Bæjarstjórn

12. október 2022 kl. 14:00

í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg

Fundur 1896

Mætt til fundar

 • Kristinn Andersen forseti
 • Valdimar Víðisson aðalmaður
 • Margrét Vala Marteinsdóttir aðalmaður
 • Sigrún Sverrisdóttir aðalmaður
 • Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður
 • Hildur Rós Guðbjargardóttir aðalmaður
 • Jón Ingi Hákonarson aðalmaður
 • Guðbjörg Oddný Jónasdóttir varamaður
 • Stefán Már Gunnlaugsson varamaður
 • Hilmar Ingimundarson varamaður
 • Lovísa Björg Traustadóttir varamaður

Mættir voru allir að bæjarfulltrúar að undanskildum þeim Rósu Guðbjartsdóttur, Kristínu Thoroddsen, Orra Björnssyni og Guðmundi Árna Stefánssyni en í þeirra stað sátu fundinn Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, Lovísa Björg Traustadóttir, Hilmar Ingimundarson og Stefán Már Gunnlaugsson.

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stýrði honum.

Ritari

 • Ívar Bragason Bæjarlögmaður og ritari bæjarstjórnar

Mættir voru allir að bæjarfulltrúar að undanskildum þeim Rósu Guðbjartsdóttur, Kristínu Thoroddsen, Orra Björnssyni og Guðmundi Árna Stefánssyni en í þeirra stað sátu fundinn Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, Lovísa Björg Traustadóttir, Hilmar Ingimundarson og Stefán Már Gunnlaugsson.

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stýrði honum.

 1. Almenn erindi

  • 2210125 – Ungmennaráð, tillögur 2022

   Lagðar fram tillögur ungmennaráðs 2022.

   Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar fer yfir fyrirliggjandi tillögur og leggur til að þær verði afgreiddar þannig:

   1. Leikvellir og leiktæki í Hafnarfirði

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að leikvellir og leiktæki í Hafnarfirði verði gerð upp og
   þeim fjölgað.

   Vísað til Umhverfis- og framkævmdaráð.

   2. Aukin áhrif Ungmennaráðs Hafnarfjarðar

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að ungmennaráð fái áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt í fræðsluráði bæjarins.

   Vísað til fræðsluráðs og einnig vísað til bæjarráðs.

   3. Samræmt einkunnakerfi í grunnskólum Hafnarfjarðar

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að einkunnagjöf í grunnskólum Hafnarfjarðar sé samræmd svo það sé á hreinu hvað hver bókstafur í einkunnakerfinu merkir.

   Vísað til fræðsluráðs.

   4. Aðstaða fyrir valgreinar í grunnskólum Hafnarfjarðar

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að boðið verði upp á betri aðstöðu fyrir valgreinar í grunnskólum Hafnarfjarðar.

   Vísað til fræðsluráðs.

   5. Fleiri ruslatunnur í Hafnarfirði

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að ruslatunnum verði fjölgað í Hafnarfirði.

   Vísað til umhverfis- og framkvæmdaráðs.

   6. Betri og ódýrari Strætó

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að fargjöld Strætó verði endurskoðuð með því markmiði að lækka samgöngukostnað barna og ungmenna. Þá vill ungmennaráð að leiðakerfi Strætó verði bætt með tíðari ferðum.

   Vísað til umhverfis- og framkvæmdaráðs.

   7. Samráð við ungmennaráð Hafnarfjarðar

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að bæjarstjórn hafi meira samráð við ungmennaráð Hafnarfjarðar og hleypi því í auknum mæli að borðinu þegar verið er að taka ákvarðanir sem
   hafa áhrif á ungmenni í bænum.

   Vísað til fræðsluráðs og einnig vísað til bæjarráðs.

   8. Staða hinsegin ungmenna í Hafnarfirði

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að bærinn ráðist í aðgerðir til að bæta stöðu hinsegin ungmenna í Hafnarfirði.

   Vísað til fræðsluráðs.

   9. Betri og hollari skólamat fyrir börn

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að ráðist verði í endurskoðun á fyrirkomulagi skólamáltíða í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar með því markmiði að bjóða upp á hollari mat og meira grænmetisfæði.

   Vísað til fræðsluráðs.

   10. Skapandi sumarstörf allt árið um kring

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að bærinn bjóði upp á skapandi störf fyrir ungmenni allt árið um kring, að fyrirmynd Skapandi sumarstarfa sem boðið er upp á hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar.

   Vísað til fræðsluráðs.

