Bæjarráð

16. nóvember 2023 kl. 08:15

í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6

Fundur 3643

Mætt til fundar

  • Valdimar Víðisson formaður
  • Rósa Guðbjartsdóttir varamaður
  • Kristinn Andersen aðalmaður
  • Guðmundur Árni Stefánsson aðalmaður
  • Sigrún Sverrisdóttir aðalmaður
  • Jón Ingi Hákonarson áheyrnarfulltrúi

Ritari

  • Sigurður Nordal sviðsstjóri
  1. Almenn erindi

    • 2208539 – Neyðarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar 2022-2026

      Til umræðu

      Bæjarstjóri skýrði frá hlutverki og verkefnum neyðarstjórnar og framkvæmdastjórnar almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins og fór yfir stöðu mála. Bæjarráð sendir Grindvíkingum hlýjar kveðjur og leggur áherslu á að Hafnarfjarðarbær veiti þeim allan þann stuðning sem þörf krefur til lengri sem skemmri tíma.

    • 2311403 – Útboð, ræsting stofnana bæjarins 2024-2028

      Bæjarráð tekur undir tillögu innkauparáðs um að ganga til samninga við lægstbjóðanda sem var með hagstæðasta tilboðið samkvæmt valforsendum útboðslýsingar.

      Vísað í bæjarstjórn til staðfestingar.

    • 2310709 – Lántaka 2023

      Lagt fram minnisblað. Helga Benediktsedóttur sviðsstjóri mætir til fundarins.

      Bæjarráð leggur til að bæjarstjórn samþykki eftirfarandi bókun. Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 1.500.000.000,- en í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2023 er heimild til lántöku allt að kr. 3.500.000.000,-. Lántakan samanstendur af kr. 925.000.000,- láni í skuldabréfaflokknum LSS 55 og kr. 575.000.000,- láni í skuldabréfaflokknum LSS 39 og hefur bæjarstjórn kynnt sér skilmála að lánssamningi sem liggur fyrir..Skuldabréfaflokkurinn LSS 55 er verðtryggður skuldabréfaflokkur með fasta 2,50% vexti en er lánaður á ávöxtunarkröfunni 4,15%. Skuldabréfaflokkurinn er með jöfnum afborgunum tvisvar á ári og getur verið allt til 33 ára en er með uppgreiðsluheimild í nóvember 2035 og 2045. Skuldabréfaflokkurinn LSS 39 er verðtryggður skuldabréfaflokkur með fasta 4,15% vexti, jöfnum afborgunum tvisvar á ári og er til 13 ára. Ekki er hægt að greiða þennan skuldabréfaflokk upp fyrir lokagjalddaga. Bæjarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og

      framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum við íþróttamannvirki sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Jafnframt er Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, kt. 291165-3899, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hafnarfjarðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns. Vísað í bæjarstjórn til staðfestingar.

    • 2302533 – Kaplakriki, fasteignir, eignarhald

      Lagt fram minnisblað. Helga Benediktsdóttir sviðsstjóri mætir til fundarins.

      Lagt fram.

    • 2311186 – Cuxhaven, jólatré 2023

      Lagt fram bréf þar sem tilkynnt er um jólatré að gjöf frá Cuxhaven

      Bæjarráð þakkar vinum okkar í Cuxhaven fyrir höfðinglega gjöf. Kveikt verður á trénu við hátíðlega athöfn þann 17. nóvember nk.

    • 2311253 – Fjárhagsáætlun Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins 2024 og gjaldskrá

      Umræða um fjárhagsáætlun skíðasvæða og bókun samstarfsnefndar.

      Bæjarráð samþykkir framlagða fjárhagsáætlun skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2024 og gjaldskrá.

      Hlutdeild Hafnarfjarðar er rúm 12%. Framlag Hafnarfjarðar vegna reksturs á árinu 2024 verður rúmlega 36 milljónir og framlag vegna fjárfestingar verður rúmlega 40 milljónir kr.

      Bæjarráð tekur undir bókun samstarfsnefndar.

      Vísað í bæjarstjórn til staðfestingar.

      Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar samþykkja áætlun um rekstur og uppbyggingu í Bláfjöllum, en minna enn og aftur á samþykkt bæjarstjórnar, að Bláfjallavegur ofan Hafnarfjarðar verður opnaður hið allra fyrsta.

