Bæjarstjórn

15. mars 2023 kl. 14:00

í fundarsal bæjarstjórnar Hafnarborg

Fundur 1906

Mætt til fundar

  • Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri
  • Kristinn Andersen forseti
  • Skarphéðinn Orri Björnsson aðalmaður
  • Kristín María Thoroddsen aðalmaður
  • Valdimar Víðisson aðalmaður
  • Margrét Vala Marteinsdóttir aðalmaður
  • Guðmundur Árni Stefánsson aðalmaður
  • Árni Rúnar Þorvaldsson aðalmaður
  • Hildur Rós Guðbjargardóttir aðalmaður
  • Jón Ingi Hákonarson aðalmaður
  • Stefán Már Gunnlaugsson varamaður

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stýrði honum.

Ritari

  • Ívar Bragason Ritari bæjarstjórnar og bæjarlögmaður

Kristinn Andersen forseti bæjarstjórnar setti fundinn og stýrði honum.

  1. Almenn erindi

    • 2303286 – Ráðning æðstu stjórnenda skv.56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138 árið 2011 og 80. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar nr. 240 árið 2021

      Lögð fram drög að erindisbréfi valnefndar.

      Meirihlutinn tilnefnir eftirfarandi fulltrúa:
      Rósa Guðbjartsdóttir.
      Valdimar Víðisson.

      Minnihlutinn tilnefnir eftirfarandi fulltrúa:
      Guðmundur Árni Stefánsson.

      Bæjarstjórn samþykkur samhljóða fyrirliggjandi erindisbréf valnefndar ásamt tilnefningum fulltrúa.

    • 2206176 – Erindisbréf ráða og nefnda 2022-2024, endurskoðun

      9.liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 8.mars sl.
      Lagt fram endurgert erindisbréf Íþrótta- og tómstundanefndar.

      Samþykkt og vísað til bæjarstjórnar til samþykktar.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi erindisbréf.

    • 2108512 – Hverfisgata 22, deiliskipulag

      6.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 9.mars sl.
      Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa þann 22.2.2023 var tekið fyrir erindi Borghildar Þórisdóttur um breytingu á deiliskipulagi og því var vísað til skipulags- og byggingarráðs. Gert er ráð fyrir endurbyggingu/lagfæringu húss og að 2 hliðar/bakbyggingar á lóð verði rifnar og einnar hæðar byggingar byggðar í stað þeirra. Kvaðir um safnaðarheimili og göngustíg felldar niður.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir að auglýsa breytingu á deiliskipulagi miðbæjar, hraun vestur vegna lóðarinnar Hverfisgata 22 og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 2207373 – Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum

      Tillaga Samfylkingar um markmið og áherslur.

      Til máls tekur Árni Rúnar Þorvaldsson og leggur fram svohljóðandi tillögu:

      Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felur bæjarráði að ganga frá samningi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á grundvelli rammasamnings innviðaráðuneytisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um húsnæðisáætlun Íslands 2023-2032, í samræmi neðangreind samningsmarkmið. Samningur skal liggja fyrir 2. apríl 2023.

      Samningsmarkmið Hafnarfjarðar:

      1. Hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði. Sett verði markmið um að hlutfall almennra íbúða og annarra íbúða, sem byggðar verði án hagnaðarsjónarmiða, s.s. fyrir stúdenta, eldri borgara og öryrkja en einnig ungt fólk og fyrstu kaupendur sem falli undir hlutdeildarlán, nái að jafnaði 30% í Hafnarfirði.
      2. 5% íbúða verði félagslegar íbúðir í eigu Hafnarfjarðar. Stefna Hafnarfjarðar verði að tryggja með samningum við uppbyggingaraðila og með eigendastefnu og fjármögnun stofnframlaga til Húsnæðisskrifstofu Hafnarfjarðar að 5% nýrra íbúða verði félagslegar íbúðir í eigu Hafnarfjarðarbæjar.
      3. Ráðist verði í átak við að eyða biðlistum á sérstökum búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk í Hafnarfirði. Ljóst er að forsenda þess er að tryggð verði full fjármögnun á uppbyggingunni og rekstri viðkomandi búsetukjarna með samningum við ríkið.
      4. Stuðningur við innviðauppbyggingu og fjármögnun þeirra. Mikilvægt er að ríkið styðji við húsnæðisuppbyggingu innan sveitarfélaga, s.s. með beinum stuðningi og/eða með öruggum aðgangi að lánsfé til innviðauppbyggingar á góðum kjörum, t.d. við uppbyggingu hagkvæmra íbúða í nálægð við almenningssamgöngur og styðja þannig við samgöngusáttmálann.

