði og menningar- og ferðamálanefnd

      10) Umhverfis- og auðlindastefna Hafnarfjarðar ? aðgerðir í loftslagsmálum
      Settar verði 50 milljónir í að fylgja eftir aðgerðaráætlun í umhverfismálum sem er hluti af umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðar. Svo hægt verði að sækja kröftuglega fram á hennar grunni. Fjármagn verði fengið með því að draga úr fjármagni til LED-lampavæðingar ljósastaura og til kaupa á jólalýsingu.

      Vísa inn í Umhverfis- og framkvæmdaráð og bæjarráð

      11) Grænn fjárfestingarsjóður ? nýsköpun í umhverfismálum
      Settar verði 50 milljónir í grænan fjárfestingasjóð. Í þann sjóð geti bæði opinberir aðilar sem og einkaaðilar sótt til að efla nýsköpun í umhverfismálum í sveitarfélaginu.
      Fjármagn verði fengið með því að draga úr fjármagni til LED-lampavæðingar ljósastaura og til kaupa á jólalýsingu.
      Vísa inn í Umhverfis- og framkvæmdaráð og bæjarráð

      12) Ráðast verði í framkvæmdir á Óla Run túni
      Uppbygging á grænum svæðum og útivistarsvæðum í bæjarlandinu, eykur lífsgæði og stuðlar að meiri útivist og samveru fjölskyldunnar. Sem aftur leiðir til betri andlegrar- og líkamlegrar heilsu. Mikilvæg fjárfesting til framtíðar sem mun borga sig margfalt þegar til lengri tíma er litið.

      Vísa inn í Umhverfis- og framkvæmdaráð og bæjarráð.

      13) Náttúruperlur í umhverfi okkar og þróun á útivistarsvæðum í Hafnarfirði

      Helgafell, kennileiti og skilti

      Það er mikilvægt fyrir Hafnarfjörð að vinna hratt og vel að betri og öruggari aðstæðum á svæðinu í kring um Helgafell.

      Á gönguleiðina upp á fellið þyrfti að setja kennileiti skilti eða eitthvað slíkt sem minnkar líkur á að fólk villist af leið sem gerist þar mjög reglulega og einnig flýtir það fyrir ef eitthvað kemur upp á ef sá sem lendir í vandræðum getur bent á kennileiti sem flýta fyrir því að hægt sé að staðsetja viðkomandi. Það vantar sárlega greinagóðar upplýsingar um svæðið í kring um Helgafell, að þar séu gefnar upp upplýsingar um gönguleiðir vegalengdir ofl. og farið yfir sögu og örnefni svæðisins. Umferðin um svæðið er mikil og þétt og við eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að auka á ánægju þeirra sem þar fara um og tryggja öryggi eftir því sem unnt er.
      Hvaleyrarvatn og umhverfi þess.

      Fara þarf í hugmyndavinnu að því að svæðið verði enn meiri útivistarparadís en hún er í dag það vantar bílastæði, hægt væri að fá skátana með okkur í lið að búa þar til allsherjar ævintýra og útivistarsvæði með baðaðstöðu útisturtum, góðri salernisaðstöðu, mun fleiri bekkjum og borðum fyrir grill og nesti yfirbyggðu grillskýli og svo mætti lengi telja. Skíða og sleðabekka við við Stórhöfða yrði svo frábær viðbót við þetta skemmtilega svæði.

      Leiksvæði fyrir þá sem stunda vetraríþróttir í bænum eða upplandinu
      Mikilvægt er að fara vinnu við að skoða aðstöðu í bænum fyrir skíða og brettafólk og svo auðvitað fyrir þá sem vilja renna sér á sleðum og þotum.
      Víðistaðatún væri kjörinn vettvangur fyrir þetta en einnig mætti hugsa sér að útbúa slíkt svæði á Holtinu við nýju göngubrúna yfir á Ásvelli, slíkt svæði væri þá bæði í göngufæri við Ásvellina, Holtið og jafnvel Suðurbæ að hluta. Skoða þarf möguleika á að flytja snjó og byggja jafnvel upp rampa og fleira þegar veður býður upp á það.

      Á skipulagi fyrir svæðið við Seldal og Stórhöfða er skíðabrekka. Skoða mætti vel möguleika á að fara nánari skipulagsvinnu á því svæði á næsta ári.

      Lagt er til settar verði 50 milljónir í undirbúning og framkvæmdir í tengslum við ofangreindar tillögur um náttúruperlur í umhverfi okkar og þróun á útivistarsvæðum í Hafnarfirði og verði þær teknar af liðnum uppbygging íþrótta- og útivistarsvæða og/eða af liðnum endurnýjun á perum í ljósastaurum bæjarins og jólalýsingu hans.

      Vísað inn í Umhverfis- og framkvæmdaráð og bæjarráð.