    • 2311243 – Kvartmílubraut, þyrluflug

      Lagður fram tölvupóstur frá Kvartmíluklúbbnum þar sem óskað er leyfi fyrir þyrlulendingar á svæði klúbbsins við félagsheimilið, útsýnisflug.

      Lagt fram.

    • 2307268 – Hringhamar 43, hjúkrunarheimili og heilsugæsla, tilboð

      Lögð fram drög að viljayfirlýsingu.

      Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og leggur til að því verði fylgt eftir með samtali við hlutaðeigandi aðila.

      Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir því að fulltrúar Sóltúns komi hið fyrsta á fund bæjarráðs. Og eins óskað eftir að forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins komi á fund ráðsins.

    • 2310364 – Baughamar 13, reitur 33.C, deiliskipulag

      10.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 2.nóvember sl.
      Hákon Barðason f.h. lóðarhafa leggur 09.10.2023 inn deiliskipulagsuppdrætti reits 33.C. Tillagan gerir ráð fyrir lóðarstækkun um tæpa 600fm, 52 íbúðum í tveimur 6 hæða fjölbýlishúsum auk bílakjallara og samfélagsrýmis.

      Skipulags- og byggingarráð vísar erindi um lóðarstækkun til umfjöllunar í bæjarráði.

      Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs.

      Bæjarráð tekur undir umsögn umhverfis- og skipulagssvið og samþykkir framlagða beiðni um lóðarstækkun.

    • 2310935 – Vitinn við Vitastíg, viðhald

      5.liður úr fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 31.október sl.
      Lagt fram erindi varðandi viðhald á vitanum á milli Hverfisgötu og Vitastígs og umhverfis hans.

      Umhverfis- og framkvæmdaráð vísar erindi varðandi lóðarkaup til bæjarráðs.
      Viðhaldi vitans er vísað til hafnarstjórnar. Umhverfis- og skipulagssvið falið að skoða mögulega færslu vitans. Bæjarminjaverði falið að skoða varðveislugildi vitans og heimild til flutnings.

      Lagt fram.

    • 2311001 – Koparhella 1, fyrirspurn

      Lögð fram fyrirspurn um lóðarstækkun.
      Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs liggur fyrir.

      Lagt fram.

    • 2310716 – Lónsbraut 6, endurnýjun lóðarleigusamnings

      1.liður úr fundargerð hafnarstjórnar frá 1.nóvember sl.
      Lögð fram drög að endurnýjuðum leigusamningi fyrir lóðina Lónsbraut 6.

      Hafnarstjórn samþykkir framlagðan lóðaleigusamning og vísar honum til afgreiðslu í bæjarráði.

      Bæjarráð samþykkir framlagðan lóðaleigusamning.

    • 1612151 – Hverfisgata 22,lóðarleigusamningur

      Lögð fram drög að endurnýjun lóðarleigusamnings fyrir Hverfisgötu 22.

      Bæjarráð samþykkir framlagðan lóðaleigusamning.

    • 2311233 – Axlarás 3, umsókn um lóð

      Lögð fram umsókn Friðriks Ottesen og Evu Gunnarsdóttur um lóðina nr. 3 við Axlarás.

      Þrjár umsóknir bárust um lóðina og dró fulltrúi sýslumanns úr umsóknum. Dregin var út umsókn Friðriks Ottesen og Evu Gunnarsdóttur Til vara: Orri Pétursson og Kristín Ingadóttur. Bæjarráð samþykkir að úthluta lóðinni í samræmi við útdrátt og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar.

    • 2311171 – Axlarás 3, umsókn um lóð

      Lögð fram umsókn Íbygg hf. um lóðina nr. 3 við Axlarás

      Þrjár umsóknir bárust um lóðina og dró fulltrúi sýslumanns úr umsóknum. Dregin var út umsókn Friðriks Ottesen og Evu Gunnarsdóttur Til vara: Orri Pétursson og Kristín Ingadóttur. Bæjarráð samþykkir að úthluta lóðinni í samræmi við útdrátt og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar.

    • 2310543 – Axlarás 3, umsókn um lóð

      Lögð fram umsókn Orra Péturssonar og Kristínar Ingadóttur um lóðina nr. 3 við Axlarás.