   11. Betri kynfræðsla í grunnskólum

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að ráðist verði í endurskoðun á kynfræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar svo allir nemendur fái betri fræðslu fyrr á skólagöngunni.

   Vísað til fræðsluráðs.

   12. Eftirfylgni á tillögum ungmennaráðs

   Ungmennaráð Hafnarfjarðar hvetur bæjarstjórn til að fylgja betur eftir tillögum ráðsins og
   tryggja að farið sé eftir samþykktum tillögum.

   Vísað til bæjartstjóra og einnig vísað til bæjarráðs.

   Til máls taka Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, Valdimar Víðisson, Stefán Már Gunnlaugsson, Jón Ingi Hákonarson. Einnig Árni Rúnar Þorvaldsson sem leggur einig fram tillögu um að tillögum 2, 7 og 12 verði einnig vísað til bæjarráðs.

   Þá tekur Margrét Vala Marteinsdóttir til máls. Einnig Hilmar Ingimundarson.

   Kristinn Andersen ber upp framkomna tillögu um að tillögum 2, 7 og 12 verði einnig vísað til bæjarráðs og er það samþykkt samhljóða ásamt fyrirliggjandi tillögum ungmennaráðs.

  • 2206176 – Erindisbréf ráða og nefnda 2022-2024, endurskoðun

   3.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 4.október sl.
   Lögð fram drög að erindisbréf fjölskylduráðs.

   Fjölskylduráð samþykkir framlagt erindisbréf og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

   Samþykkt samhljóða.

  • 1903474 – Hestamannafélagið Sörli, framkvæmdasamningur, erindi

   Til umræðu.

   Til máls tekur Stefán Már Gunnlaugsson. Til andsvars kemur Valdimar Víðisson sem Stefán Már svarar.

   Einnig tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls og Valdimar Víðisson kemur til andsvars sem Árni Rúnar svarar.

   Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls og Árni Rúnar kemur til andsvars sem Jón Ingi svarar. Árni Rúnar kemur þá til andsvars öðru sinni. Þá kemur Valdimar til andsvars við ræðu Jóns Inga.

   Stefán Már kemur að svohljóðandi bókun:

   Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi bókun:
   Samfylkingin styður uppbyggingu reiðhallar Sörla, sem mun efla starf hestamannafélagsins, Sörla, styðja við íþróttina hestamennsku og verða mikil lyftistöng fyrir hestafólk í Hafnarfirði og á það ekki síst við um barna- og unglingastarfið í bænum. Undirbúningurinn hefur tekið langan tíma en loksins hillir nú undir nýja og glæsilega reiðhöll á Sörlastöðum.

   Framkvæmdin er kostnaðarsöm og yfir áætlun. Á sama tíma er fjárhagur Hafnarfjarðarbæja afar þröngur, en samkvæmt árshlutauppgjöri er hallarekstur um 1.5 milljarður króna. Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur hvorki búið í haginn fjárhagslega eða lagt til áætlun um hvernig á að standa undir þessari miklu fjárfestingu, nema með áframhaldandi framúrkeyrslu í rekstri bæjarins. Meirihlutinn ber fulla ábyrgð á skuldsetningu bæjarsjóðs og hefur ekki lagt fram neinar tillögur um hvernig eigi að bæta þar úr. Fjárhagsvandræði bæjarins mega ekki bitna á nauðsynlegri uppbyggingu eins og reiðhallar Sörla.

  • 2209790 – Námsflokkar Hafnarfjarðar

   Námsflokkar Hafnarfjarðar.
   Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu:

   Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að fela fræðsluráði að leggja fram tillögur um eflingu sí- og endurmenntunar í bænum og um leið styrkingu á starfi Námsflokka Hafnarfjarðar. Tillögurnar skulu liggja fyrir innan sex vikna, þannig að unnt verði að taka mið af þeim við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2023. Greinargerð: Starfsemi innan Námsflokka Hafnarfjarðar hefur verið lítil sem engin upp á síðkastið og virðist vera að lognast út af. Því er mikilvægt að fræðsluráði verði falið að finna Námsflokkum Hafnarfjarðar, þá sérstaklega íslenskukennslu fyrir nýja íslendinga, nýtt heimili.

   Til máls tekur Sigrún Sverrisdóttir. Einnig Jón Ingi Hákonarson og Sigrún kemur til andsvars. Þá tekur Margrét Vala Marteinsdóttir til máls.

   Þá tekur Árni Rúnar Þorvaldsson til máls. Einnig Stefán Már Gunnlaugsson.

   Forseti ber upp fyrirliggjandi tillögu og er hún felld með sex atkvæðum meirihluta gegn fimm atkvæðum frá fulltrúum minnihluta.