      14) Atvinnumál
      Öflugt atvinnulíf er undirstaða hvers samfélags. Mikilvægt er að til sé skýr og markmiðsbundin stefna í atvinnumálum í hverju sveitarfélagi. Því miður er slík stefna ekki til hér í Hafnarfirði í dag. Afar mikilvægt er að úr því verði bætt hið fyrsta.
      Öllum má ljóst vera að það er mikilvægt að sveitarfélagið kosti kapps um það að skapa hagkvæm skilyrði fyrir atvinnulífið og fyrirtækin í bænum. Til að tryggja skilvirka aðkomu Hafnarfjarðarbæjar að almennum og sértækum verkefnum er nauðsynlegt að móta skýra stefnu í atvinnumálum. Hafnarfjarðarbær á að leitast við að skapa kjörumhverfi þar sem einstaklingar og fyrirtæki sjá tækifæri í því að stofna til atvinnurekstrar. Bæjaryfirvöld eiga einnig að gera sér far um það að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að atvinnulíf í Hafnarfirði byggi á fjölbreytni, háu þekkingarstigi, sköpunarkrafti, öflugum útflutningi og verðmætasköpun.

      Við leggjum það því til að settar verði 15 milljónir í vinnu við gerð á metnaðarfullri atvinnustefnu og stefnumörkun á hennar grunni fyrir Hafnarfjörð á næsta fjárhagsári.
      Vísa inn í bæjarráð.

      15) Lækkun á launum bæjarfulltrúa

      Að lokum leggjum við til að laun bæjarfulltrúa verði lækkuð í það sem þau voru áður en til hækkunar þeirra kom í vor. Með því sparast fjármunir sem nýtast myndu vel í mörg mikilvæg verkefni í samfélaginu.
      Vísa inn í bæjarráð

      Við óskum eftir því að tillögunum verði vísað inni í viðeigandi ráð og/eða nefndir og fái þar góða og faglega umfjöllun.

      Til andsvars kemur Kristín María Thoroddsen og svarar Friðþjófur Helgi andsvari.

      Þá tekur Guðlaug Kristjánsdóttir til máls. Friðþjófur Helgi kemur til andsvars.

      Einnig tekur Sigurður Þ. Ragnarsson til máls og leggur fram svohljóaðndi tillögur við fjárhagsáætlun:

      Tillaga frá bæjarfulltrúa Miðflokksins við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021.
      Miðflokkurinn í Hafnarfirði telur mikilvægt að gæta fyllsta aðhalds í útgjöldum bæjarins í ljósi tekjufalls sem orðið hefur hjá sveitarfélaginu í fordæmalausu ástandi. Engu að síður leggur Miðflokkurinn til að veitt sé 10 milljónum króna til hreinsunar gatna til að draga úr svifryki í andrúmslofti að vetrarlagi í bænum.

      Greinargerð:
      Einn mesti orsakavaldur svifriks er slit sem bílar valda á gatnakerfinu ekki síst bílar á nagladekkjum. Á köldum dögum og þegar vindur er hægur mælist styrkur svifryks of oft yfir heilsuverndarmörkum. Við því verður að bregðast. Með átaki við þrif gatna með sérhæfðum götuþvottasóparabílum má draga verulega úr svifryki í andrúmslofti og fækka dögum þar sem svifryk fer yfir heilsuverndarmörk, íbúum til heilla.
      Er lagt til að málinu verði vísað til umhverfis og framkvæmdaráðs til ákvörðunar.

      Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls og leggur fram svohljóðandi tillögur við fjárhagsáætlun:

      Tillögur Viðreisnar
      1. Bæta við stöðugildi sálfræðings á fræðslusviði/Brúin (fræðslusvið)
      2. Auka fé til Hamarsisns ungmennhúss (fræðslusvið)
      3. Setja aukna áherslu á að vinna gegn félagslegri einangrun eldri borgara (fjölskyldusvið)
      4. Hraða snjallvæðingu bæjarins (stjornsýslusvið)
      5. Fjölga stöðugildum hjá Barnavernd (fjölskylduráð)
      6. Leggja fram nákvæma áætlun um hvenig söluandvirði hlutar Hafnarfjarðar verði ráðstafað (stjórnsýslusvið)
      7. Að auka starfstækifærum í gegnum Áfram verkefnið. (fjölskyldusvið)
      8. Að fara í umfangsmiklar aðgerðir til að fjölga og laga göngu/hlaupa og hjólastígum (Umhverfis og framkvæmdaráð)
      9. Að auka lóðaframboð (skipulagsráð)

      Einnig tekur Friðþjófur Helgi til máls öðru sinni.

      Forseti ber næst upp tillögu um að framkomnum tillögum að breytingum á fjárhagsáætlun verði vísað til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun í þeim ráðum sem þar er vísað til og þær eiga heima. Er það samþykkt samhljóða.

      Forseti leggur þá næst til að tillaga að fjárhagsáætlun 2021 og 2022 til 2024 verði vísað til annarrar umræðu í bæjarstjórn sem fari fram 16. desember nk. Er tillagan samþykkt samhljóða.

Ábendingagátt