      Þrjár umsóknir bárust um lóðina og dró fulltrúi sýslumanns úr umsóknum. Dregin var út umsókn Friðriks Ottesen og Evu Gunnarsdóttur Til vara: Orri Pétursson og Kristín Ingadóttur. Bæjarráð samþykkir að úthluta lóðinni í samræmi við útdrátt og vísar til bæjarstjórnar til staðfestingar.

    • 2310424 – Virkisás 22, umsókn um lóð, skil

      Lagður fram tölvupóstur frá lóðarhafa að Virkisás 22 þar sem óskað er eftir að afsala sér lóðarúthlutun á lóðinni nr. 22 við Virkisás.

      Samþykkt og vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.

    • 2211791 – Hryggjarás 18, umsókn um lóð, úthlutun, skil

      Lagður fram tölvupóstur frá lóðarhöfum að lóðinni nr. 18 við Hryggjarás þar sem óskað er eftir að afsala sér lóðarúthlutun á lóðinni nr. 18 við Hryggjarás.

      Samþykkt og vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.

    • 2311370 – Fjölskylduhjálp Íslands, söfnun

      Lagt fram bréf frá Fjölskylduhjálp Íslands þar sem óskað er eftir frjálsu framlagi til stuðnings starfseminni.

      Vísað til afgreiðslu í fjölskylduráði.

    • 2308876 – Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2024 og 2025-2027

      11.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 8.nóvember sl.
      1.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 31.október sl.
      Lögð fram fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans fyrir 2024 og langtímaáætlun 2025-2027.
      Lagðar fram gjaldskrár Hafnarfjarðarkaupstaðar 2024.
      Helga Benediktsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs og Guðmundur Sverrisson rekstrarstjóri hagdeildar mæta til fundarins.

      Bæjarráð vísar fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2024 og 2025-2027 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

      Til máls taka Valdimar Víðisson einnig Guðmundur Árni Stefánsson. Valdimar kemur til andsvars sem Guðmundur Árni svarar.

      Þá tekur Jón Ingi Hákonarson og leggur fram svohljóðandi tillögur að viðbótum við fjárhagsáætlun:

      Tillögur Viðreisnar vegna fjárhagsáætlunar 2024

      Fræðsluráð

      Að taka frá fjármagn til að fara í markvissa vinnu er snýr að skólamáltíðum.

      Nú er samningurinn við fyrirtækið sem sér um þessa þjónustu í dag á tímamótum og gjaldskráin hefur hækkað umtalsvert á skömmum tíma. Hæst er umræðan í grunnskólum. Kallað hefur eftir endurskoðun á skólamáltíðum bæjarins, bæði frá fulltrúa Viðreisnar og um að þessi mál verði endurskoðuð með fjölbreytni i huga og skoðaðar nýjar leiðir. Því óskum við eftir því að settur verður á laggirnar starfshópur um skólamáltíðir. Í starfshópnum séu kjörnir fulltrúar frá öllum flokkum, starfsmaður frá sviðinu, fulltrúi frá ungmennaráði, og fulltrúi starfsmanna grunnskóla, kennara og skólastjórnenda og fulltrúi frá foreldraráði. Starfshópnum verði falið að kynna sér hvernig máltíðum er háttað í nærliggjandi sveitafélögum. Geti kallað eftir tölulegum gögnum. Fá upplýsingar um fjölbreyttar útfærslur að útboði. Geti unnið vel að tillögum fyrir skóla Hafnarfjarðarbæjar. Tillögurnar verði svo kynntar fyrir fræðsluráð. Einnig verði kannað hvort og hvar væri hægt að koma upp eldhúsi í skólum Hafnarfjarðar, líkt og í Áslandsskóla út frá kostnaði, gæðum matarins og matarsóun.

      Að fjölga sálfræðingum í grunnskólum bæjarins um einn

      Að frístudnarstyrkir hækki í takt við vísitöluhækkanir

      Að frístundaakstur bæjarins verði útvíkkaður til eldri aldurshópa með niðurgreiðslu á árskortum í strætó.

      Í dag er frístundabíllinn undir tómstundum og því hluta til í þessu ráði. Því leggur fulltrúi Viðreisnar til að í Fjárhagsáætlun Fræðsluráðs verði skoðaðar leiðir til þess að fjármagna niðurgreiðslu árskorta barna og ungmenna í strætó. Það sé bæði ávinningur fyrir strætó, til þess að halda áfram að geta þjónustað og ýtir undir að framtíðarkynslóðir nýti sér almenningsamgöngur.