      Til andsvars kemur Valdimar Víðisson og leggur fram tillögu um að fyrirliggjandi tillögu verði vísað frá.

      Árni Rúnar svarar andsvari.

      Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Til andsvars kemur Valdimar Víðisson sem Guðmundur Árni svarar.

      Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls. Til andsvars kemur Guðmundur Árni. Jón Ingi svarar andsvari. Þá kemur Rósa Guðbjartsdóttir til andsvars. Einnig Hildur Rós Guðbjargardóttir og Árni Rúnar.

      Guðmundur Árni tekur til máls öðru sinni. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir sem Guðmundur Árni svarar.

      Árni Rúnar tekur til máls öðru sinni.

      Forseti ber næst framkomna frávísunartillögu upp til atkvæða. Er tillagan samþykkt með 6 atkvæðum frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði á móti en fulltrúi Viðreisnar situr hjá.

      Valdimar Víðisson kemur að svohljóðandi bókun:

      Tillögunni er vísað frá þar sem málið er í undirbúningi og í eðlilegum farvegi innan stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar í samráði við HMS.

      Árni Rúnar Þorvaldsson kemur að svohljóðandi bókun:

      Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lýsa yfir vonbrigðum sínum með afstöðu meirihlutans. Í annað sinn á sex vikum heykist meirihlutinn, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, á því að samþykkja frágang rammasamkomulags við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og innviðaráðuneyti. Fyrst með því að fella slíka tillögu og nú á þessum fundi með frávísun – frávísun á tillögu sem byggir á samþykktri húsnæðisáætlun fyrir Hafnarfjörð. Þetta er óskiljanleg afstaða.

      Á sama tíma og þverpólitískt samstarf á sér stað í borgarstjórn Reykjavíkur um þessi nákvæmlega sömu mál, þá eru það gamaldags vinnubrögð sem ráða ríkjum hjá helmingaskiptaflokkunum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þar sem meirihlutaflokkarnir geta ekki hugsað sér að samþykkja tillögu jafnaðarfólks þó formaður bæjarráðs, oddviti Framsóknarflokksins, lýsi í því ræðustól að hann sé efnislega sammála tillögunni. Þá bregður meirihlutinn á það ráð að vísa tillögunni frá án þess að nokkur rökstuðningur komi fram í umræðunni fyrir því.

    • 2202571 – Víkingastræti 2, breyting á deiliskipulag

      10.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 26.janúar sl.
      Lögð fram til kynningar tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Víkingastræti 2.

      Skipulags- og byggingarráð samþykkir að auglýsa tillögu að deiliskipulag Víkingastrætis 2 og vísar til staðfestingar bæjarstjórnar.

      Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Orri Björnsson tekur einnig til máls.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs.

    • 2302625 – Næturstrætó

      Lögð fram tillaga frá Samfylkingunni.

      „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að ná samkomulagi við Strætó um að hefja nú þegar þjónustu næturstrætó fram og til baka, milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur . Kostnaður skv. athugun verður að hámarki 10 milljónir króna á ári. Kostnaði verði mætt með viðauka við fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir 2023, þar sem innnheimta þjónustugjalda við Garðabæ vegna viðtöku frárennslis verði um 30 milljónir á árinu í stað þeirra 12 milljóna króna, sem verið hefur. Bæjarstjóra verði falið að ganga frá breyttum samningi þar að lútandi.“

      Til máls tekur Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls. Til andsvars kemur Jón Ingi Hákonarson.

      Þá tekur Kristín Thoroddsen til máls og leggur til að framlagðri tillögu verði vísað frá. Guðmundur Árni kemur til andsvars sem Kristín svarar. Guðmundur Árni kemur til andsvars öðru sinni.