   Fundarhlé kl. 15:19.

   Fundi framhaldið kl. 15:29.

   Sigrún Sverrisdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

   Fulltrúar Samfylkingarinnar harma áhugaleysi meirihluta Framsóknar – og Sjálfstæðisflokks á sí- og endurmenntun í bænum. Tillaga Samfylkingarinnar snýr einungis að því að þessi málaflokkur yrði tekinn til skoðunar í fræðsluráði og í kjölfarið leggði fræðsluráð fram tillögur til eflingar fullorðinsfræðslu í Hafnarfirði. Stefnuleysi meirihlutans og skortur á framtíðarsýn birtist í þessari afgreiðslu hér í dag.

   Margrét Vala Marteinsdóttir kemur einnig að svohljóðandi bókun:

   Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins geta ekki fallist á tillögu Samfylkingarinnar um að vísa tillögu sinni til fræðsluráðs. Námsflokkar Hafnarfjarðar voru mikilvægir þegar framboð á námskeiðum var af skornum skammti og sveitarfélög sáu almennt um fræðslu fyrir fullorðna.
   Í ljósi þessa og þeirrar vitundar að Hafnfirðingar geta sótt í námskeið sem haldin eru víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, án aðkomu bæjarins teljum við ekki ástæðu til að endurvekja Námsflokka Hafnarfjarðar og samþykkir því meirihluti bæjarstjórnar ekki tillögu Samfylkingarinnar. Þá leggur meirihluti bæjarstjórnar áherslu á að unnið sé áfram að því að endurvekja kennslu til þeirra sem eru með annað móðurmál en íslensku í bókasafni Hafnarfjarðar líkt og verið hefur undanfarin ár.

   Árni Rúnar Þorvaldsson gerir grein fyrir atkvæði sínu sem og Jón Ingi Hákonarson.

  • 2208463 – Samfylkingin fyrirspurn um leikskólamál

   TIl umræðu.

   Til máls tekur Hildur Rós Guðbjargardóttir. Til andsvars kemur Hilmar Ingimundarson.

   Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls.

   Hildur Rós leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

   Síðasta kjörtímabil einkenndist af átökum um starfsemi leikskóla í boði meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Tekist var á um kjör ófaglærðs starfsfólks sem eru lakari í Hafnarfirði en í nágrannasveitarfélögunum. Einnig setti meirihlutinn starf leikskólans í uppnám með ákvörðun um sumaropnun leikskólans. Vinda verður ofan af þessum vinnubrögðum á þessu kjörtímabili. Skipan starfshóps um skipulag leikskóladagsins er vonandi skref í þá átt.

   Svar við fyrirspurn Samfylkingarinnar sem lagt var fram á fundi fræðsluráðs þann 21. sept. sl. leiddi í ljós að leikskólar í Hafnarfirði búa við mönnunarvanda. Í því kom fram að 11 af 17 leikskólum bæjarins eru ekki fullmannaðir og að enn átti eftir að ráða í 25 stöðugildi. Fjöldi fólks, bæði faglærðir og ófaglærðir, hefur sagt upp störfum í leikskólum bæjarins á síðustu árum. Mikilvægt er að bregðast við þessari stöðu með markvissum aðgerðum og skjótum hætti með það að markmið að bæta starfaðstæður leikskólastarfsfólks.

   Hilmar Ingimundarson tekur máls.

  • 2209163 – Frístundaheimili í Hafnarfirði

   Til umræðu.

   Til máls tekur Árni Rúnar Þorvaldsson. Hilmar Ingimundarson tekur til máls og Árni Rúnar kemur til andsvar. Þá tekur Stefán Már Gunnlaugsson til máls.

   Þá tekur Hilmar Ingimundarson til máls öðru sinni.

   Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:

   Í svari við fyrirspurn Samfylkingarinnar sem lagt var fram á fundi fræðsluráðs þann 21. september sl. kom fram að 91 barn væri á biðlista eftir plássi í frístund. Þar kom einnig fram að óráðið væri í 10,5 stöðugildi hjá frístundarheimilum í bænum. Þá var mánuður liðinn frá því grunnskólar voru settir. Það er ekki ásættanlegt hversu langan tíma tekur að fullmanna frístund í bænum og það kemur fyrst og fremst niður á börnum og barnafjölskyldum. Frístundarheimilin eru mikilvægur þáttur í þjónustu við börn og barnafjölskyldur og bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hvetja til þess að málefni frístundar verði tekin fastari tökum og allra leiða sé leitað til að leysa úr vanda þeirra.