      Hugmyndir um vinnuskóla Hafnarfjarðar og stefna í þeim málum sé endurskoðuð með fjölbreytni í huga.

      Markmiðið sé að mæta ungmennum sem eru að taka sín fyrstu skref á íslenska vinnumarkaðnum. Setti verði starfshópur á laggirnar til að endurskoða stefnu vinnuskólans. Hægt er að nýta sér niðurstöðu vinnuhóps Hafnarfjarðarbæjar sem skilaði af sér fyrir um 3- 4 árum.

      Umhverfis og framkvæmdaráð

      Að sett verði aukið fjármagn til að mæta uppsafnaðri viðhaldsþörf hjá grunn- og leikskólum bæjarins

      Áherslu á að nauðsynlegt fjármagn verði tryggt til að bæta loftgæði og hljóðvist ásamt því að bæta og laga grunn- og leikskólalóðir

      Fjölskylduráð

      Viðreisn leggja það til að fyrirhuguðum hækkunum á gjaldskrá bæjarins sé stillt í hóf. Þessar hækkanir munu leggjast einkar hart á Hafnfirðinga í því vaxta- og verðbólguumhverfi sem við búum við í dag og höfum gert undanfarnar vikur og mánuði

      Skipulags og byggingarráð

      Fulltrúi Viðreisnar leggur til að lagt verði fjármagn í það verkefni að auka skilvirkni og gæði í skipulagsvinnu og byggingareftirliti. Meðal þátta sem vert er að kanna eru: Hvort möguleikar séu til einföldunar á skipulagsferlum. Hvort hægt er að auka sjálfvirkni í afgreiðslu erinda varðandi skipulag og byggingarleyfi með breyttum verkefnastjórnunaraðferðum og aukinni notkun stafrænnar tækni. Hvort hægt er að innleiða stafrænar lausnir á borð við gervigreind og stór-gagnagreiningar við skipulagsgerð m.a. við mat á þörf á innviðauppbyggingu fyrir ný hverfi og mat á umhverfisáhrifum mismunandi skipulagskosta. Hvort hægt er að nota fyrrnefndar stafrænar lausnir við áhættumat og skipulag eftirlits með mannvirkjagerð. Auk þess verði kannaðir möguleikar á þáttöku í samevrópskum skipulagsverkefnum s.s. URBACT verkefnum um sjálfbæra byggðaþróun og Smart City verkefnum. Æskilegt væri að ráðstafa allt að 10 milljónum í þetta verkefni á árinu 2024.

      Bæjarráð

      Viðreisn leggur til að bæjarráð samþykki með formlegum hætti það að gatnagerðargjöld verði ekki bókfærð sem rekstrartekjur heldur séu dregin frá fjárfestingarlið eins og öll önnur sveitarfélög gera.

      Viðreisn leggur til hækkun framlaga til Markaðsstofu Hafnarfjarðar þannig að hægt verði að vera með framkvæmdastjóra í fullu starfi.

      Til andsvars kemur Kristín María Thoroddsen. Jón Ingi svarar andsvari.Kristín María kemur til andsvars öðru sinni sem Jón Ingi svarar.

      Þá tekur Kristín Thoroddsen til máls.

      Þá tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls og leggur fram svohljóðandi tillögur að viðbótum við fjárhagsáætlun:

      Tillögur Samfylkingarinnar við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar 2024

      1. Uppbygging heilsugæslu og hjúkrunarheimilis í Hamranesi

      Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu:

      Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn fimm manna starfshóp kjörinna fulltrúa, sem njóti stuðnings og aðstoðar sviðsstjóra fjölskyldusviðs, framkvæmdasviðs og stjórnsýslusviðs. Verkefni hópsins, er að halda áfram viðræðum við Sóltún, heilbrigðisráðuneyti, sjúkratryggingar ríkisins og aðra hagaðila verkefnisins. Starfshópurinn hafi samráð við aðra aðila, svo sem Öldungaráð og aðra þá sem geta miðlað þekkingu og sjónarmiðum í málinu. Starfshópurinn skili áfangaskýrslu og tillögum um verkefnið, s.s. varðandi aðferðafræði, fjármögnun og tímaramma um þessa mikilvægu uppbyggingu og rekstur. Fyrsti áfangi starfshópsins liggi fyrir eigi síðar en 1. mars næstkomandi.