      Til máls tekur Árni Rúnar Þorvaldsson. Einnig Stefán Már Gunnlaugsson.

      Guðmundur Árni tekur til máls öðru sinni. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir sem Guðmundur Árni svarar.

      Stefán Már tekur til máls öðru sinni. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir sem Stefán Már svarar.Þá kemur Guðmundur Árni einnig til andsvars sem Stefán Már svarar.

      Árni Rúnar tekur til máls öðru sinni.

      Forseti ber næst framkomna frávísunartillögu upp til atkvæða. Er tillagan samþykkt með 6 atkvæðum frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar greiða atkvæði á móti frávísun.

      Kristín Thoroddsen kemur að svohljóðandi bókun:

      Tillögunni er vísað frá þar sem málið er enn til skoðunar. Meirihluti bæjarstjórnar veit að næturstrætó er góð þjónusta en hún var lögð af í stjórn Strætó í fyrra vegna mikilla rekstrarörðuleika byggðasamlagsins Strætó, sem liður í hagræðingaraðgerðum. Þjónustan var tekin upp á sínum tíma meðal annars af tilstuðlan núverandi meirihlutaflokka í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Fullur hugur er á að skoða málið áfram með nágrannasveitarfélögunum og fá upplýsingar um reynsluna af næturstrætó hjá Reykjavíkurborg eftir að borgin tók aksturinn upp á nýjan leik. En þegar rekstur Strætó hefur verið eins þungur og raun ber vitni þarf að ígrunda vel ráðstöfun fjármuna og hvenær réttlætanlegt er að bæta við þjónustuna. Varðandi þjónustugjöld vegna frárennslis í Garðabæ skal það áréttað að þeim samningi var sagt upp fyrir sex mánuðum

      Hildur Rós Guðbjargardóttir kemur að svohljóðandi bókun:

      Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur nú endanlega afhjúpað andstöðu sína, með því að hafna tillögu um bætta þjónustu við bæjarbúa með því að hafna tillögu Samfylkingarinnar um að hefja akstur næturstrætó milli Hafnarfjarðar og höfuðborgarinnar á nýjan leik. Það eru veruleg vonbrigði að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skuli ekki sjá sér fært að standa með íbúum, umferðaröryggi þeirra og öflugum almenningssamgöngum.

      Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

      Viðreisn styður þá hugmynd að næturstrætó gangi á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og hvetur meirihlutann til að leita allra leiða til að láta þessa hugmynd verða að veruleika sem fyrst með því að finna þá fjármuni sem til þarf ásamt því að ræða við fulltrúa Garðabæjar og Kópavogs.
      Útfærslan í tillögu Samfylkingarinnar þar sem lagt er til að rukka Garðabæ aukalega um tæpar tuttugu milljónir vegna fráveituþjónustu rímar illa við góða stjórnsýslu. Tekjur fráveitunnar eiga að standa undir rekstri hennar og engu öðru. Þessi tillaga er í hróplegu ósamræmi við þær umræður sem sköpuðust um útreikning fasteignagjalda. Það er ekki í lagi að nýta tekjur B hluta fyrirtækja til að greiða fyrir kostnað A hlutans.
      Aukist tekjur Fráveitu vegna þjónustusamnings við Garðabæ er réttast að lækka fráveitugjöld á móti til handa hafnfirskum heimilum.
      Viðreisn leggur áherslu á gagnsæi og samræmi þegar kemur að tekjum og gjöldum.
      Fulltrúi Viðreisnar styður næturstrætó en ekki útfærslu Samfylkingarinnar og hefði því viljað greiða atkvæði um tillögu Samfylkingarinnar

    • 2210415 – Opnun Bláfjallavegar

      Til umræðu.

      Til máls tekur Stefán Már Gunnlaugsson. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir sem Stefán Már svarar.

      Til máls tekur Jón Ingi Hákonarson og leggur fram svohljóðandi tillögu:

      Viðreisn leggur til að Bláfjallavegur verði opnaður fyrir umferð einkabíla þar til framkvæmdir Vegagerðarinnar hefjast við endurbætur á veginum.

      Þá tekur Guðmundur Árni Stefánsson til máls.

      Kristinn Andersen forseti leggur til að framkomin tillaga frá fulltrúa Viðreisnar verði vísað til bæjarstjóra.