   Margrét Vala Marteinsdóttir kemur að svohljóðandi bókun.

   Bæjarfulltrúar meirihluta bóka: Í minnisblaði sem lagt var fram þann 29. september varðandi mönnun frístundar kom fram að öll börn sem sótt var um áður en umsóknarfrestur var útrunninn hafa fengið pláss í frístund en í minnsiblaði kom einnig fram að verið væri að auglýsa eftir starfsfólki til að manna þær stöður sem vantaði fyrir börn sem sótt var um nú í haust þegar skólinn hófst. Fyrirliggjandi fyirspurn verði vísað til fræðsluráðs.

  • 1809298 – Tækniskólinn, nýbygging, erindi

   Tækniskólinn nýbygging.
   Fulltrúar samfylkingarinnar leggja fram eftirfararndi tillögu:

   Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að skipa 5 fulltrúa starfshóp til undirbúnings á flutningi Tækniskolans til Hafnarfjarðar. Bæjarráði er falið að skipa starfshópinn og gera honum erindisbréf.

   Hildur Rós Guðbjargardóttir tekur til máls. Einnig Valdimar Víðisson. Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að andsvari sem Valdimar svarar og Árni kemur þá að andsvari öðru sinni.

   Þá tekur Stefán Már Gunnlaugsson til máls.

   Forseti ber upp fyririggjandi tillögu og er hún felld þar sem sex fulltrúar meirihluta greið atkvæði gegn tillögunni en fjórir fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði með tillögunni og fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

   Fundarhlé kl. 16:18.

   Fundi framhaldið kl. 16:29.

   Hildur Rós Guðbjargardóttir kemur að svohljóðandi bókun:

   Fulltrúar Samfylkingarinnar ítreka mikilvægi uppbyggingar Tækniskólans í Hafnarfirði og benda á frá því viljayfirlýsing var undirrituð fyrir rúmu ári síðan, 8. júlí 2021, hefur málið lítið þokast áfram. Svör bæjarstjóra við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar um málið undirstrika kyrrstöðu málsins. Framundan eru miklar breytingar á hafnarsvæði og brýnt að leysa sem fyrst húsnæðisvanda Tækniskólans. Samfylkingin furðar sig því á að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafni tillögu Samfylkingarinnar um að setja á laggir starfshóp sem flýtir fyrir flutningi Tækniskólans til bæjarins og stuðlar að vönduðum vinnubrögðum.

   Valdimar Víðisson kemur að svohljóðandi bókun:

   Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað í verkefnastjórn um þetta verkefni. Í skipunarbréfi kemur m.a. fram að hlutverk verkefnastjórnar sé m.a. að leiða fram niðurstöðu um fjármögnun og eignarhald á húsnæði Tækniskólans. Skoðaðar verði leiðir til fjármögnunar verkefnisins og hvernig eignarhaldi á framtíðarhúsnæði skólans verði háttað. Verkefnastjórn á að móta framtíðarsýn um verkefnið í samhengi við stefnu og áherslur mennta- og barnamálaráðuneytis. Hópnum ber að skila tillögum fyrir 1. nóvember. Það er því mikilvægt fyrir okkur að fá þær tillögur áður en ákveðið er að skipa í starfshóp.

   Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks telur því ekki tímabært að stofna starfshóp til viðbótar verkefnastjórn á þessu stigi. Tillögunni er því hafnað.

  Fundargerðir

  • 2201211 – Fundargerðir 2022, til kynningar í bæjarstjórn

   Fundargerðir skipulags-og byggingaráðs frá 28.september og 6.október sl.
   Fundargerðir umhverfis- og framkvæmdaráðs 27.september og 5.október sl.
   a. Fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 15.ágúst sl.
   Fundargerð fræðsluráðs frá 5.október sl.
   a. Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 27.september sl.
   Fundargerð bæjarráðs frá 6.október sl.
   a. Fundargerð hafnarstjórnar frá 21.september sl.
   b. Fundargerð heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnes frá 3.október sl.
   c. Fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 3.október sl.
   d. Fundargerð 4.fundar Stefnuráðs byggðasamlaganna frá 13.september sl.
   e. Fundargerð 38.eigendafundar Strætó bs. frá 26.september sl.
   f. Fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 15.ágúst sl.
   Fundargerð forsetanefndar frá 10.október sl.

   Til máls tekur Árni Rúnar Þorvaldsson undir 1. lið fræðsluráðs frá 5. október sl. Valdimar Víðsson kemur til andsvars sem Árni svarar.

Ábendingagátt