      Bæjarstjórn samþykkir að vísa málinu til umfjöllunar í Fjölskylduráði, Umhverfis og framkvæmdaráði og bæjarráði milli fyrri og síðari umræðu fjárhagsáætlunar og komi til afgreiðslu í bæjarstjórn á fundi hennar 4.desember n.k. Auk þess verði tillagan send til umsagnar Öldungaráðs og Félags eldri borgara.

      Greinargerð:
      Á síðasta kjörtímabili var samþykkt af öllum flokkum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að heilsugæslu og hjúkrunarheimili skyldi rísa í Hamranesi. Þetta var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 23. júní 2021 og bæjarstjórn fól bæjarstjóra að fylgja málinu eftir. Auglýst var eftir áhugasömum aðilum til þess að koma að uppbyggingu og rekstri hjúkrunarheimilis og heilsugæslu og var Sóltún eini aðilinn sem sendi bænum erindi vegna auglýsingarinnar. Viðræður við Sóltún og aðra hagaðila eru ekki langt á veg komnar. Mikilvægt er að halda þeirri þverpólitísku samstöðu sem verið hefur um málið og koma viðræðum við Sóltún, heilbrigðisráðuneytið, Sjúkratryggingar ríkisins og aðra hagaðila verkefnisins í formlegan farveg með aðkomu meiri- og minnihluta í bæjarstjórn. Hér er um gríðarstórt og mikilvægt málefni að ræða fyrir íbúa áðurnefndra hverfa í Hafnarfirði og þess vegna leggja fulltrúar jafnaðarfólks í bæjarstjórn fram þessa tillögu um formlegan samstarfsvettvang bæjarstjórnar.

      2. Samþætting heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu

      Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggjar fram eftirfarandi tillögu:

      Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felur bæjarstjóra að óska eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í Hafnarfirði.

      Lagt til að tillagan fari til umfjöllunar og umsagnar í fjölskylduráði og bæjarráði, Öldungaráði, Félagi eldri borgara, verkefnisstjórn hjúkrunarheimilisins á Sólvangi og stjórn Sólvangs.

      Greinargerð:
      Mikilvægt er að leita allra leiða til þess að bæta og styrkja þá nærþjónustu sem hið opinbera veitir íbúum bæjarins. Oft hefur umræða farið fram um hvort hægt sé að styrkja hvoru tveggja heimahjúkrun, sem er á hendi ríkisins og félagslega heimaþjónustu, sem er á hendi sveitarfélaganna með aukinn samþættingu. Ýmis tilraunaverkefni í þessa veru hafa átt sér stað t.d. á Akureyri með góðum árangri. Nú hefur Reykjavík með samningi við heilbrigðisráðuneytið tekið að sér að reka stóran hluta heimahjúkrunar fyrir ríkið. Mikilvægt er að Hafnarfjörður taki frumkvæði í þessum mikilvæga velferðarmáli og taki forystu þegar kemur að því að efla og bæta nærþjónustuna fyrir íbúa Hafnarfjarðar.

      3. Bókasafn

      Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu:

      Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að settur verði á stofn fimm manna starfshópur, sem hafi það verkefni að undirbúa flutning Bókasafns Hafnarfjarðar í hið nýja húsnæði við Fjarðargötu. Starfshópurinn fylgi eftir og gangi frá samkomulagi við verkaðila og eigendur að verslunarmiðstöðinni Firði um hlut Hafnarfjarðarbæjar í nýbyggingunni, sem tekin var skóflustunga að þann þann 29. nóvember 2022. Framkvæmdir eru þannig vel á veg komnar og verklok eru áformuð seint á næsta ári. Fyrir liggur viljayfirlýsing bæjar og eigenda/framkvæmdaaðila um að hlut Hafnarfjarðarbæjar í hinu nýja húsnæði; um 1500fm sem verði hið nýja Bókasafn Hafnarfjarðar. Mikilvægt er að undirbúningur þessa stórverkefnis hefjist nú þegar.

      Tillagan fari til umsagnar í menningar- og ferðamálanefnd og bæjarráði milli fyrri og síðari umræðu um fjárhagsáætlun.

