Bæjarstjórn

28. apríl 2021 kl. 14:00

á fjarfundi

Fundur 1868

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri
  • Kristinn Andersen forseti
  • Sigurður Þórður Ragnarsson 1. varaforseti
  • Ágúst Bjarni Garðarsson 2. varaforseti
  • Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður
  • Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Friðþjófur Helgi Karlsson aðalmaður
  • Jón Ingi Hákonarson aðalmaður
  • Helga Ingólfsdóttir aðalmaður
  • Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir aðalmaður
  • Kristín María Thoroddsen aðalmaður

Mættir eru allir aðalbæjarfulltrúar.

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stýrði honum.

Ritari

  • Ívar Bragason Ritari bæjarstjórnar og bæjarlögmaður

Mættir eru allir aðalbæjarfulltrúar.

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stýrði honum.

  1. Almenn erindi

    • 0809375 – Ásvellir, Haukasvæði, breyting á deiliskipulagi

      5. liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 20. apríl sl.
      Lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi Haukasvæðisins. Breytingin gerir ráð fyrir færslu og snúningi á æfingarvelli, breytingu á gönguleiðum, girðingum. Gerð er grein fyrir staðsetningu fornleifa.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Haukasvæðis og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn. Málsmeðferð fari skv. 43. grein skipulagslaga.

      Til máls tekur Ingi Tómasson.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

      Adda María Jóhannsdóttir gerir grein fyrir atkvæði sínu.

    • 1701084 – Hamranes I, nýbyggingarsvæði

      7.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 20.apríl sl.
      Úthlutun lóða.
      Sigurður Haraldsson sviðsstjóri mætir til fundarins

      Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu umhverfis- og skipulagssviðs og verkefnastjóra:

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þróunarreit 30.B verði úthlutað til ÞG Verktaka ehf.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þróunarreit 31.C verði úthlutað Skugga 4 ehf.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þróunarreit 26.B verði úthlutað til Ístaks hf.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þróunarreit 29.B verði úthlutað til Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þróunarreit 33.C verði úthlutað til Flotgólfs ehf.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þróunarreit 32.C verði úthlutað til Nordic Holding ehf.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þróunarreit 27.B verði úthlutað til Lindabyggðar ehf / MótX ehf.

      Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þróunarreit 28.B verði úthlutað til Dverghamra ehf.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða framlagðar tillögur bæjarráðs.

    • 2104319 – Tinnuskarð 18, umsókn um lóð

      8. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 20.apríl sl.
      Lögð fram umsókn Arndísar Ósk Jónsdóttur um lóðina nr. 18 við Tinnuskarð.

      Alls bárust nítján umsóknir um lóðina og dró fulltrúi sýslumanns úr umsóknum. Var umsókn Arndísar Óskar Jónsdóttur dregin út og leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að lóðinni verði úthlutað til hennar.

      Til vara var dregin út umsókn Búvís ehf. og til þrautavara var dregin út umsókn OFG-Verk ehf.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu bæjarráðs um úthlutun lóðarinnar.

    • 2006310 – Íþrótta- og tómstundastyrkir, lágtekjuheimili, jöfn tækifæri barna til íþrótta og tómstundastarfs

      7.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 23.apríl sl.
      Lögð fram drög að nýjum reglum Hafnarfjarðar um úthlutun sérstakra íþrótta- og tómstundastyrkja fyrir börn á tekjulágum heimilum.

      Fjölskylduráð samþykkir nýjar reglur um úthlutun sérstakra íþrótta- og tómstundastyrkja fyrir börn á tekjulágum heimilum. Mikilvægt að þessar reglur verði kynntar sem fyrst og birtar á heimasíðu bæjarins.
      Vísað til bæjarstjórnar til samþykktar.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi reglur um úthlutun sérstakra íþrótta-og tómstundastyrkja fyrir börn á tekjulágum heimilum.

    Fundargerðir

    • 2101038 – Fundargerðir 2021, til kynningar í bæjarstjórn

      Fundargerð fræðsluráðs frá 21.apríl sl.
      a. Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 13.apríl sl.
      Fundargerð fjölskylduráðs frá 21.apríl sl.
      Fundargerð bæjarráðs frá 20.apríl sl.
      a. Fundargerðir menningar- og ferðamálanefndar frá 14. og 15.apríl sl.
      b. Fundargerð stjórnar SSH frá 31.mars sl.
      c. Fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 12.mars sl.
      Fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 20.apríl sl.
      Fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 21.apríl sl.
      a. Fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 12.mars sl.
      b. Fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 9.apríl sl.
      Fundargerð forsetanefndar frá 26.apríl sl.