      Til máls öðru sinni tekur Guðmundur Árni. Einnig Stefán Már. Til andsvars kemur Jón Ingi Hákonarson.

      Jón Ingi Hákonarson tekur til máls öðru sinni og leggur fram svohljóðandi breytta tillögu:

      Viðreisn leggur til að Bláfjallavegur verði opnaður fyrir umferð einkabíla þar til framkvæmdir Vegagerðarinnar hefjast við endurbætur á veginum og bæjarstjóra falið að fylgja málinu eftir með formlegu samtali við hlutaðeigandi aðila.

      Er tillagan samþykkt samhljóða.

      Rósa Guðbjartsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

      Upphaflega málið um opnun Bláfjallavegar er í ágætis farvegi en undirrituð óskað síðastliðið haust eftir aðstoð skrifstofu SSH við að ýta málinu áfram. Það hefur leitt til þess að Vegagerðin er búin að bjóða út frumhönnun á endurbættum vegi og verið er að fara yfir tilboð sem bárust í verkið. Með tillögunni sem nú er samþykkt er bæjarstjóra falið að kanna möguleika á opnun fyrir umferð einkabíla áður en þær framkvæmdir við endurbætur hefjast.

      Stefán Már Gunnlaugsson kemur að svohljóðandi bókun:

      Áskorun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um opnun Bláfjallavegar var samþykkt samhljóða 26.október að tilhlutan bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar. Forhönnun vegarins er hafin. Flýta þarf þessu verki eins og unnt er. Í tillögu jafnaðarmanna frá haustinu 2022 var ráð fyrir því gert að þungaumferð væri bönnuð. Tillaga Viðreisnar er í þeim anda. Því styðja fulltrúar Samfylkingarinnar hana.

    • 1709249 – Samþykktir um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar

      1.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 1.mars sl.
      2.liður úr fundargerð forsetanefndar frá 27.febrúar sl.
      Til afgreiðslu.

      Drögum að breyttri samþykkt um stjórn sveitarfélagsins visað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

      Sigrún Sverrisdóttir 1. varaforseti tekur við fundarstjórn.

      Kristinn Andersen tekur til máls. Árni Rúnar Þorvaldsson kemur til andsvars sem Kristinn svarar. Árni kemur þá til andsvars öðru sinni sem Kristinn svarar öðru sinni.

      Bæjarstjórn samþykkir að vísa fyrirliggjandi breytingum á samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar til annarrar umræðu.

      Valdimar Víðisson 2. varaforseti tekur við fundarstjórn.

      Kristinn Andersen tekur til máls og tekur svo við fundarstjórn á ný.

      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi breytingar á samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.

    Fundargerðir

    • 2301126 – Fundargerðir 2023, til kynningar í bæjarstjórn

      Fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 8.mars sl.
      a. Fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 24.janúar og 14.febrúar sl.
      b. Fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 24.febrúar sl.
      Fundargerð fjölskylduráðs frá 7.mars sl.
      Fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 9.mars sl.
      Fundargerð bæjarráðs frá 9.mars sl.
      a. Fundargerð hafnarstjórnar frá 21.febrúar sl.
      b. Fundargerð heilbrigðisnefndar Garðarbæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnes frá 6.mars sl.
      c. Fundargerð menningar- og ferðamálanefndar frá 1.mars sl.
      d. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 28. febrúar sl.
      e. Fundargerðir stjórnar SSH frá 3. og 20. febrúar sl.
      f. Fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 24.janúar og 14.febrúar sl.
      g. Fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 24.janúar sl.
      Fundargerð fræðsluráðs frá 8.mars sl.
      a. Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 28.febrúar sl.
      Fundargerð forsetanefndar frá 13. mars sl.

      Stefán Már Gunnlaugsson tekur til máls undir 4. lið í fundargerð fræðsluráðs.

      Árni Rúnar Þorvaldsson tekur til máls undir fundargerð fjölskylduráðs.

      Stefán Már tekur til máls undir 4. lið í fundargerð bæjarráðs. Guðmundur Árni Stefánsson tekur til máls undir sama lið. Valdimar Víðisson kemur til andsvars.

Ábendingagátt