      Greinargerð:
      Ljóst er að nú þegar þarf að ramma af og undirbúa til fullnustu byggingu nýs Bókasafns Hafnarfjarðar. Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar er ekki gert ráð fyrir neinum fjárhæðum í verkefnið en gert ráð fyrir er ráð fyrir 382 milljónum í tekjur af sölu á Strandgötu 1. Því er brýnt að hefjast handa nú þegar að hefja undirbúning framkvæmdarinnar, m.t.t. kostnaðargreiningar, leigu eða kaup á nýju húsnæði og aðra þætti sem sem nauðsynlegt er að gaumgæfa. Til að flýta þeirri grunnvinnu verði skipaður starfshópur til þess að undirbúa og vinna málið.

      4. Opinn kynningarfundur – íbúafundur um fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun

      Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu:

      Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að á milli fyrri og síðari umræðu í bæjarstjórn verði haldinn opinn kynningarfundur fyrir íbúa þar sem fjárhagsáætlun 2024 og 2025-2027 verður kynnt fyrir íbúum.

      Greinargerð:
      Virkt íbúalýðræði á að vera í öndvegi við stjórnun sveitarfélagsins. Það er mikilvægt að íbúar hafi fjölbreytt tækifæri til þess að kynnast starfsemi sveitarfélagsins og möguleika til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri milliliðalaust við bæjarstjórn og stjórnendur bæjarfélagsins. Fjárhagsáætlun er mikilvægasta stefnumótunartæki þess meirihluta sem situr hverju sinni. Því er mikilvægt að bæjarbúar fái góða og ítarlega kynningu á þeirri stefnumótun sem þar er að finna og hafi tækifæri til þess að leggja fram spurningar og koma með athugasemdir.

      5. Gjaldskrá vegna skólamáltíða

      Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu:

      Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar vegna skólamáltíða í leik – og grunnskólum verði hækkuð þannig að kostnaðarhlutdeild bæjarins verði 50% frá og með 1. janúar 2024.

      Tillagan fari til umsagnar í Fræðsluráði, bæjarráði, Foreldraráði Hafnarfjarðar, Leiskólaráði Hafnarfjarðar og hjá skólastjórnendum milli umræðna um fjárhagsáætlun.

      Greinargerð:
      Sú ákvörðun meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að hækka gjaldskrá notenda vegna skólamáltíða í grunnskólum um 33% og um 19% í leikskólum frá og með 1. nóv. sl. bitnar verst á þeim sem búa við kröppustu kjörin í samfélaginu. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn þessari ákvörðun í bæjarstjórn. Foreldraráð Hafnarfjarðar hefur mótmælt þessari hækkun harðlega og telur að þessi mikla hækkun ýti undir ójafnræði milli barna og að hún sé á skjön við Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og lög um farsæld. Það er því brýnt að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks endurskoði þessa ákvörðun og dragi hana til baka. Vernda verður barnafjölskyldur í bænum gegn þessari miklu hækkun á gjaldskrá vegna skólamáltíða.

      Guðmundur Árni tekur til máls. Tekur einnig til máls undir fundarstjórn forseta.

      Forseti leggur næst til að fyrirliggjandi fjárhagsáætlun ásamt framlögðum tillögum að viðbótum verði vísað til þeirra ráða og nefnda sem við á. Er það samþykkt samhljóða.

      Einnig leggur forseti til að síðari umræða um fjárhagsáætlun fari fram 4. desember nk.

      Umræður um tillögur.

      Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:

      Vegna fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðarbæjar 2024 og 2025, 2026.

      Eftirfarandi spurningum er vísað til hlutaðeigandi aðila í stjórnkerfi Hafnarfjaðarbæjar og óskað svara hið fyrsta, amk. viku fyrir síðari umræðu fjárhagsáætlunar 4.desember

      1.Hver er hækkun fasteignaskatta og lóðaleigu (sundurliðað) á íbúðarhúsnæði /atvinnuhúsnæði (sundurliðað) í Hafnarfirði frá desember 2022 til desember 2023, í prósentuvís og krónum? Og hver verður upphæðin og hækkunin í desember 2024 (áætlun) miðað við forsendur fjárhagsáætlunar um 9,9% hækkun álagningar? Með og án aukningar í greiðendahópnum. Hver hefur vísitala neysluverðs verið til samanburðar á ofangreindu tímabili? Hver er krónutöluhækkun á íbúðarhúsnæði sem var í fasteignamati 2021 metin á 50 milljónir króna miðað við ofangreind tímabil og forsendur.? Hvað greiddi viðkomandi greiðandi í desember 2022 , desember 2023 og hvað mun hann greiða í desember 2024?