      Friðþjófur Helgi Karlsson tekur til máls undir 1. lið í fundargerð fjölskylduráðs frá 23. apríl sl. Helga Ingólfsdóttir kemur til andsvars og svarar Friðþjófur Helgi andsvari.

      Friðþjófur Helgi Karlsson tekur til máls undir 4. lið í fundargerð fræðsluráðs frá 21. apríl sl. Kristín María Thoroddsen kemur til andsvars sem Friðþjófur Helgi svarar.

      Þá tekur Adda María Jóhannsdóttir til máls einnig undir 4. lið í fundargerð fræðsluráðs frá 21. apríl sl. Einnig tekur Sigurður Þ. Ragnarsson til mál undir sama máli. Til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir og svarar Sigurður andsvari. Adda María kemur að stuttri athugasemd. Þá kemur Kristín María til andsvars við ræðu Sigurðar.

    Áætlanir og ársreikningar

    • 2104001 – Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2020, síðari umræða

      13.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 14.apríl sl.
      1. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 8.apríl sl.
      Lagt fram.
      Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir til fundarins.

      Bæjarráð vísar ársreikningi bæjarsjóðs Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2020 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

      Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir. Til andsvars kemur Friðþjófur Helgi Karlsson.

      Einnig taka til máls Jón Ingi Hákonarson, Guðlaug Kristjánsdóttir, Sigurður Þ. Ragnarsson.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningum til síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar sem fram fer miðvikudaginn 28. apríl nk.

      1.liður úr fundargerð hafnarstjórnar frá 26.apríl sl.
      Ársreikningur Hafnarfjarðarhafnar fyrir árið 2020 tekinn til síðari umræðu.

      Hafnarstjórn samþykkir ársreikninginn og leggur til við bæjarstjórn að staðfesta hann.

      Til máls taka þau Rósa Guðbjartsdóttir, Jón Ingi Hákonarson, Adda María Jóhannsdóttir, Guðlaug Krsitjánsdóttir, Sigurður Þ. Ragnarsson, Friðþjófur Helgi Karlsson.

      Ársreikningur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans fyrir árið 2020 er næst borinn upp til samþykktar og er hann samþykktur með 10 atkvæðum en Sigurður Þ. Ragnarsson situr hjá við atkvæðagreiðsluna.

      Ágúst Bjarni Garðarsson kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks:

      “Fjármál Hafnarfjarðarbæjar í traustum höndum

      Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2020 ber vott um að fjármálastjórn bæjarins sé traust og sýnir að brugðist hefur verið af ábyrgð við þeim skakkaföllum sem grunnrekstur sveitarfélaga hefur almennt orðið fyrir. Afleiðingar Covid-19 drógu úr tekjum og juku útgjöld á síðasta ári og munu einnig gera það á þessu ári og hugsanlega lengur. Bærinn hefur einnig þurft að bregðast við öðrum ófyrirséðum útgjöldum, m.a. vegna lífeyrisskuldbindinga, kjarasamninga o.fl.
      Fjármálastjórnunin hefur fyrst og fremst snúist um varnarbaráttu í því einstaka efnahagslega umhverfi sem blasir við. Gripið hefur verið til fjölmargra ráðstafana í rekstri bæjarins til þess að mæta breyttum aðstæðum og hefur verið lögð áhersla á að skerða ekki þjónustu og að halda uppi framkvæmdum. Aðgerðir hafa snúist um að treysta efnahagslegar undirstöður til framtíðar m.a. með eignasölu, sem dregur verulega úr þörf á skuldsetningu. Salan á hlut bæjarins í HS Veitum var mikilvæg í því tilliti og einnig hefur lóðasala verið góð. Hvorutveggja styrkir stöðu bæjarins til þess að sækja fram án þess að hætta sé á að skuldsetning bæjarins stefni aftur í fyrra horf. Nú er svo komið að skuldaviðmið bæjarins hefur ekki verið lægra í áratugi og gefur því aukið svigrúm til fjárfestinga, að efla þjónustuna og til að mæta sveiflum í hagkerfinu. Það er uppgangur í Hafnarfirði og framtíðin er björt.”

      Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

      Fulltrúi Viðreisnar bókar eftirfarandi
      Það er nú ljóst að Kófið hafði ekki þau neikvæðu áhrif sem meirihluti bæjarstjórnar óttaðist frá fyrsta degi faraldursins þar sem tekjufall var talið óhjákvæmilegt ásamt gríðarlegri aukningu útgjalda vegna Kófsins. Ársreikningurinn sýnir hins vegar allt aðra niðurstöðu. Reglulegar tekjur jukust og sala á lóðum jókst.
      Reglulegur rekstur A hluta bæjarsjóðs, þegar einskiptis söluhagnaður HS veitna er tekinn út fyrir sviga, skilar 1,7 milljarða taprekstri þrátt fyrir hækkun skatttekna. Ástæður þessa taprekstrar er fyrst og fremst vegna hækkunar launaliðar og endurútreiknings á lífeyrisskuldbindingum. Þessi hækkun nemur um fjórum milljörðum.
      Það er því ljóst að ekki er hægt að rekja nema að litlu leyti hækkun rekstrarkostnaðar til Kófsins.
      Lántökur jukust um hálfan milljarð milli ára og fjárfestingar voru rúmlega milljarði minni en árið 2019, en ein helsta röksemdarfærslan fyrir sölunni á hlut bæjarins í HS veitum var sú að halda þyrfti uppi fjárfestingarstiginu í þessari krísu.
      Ársreikningur Hafnarfjarðar fyrir árið 2020 markast fyrst og síðast af bókhaldslegum fegrunaraðgerðum til að breiða yfir vangetu Sjálfstæðisflokksins undanfarin sjö ár til að leiða Hafnarfjörð til velmegunar og velsældar. Það má draga þá ályktun að Kófið hafi verið nýtt sem fullkomin afsökun til að selja innviðafyrirtæki á einokunarmarkaði á undirverði.

      Adda María Jóhannsdóttir kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar:

      Ársreikningur 2020 ? Bókun xS
      Nú, ári eftir að fyrstu aðgerðir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru voru samþykktar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, gerum við upp ársreikning fyrir árið 2020, sem hefur verið sérstakt, jafnvel fordæmalaust. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar stóð þétt saman varðandi þær aðgerðir, jafnt meirihluti sem minnihluti. Það voru því mikil vonbrigði þegar fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks rufu þá góðu samvinnu með því að taka ákvörðun um að selja hlut sveitarfélagsins í HS Veitum á undirverði, án samráðs við fulltrúa minnihluta eða hina raunverulegu eigendur, íbúa.

      Samfylkingin hefur frá upphafi lagst gegn sölunni á hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum og höfum við verið þeirrar skoðunar að þrátt fyrir mögulegar efnahagslegar áskoranir sem kynnu að fylgja faraldrinum, væri sala og einkavæðing á samfélagslega mikilvægum grunnstoðum ekki rétta leiðin til að standa undir auknum útgjöldum. Við höfum einnig talið að slík ákvörðun ætti að vera síðasta úrræði frekar en fyrstu viðbrögð, þar sem enn var verið að vinna tillögur um aðgerðir og viðbrögð, m.a. hver aðkoma ríkisins gagnvart sveitarfélögunum yrði.

      Frá upphafi höfum við einnig dregið í efa að sala á hlutnum væri fjárhagslega betri kostur en lántaka miðað við markaðskjör og framreiknaðar arðgreiðslur til lengri tíma. Við erum enn þeirrar skoðunar og sá ársreikningur sem hér er lagður fram styður hana.

      Ársreikningur ársins 2020 sýnir að samdráttur vegna Covid-19 var minni en óttast var í upphafi. Hagvöxtur var einnig meiri en gert hafði verið ráð fyrir og lóðasala fór fram úr væntingum. Líkur eru hins vegar á að neikvæðra efnahagslegra áhrifa muni gæta á tekjur og útgjöld sveitarfélagsins a.m.k. út árið 2021.

      Það er einnig áhyggjuefni að þrátt fyrir 3,3 milljarða króna hagnað af sölu hlutarins í HS-veitum er veltufé frá rekstri í sögulegu lágmarki og hlutfall skulda hefur aukist á milli ára. Hvernig fulltrúar meirihlutans ætla að vinna sig út úr þeirri stöðu á kosningaári er óljóst en sú einskiptis aðgerð að selja hlut sveitarfélagsins í HS Veitum mun ekki leysa þann vanda til lengri tíma.

      Adda María Jóhannsdóttir
      Friðþjófur Helgi Karlsson

      Sigurður Þ. Ragnarsson kemur þá að svohljóðandi bókun:

      Bæjarfulltrúi Miðflokksins, Sigurður Þ. Ragnarson, leggur fram eftirfarandi bókun:
      Enn hækka skuldir sveitarfélagsins og nú þrátt fyrir sölu á hlut sínum í HS-veitum sem seld var á 3,3 milljarða króna. Þannig voru tekin lán uppá 3,8 milljarða króna. Greiddar afborganir af lánum námu 3,2 milljörðum króna. Skuldahlutfall sveitarfélagsins hækkar úr 159% í 161%, sem þýðir að enn eru skuldir sveitarfélagsins að hækka og stóðu um síðustu árámót í ríflega 50 milljörðum króna. Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins jukust hins vegar um ríflega 4,7 milljarða frá 2019. Þetta er grafalvarleg staða og sýnir að rekstur sveitarfélagsins er ekki sjálfbær og enn mun harðna á dalnum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með stjórnartaumana í samfellt 7 ár og nú er svo komið að íbúum fækkaði milli ára um 234 skv. Hagstofu Íslands. Þetta er algjör öfugþróun miðað við nágrannasveitarfélögin sem hefur bein áhrif á tekjur sveitarfélagsins.
      Meirihlutinn hampar mjög að skuldaviðmið hafi lækkað. Sem er rétt svo langt sem það nær. En skuldaviðmið er reiknuð stærð þar sem búið er að draga frá a) leiguskuldbindingar frá ríkissjóði, b) lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins, nú að andvirði um 9,5 milljarðar króna, c) andvirði veltufjármuna um áramót að andvirði um 9 milljarðar króna. Skuldaviðmiðið telur því fjarri allar skuldir sveitarfélagsins og er fyrst og fremst reiknuð stærð til að nota sem viðmið sem sveitarfélög mega ekki ekki má fara yfir, og er það viðmið nú 150%.
      Þannig væri skuldaviðmiðið ef salan á HS-veitum uppá 3,3 milljarða væri ekki talin með, ca 113% í stað 101%. Skuldaviðmiðið var 112% í árslok 2019 og vakti það mikinn fögnuð meirihlutans hve lág sú tala væri. Þetta sýnir að algjörlega ótímabært var að fara á taugum við upphaf Covid-faraldursins með sölu á HS-veitum, ekki síst þar sem ríkisvaldið hefur nú loks áttað sig á mikilvægi þess að lagfæra þurfi tekjustreymi til sveitarfélaga landsins til að takast á við þann vanda. Á þetta benti bæjarfulltrúi Miðflokksins á sínum tíma.
      Handbært fé frá rekstri A og B hluta er neikvætt um 2,5 milljarða króna, en handbært fé er sá afgangur sem ætlaður er til greiðslu lána og til fjárfestinga. Það er því ljóst að áfram þarf að taka lán til reksturs sveitarfélagsins og rekstur sveitarfélagsins fjarri því sjálfbær. Spurning hvað meirihlutanum dettur í hug að selja næst til að láta bókhaldið líta betur úr. Höfnina eða jarðhitaréttindi í Krísuvík? Hver veit.
      Staða Hafnarfjarðar er því mun alvarlegri en látið er í veðri vaka.

      Guðlaug Kristjánsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

      Bókun fulltrúa Bæjarlistans
      Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2020 inniheldur umtalsverðar óreglulegar tekjur vegna sölunnar á HS Veitum. Gott hefði verið að gera grein fyrir rekstrarniðurstöðu fyrir óreglulega liði til að aðgreina þessa stærð með skýrum hætti. Það hefði sýnt að rekstrarniðurstaða bæjarins fyrir óhefðbundna liði var neikvæð um rúma 1,7 milljarða, þrátt fyrir að tekjur hefðu aukist milli ára.
      Við gerð fjárhagsáætlunar árið 2020 ríkti talsverð óvissa vegna Covid19 faraldursins og áskorun í því fólgin að sjá fyrir áhrif hans á fjárhag og rekstur sveitarfélaga. Í baksýnisspeglinum verður að segjast að áhrifin reyndust mun minni en á horfðist hér í Hafnarfirði.
      Veltufé frá rekstri heldur þó áfram að lækka eins og það hefur gert á þessu kjörtímabili og stendur nú í 1,5% fyrir A hlutann. Enda hækka skuldir bæjarins enn. Reksturinn stendur því alls ekki á traustum eða sjálfbærum grunni heldur mun frekar á hálum ís.
      Reksturinn á bæjarsjóði hefur verið í járnum á þessu kjörtímabili og er það enn. Næsta ár er kosningaár með tilheyrandi áhættu hvað útgjaldaaukningu varðar og áhrif heimsfaraldursins á sveitarfélög eru ekki enn að fullu ljós. Það eru því krefjandi tímar framundan hvað fjármálastjórnina varðar.
      Niðurstaða ársins 2020 réttlætir engan veginn sölu meirihlutans á hlut bæjarbúa í grunninnviðunum HS Veitum. Bæjarlistinn mótmælti þeirri aðgerð harðlega og nú er orðið ljóst að hún var vissulega illa ígrunduð, fljótfær og alls ekki knúin áfram af þeirri þörf sem haldið var fram.
      Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hefur þannig fækkað þeim kostum sem okkur standa til boða á næstu árum til að bregðast við langtímaáhrifum Covid19.

Ábendingagátt