      2. Óskað er upplýsingar um er varðar áætlaða fjölgun greiðenda á komandi ári í útsvari og forsendur þar að baki. Einnig um fjölgun greiðenda í fasteignaskatti og forsendur þar að baki.

      3. Óskað er sundurliðunar á tekjum vegna gatnagerðargjalda, byggingarréttargjalda og innviðagjalda og forsendum þar að baki, svo sem varðandi hlutfall íbúðarlóða og atvinnulóða, hvaða svæði er um að ræða í bænum osfrv. Sundurliðun á við árið 2023 og svo skv. áætlun 2024

      4.Undirbúningur að nýjum skóla í Hamranesi. Í greinargerð með fjárhagsáætlun á bls.19 segir að „á árinu 2024 verð hafinn undirbúningur að grunnskóla í Hamranesi…“ Í sundurliðun fjárfestinga í sömu greinargerð undir heitinu Skólar, þá er er þetta verkefni ekki skráð. Hvað veldur? Undir safnheitinu er liður sem nefnist, Lagfæringar og uppbygging í skólum að upphæð 337 milljónir króna er þar að finna. Óskað er eftir sundurliðun á þeim lið.

      6. Undir safnheitinu, Fasteignaverkefni, óskilgreint, á bls. 57 í greinargerð með fjárhagsáætlun er að finna áætlun um útgjöld á árunum 2025-2028, samtals 1700 milljónir króna. Ekki er gert ráð fyrir útgjöldum á árinu 2024. Hvað er þarna að baki?

      5. Í greinargerð bæjarstjóra og bæjaryfirvalda með fjárhagsáætlun segir á bls.28, undir Menningarmál: „Samkomulag við Gaflaraleikhúsið gerir ráð fyrir leikhússtarfsemi með áherslu á sýningar fyrir börn við Víkingastræti….“. Er bæjaryfirvöldum ekki kunnugt um það, að húsnæðið var selt á árinu og leikhúsið hefur leitað að nýju húsnæði fyrir starfsemina og óskað aðstoðar bæjaryfirvalda í þeim efnum? Er annars eitthvað að frétta af vinnu við öflun viðunandi húsnæðis fyrir Gaflaraleikhúsið, sem er án húsnæðis eins og sakir standa?

      6. Óskað er greinargerðar frá Húsnæðisskrifstofu varðandi nýtingu fjárheimilda í fjárhagsáætlunum 202 og 2021, hversu margar íbúðir voru keyptar og á hvaða kjörum (áhvílandi lán, ný lán). Hvert er venjubundið verklag við kaup eigna. Eru íbúðir staðgreiddar eða sóst eftir hagkvæmri lántöku, sem leigjendur síðan standa undir með hóflegri leigu? Hverjar eru leigutekjur af útleigu félagslegra íbúða. Hversu mikil lán eru samtals áhvílandi á þeim 247 íbúðum sem eru reknar af Húsnæðisskrifstofu? Í greinargerð með fjárhagsáætlun segir á bls. 49 :“Fasteignamarkaðurinn hefur verið erfiður á þessu ári og lítið framboð af eignum sem hafa hentað Húsnæðisskrifstofunni.“ Hvernig kemur það heim og saman við gríðarlegt framboð íbúða, en lítil viðskipti á markaði? Hver er framtíðarstefnumörkun Húsnæðisskrifstofu varðandi fjölda íbúða á markaði? Hvernig metur Húsnæðisskrifstofa möguleika sína til að mæta eftirspurn í ljósi biðlista sem telur meira en 200 aðila í brýnni þörf?

    Fundargerðir

    • 2310031F – Hafnarstjórn - 1648

      Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 25.október sl.

      Lagt fram.

    • 2310042F – Hafnarstjórn - 1649

      Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 1.nóvember sl.

      Lagt fram.

    • 2301155 – Heilbrigðiseftirlit, fundargerðir 2023.

      Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 30.október sl.

      Lagt fram.

    • 2310023F – Menningar- og ferðamálanefnd - 418

      Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 25.október sl.

      Lagt fram.

    • 2311002F – Menningar- og ferðamálanefnd - 419

      Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 8.nóvember sl.

      Lagt fram.

Ábendingagátt